Miðvikudagur 27. mars, 2024
0.8 C
Reykjavik

Jólakökurnar

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Leiðari úr 46. tölublaði Vikunnar.

Nú, þegar flestir sitja margar veislur ár hvert, eru jólin kannski minna mál en áður var. Í mínum huga verður þetta þó alltaf töfratími. Þegar ég var barn var byrjað strax í nóvember að skúra, skrúbba, bóna, pússa, þvo og hreinsa óþarfa út úr skápum. Á þessu gekk alla daga og stundum fannst manni nóg um. Ekki var fyrr búið að dauðhreinsa íbúðina frá gólfi upp í rjáfur en tekið var til að matbúa og baka. Góðgætið mátti svo ekki snerta fyrr en á jólunum. Þetta er mikið breytt.

Nú er aðventan slökunartími hjá flestum og þótt vissulega sé þrifið og bakað er það allt með mun afslappaðri brag en áður var. Kökurnar meira að segja oftast borðaðar áður en jólahátíðin gengur í garð. Að sumu leyti sakna ég gamla góða jólastressins vegna þess að það hafði sína kosti. Til að mynda veitir ábyggilega ekki af að taka rækilega til í skápum á flestum heimilum árlega. Það kemur í veg fyrir að upp safnist óþarfahlutir. Hreingerningar eru líka ágætis forvörn gegn myglu í húsnæði. Þegar verið er að þrífa sér fólk betur rakabletti og getur því fyrr brugðist við. Að auki er loftað rækilega út meðan sápulyktin er megnust.

Það gerir manni líka gott að þurfa að bíða eftir einhverju, njóta þess að hlakka til og finna spenninginn byggjast upp. Jú, vissulega var maður yfirleitt of saddur fyrir allar smákökurnar þegar baukarnir voru loksins opnaðir á aðfangadagskvöld en samt þvílík dásemdartilfinning að vita að loksins væru þær leyfilegur munaður.

„Hún hefur enn jafngaman af að skreyta kökur og þegar hún byrjaði og saknar einskis úr heimi fjármála og viðskipta þar sem hún vann áður.“

Eva María Hallgrímsdóttir, eigandi Sætra synda, er á forsíðu Vikunnar að þessu sinni. Hún stofnaði kökuskreytingafyrirtæki og vann að því með fram annarri vinnu til byrja með. Ýmsir bakarar voru ekki sáttir við að hún færi á þennan hátt inn á verksvið þeirra og reyndu að leggja stein í götu hennar. Þeir höfðu ekki erindi sem erfiði, mest vegna þrautseigju hennar og framsýni. Og það varð til þess að mér datt í hug biðin eftir jólunum þegar ég var að alast upp. Hugsanlega kenndi hún manni þrautseigju, að bíða eftir hinu góða og stilla sig um að gleypa allt í einu jafnóðum og það varð til. Hreingerningarnar voru svo lexía í framsýni og forgangsröðun. Hverju átti að henda og hverju að halda? Skynja og sjá hvað mætti betur fara og taka ákvarðanir. Allt góður undirbúningur fyrir lífið. En hvernig sem hún lærði þessa mikilvægu eiginleika hefur hún þá í ríkum mæli. Fyrirtæki Evu Maríu vex og dafnar og nú vinnur hún við það eingöngu. Hún hefur enn jafngaman af að skreyta kökur og þegar hún byrjaði og saknar einskis úr heimi fjármála og viðskipta þar sem hún vann áður.

Sjá einnig: Var sagt að hún fengi ekki að hafa fyrirtækið í friði

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -