Laugardagur 7. desember, 2024
-3.2 C
Reykjavik

Huliðsheimar Seðlabankans

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Leiðari úr 39. tölublaði Mannlífs

Það er óhætt að segja að uppljóstrun Ara Brynjólfssonar, blaðamanns Fréttablaðsins, um ríflegan starfslokasamning Ingibjargar Guðbjartsdóttur, fyrrverandi framkvæmdastjóra gjaldeyriseftirlits Seðlabankans, hafi valdið töluverðri hneykslan. Samkvæmt gögnum frá bankanum, sem Ari fékk afhend eftir mikið þref, fékk Ingibjörg 8 milljónir greiddar í styrk til að nema við Harvardháskóla, auk 60% af mánaðarlaunum sínum í 12 mánuði. Samkvæmt útreikningum Fréttablaðsins nema þessar greiðslur samtals 18 milljónum króna.

Undirrituð ræddi við Ara í vikunni og við vorum sammála um að upplýsingarnar frá bankanum vektu fleiri spurningar en þær svöruðu. Var Már Guðmundsson, þáverandi seðlabankastjóri, einráður um ákvarðanir sem þessar? Í gögnum sem komu fram þegar Ari var að berjast fyrir því að fá upplýsingar frá bankanum sagði m.a. að ýmsum ráðum hefði verið beitt til að halda í starfsfólk gjaldeyriseftirlitsins, m.a. bónusgreiðslum. Hverjir fengu slíkar bónusgreiðslur og hversu háar voru þær? Einnig er talað um álagsgreiðslur og vísað til þess að Ingibjörg hefði ekki fengið jafnháar greiðslur og aðrir; hvaða aðrir fengu álagsgreiðslur og hvaða upphæðum námu þær? Ari er ekki hættur að grafast fyrir um málið.

Már lét af störfum í ágúst síðastliðnum en steig fram í vikunni og sakaði Þórð Snæ Júlíusson, ritstjóra Kjarnans, um að hafa villst af leið í umfjöllun um fjárfestingaleið Seðlabankans. Þórður Snær hafði látið þau orð falla í Silfrinu á RÚV að fjárfestingaleiðin hefði verið ein skýrasta opinbera peningaþvættisleið sem hefði verið framkvæmd. „Þeir sem tóku þátt í fjárfestingarleiðinni gerðu það í gegnum fjármálafyrirtæki (aðallega innlenda viðskiptabanka) sem höfðu gert samning við Seðlabankann um slíka milligöngu. Í útboðsskilmálum og í milligöngusamningum er skýrt tekið fram að fjármálafyrirtækin skyldu annast könnun á umsækjendum með tilliti til mögulegs peningaþvættis. Það var ófrávíkjanlegt skilyrði að umsókn fylgdi staðfesting fjármálafyrirtækis að slík könnun hefði farið fram með jákvæðri niðurstöðu,“ segir Már í grein sem hann sendi Kjarnanum.

Þórður Snær dregur vandamál Más fram í dagsljósið í svargrein sem birtist á Kjarnanum í gær. Þar bendir hann m.a. á að einu kröfurnar sem voru gerðar til einstaklinga sem nýttu sér fjárfestingaleiðina væru að þeir væru ekki ekki til rannsóknar vegna mögulegra brota á gjaldeyrislögum. Þeir máttu hafa gert hvað sem er annað. En við vitum ekki hverjir tóku þátt í fjárfestingaleiðinni. Af hverju ekki? Jú, af því að hvorki Seðlabankinn né stjórnvöld hafa viljað veita þær upplýsingar; ekkert frekar en upplýsingar um rífleg verðlaun til handa starfsmönnum bankans. „Það liggur fyrir að bankarnir þekktu ekki viðskiptavini sína, samkvæmt úttektum FME. Það liggur fyrir að enginn annar kannaði hver uppruni fjármuna sem flæddu í gegnum leiðina var,“ segir Þórður Snær meðal annars.

Af hverju í ósköpunum á fólk að treysta nokkru sem snýr að starfsemi Seðlabankans? Þar fá blaðamenn, og þar með almenningur, ekkert nema dyrnar í andlitið. Ljósið í myrkrinu er að finna í beiðni bankans um flýtimeðferð máls þess fyrir dómi er bankinn höfðaði á hendur Ara til að fá niðurstöðu úrskurðarnefndar um upplýsingamál ógiltan. „Úrlausn þessa máls skiptir ekki aðeins umbj. minn, og fyrrum starfsmann hans, máli heldur einnig blaðamenn og annað fjölmiðlafólk enda er vinna þeirra að einhverju leyti byggð á upplýsingabeiðnum til stjórnvalda,“ segir meðal annars í beiðni lögmanns Seðlabankans. Málið sé „fordæmisgefandi“ og varði „alla stjórnsýsluna“.

- Auglýsing -

Maður getur bara vonað.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -