Föstudagur 20. september, 2024
9.9 C
Reykjavik

Klausturraunir

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Höfundur / Henry Alexander Henrysson, heimspekingur

Um daginn hafði ég ráðgert að hitta erlendan vin minn á kaffihúsi til að spjalla. Hann er franskur heimspekingur sem dvelur núna um stund á Íslandi. Eitt af því sem ég vissi að myndi bera á góma var íslenskt stjórnmálalíf og því hvarflaði að mér að hann hefði gaman af því að sjá vel gerða og áhugaverða myndasögu sem íslenskur höfundur, Elísabet Rún, birti í veftímaritinu The Nip. Sagan sem ber nafnið Six Politicians Walk Into A Bar fjallar um Klausturmálið frá áhugaverðum vinkli og held ég að megi segja að hún hafi vakið nokkra athygli.

Sjálfur ber ég fyrir augu í tveimur römmum í sögunni og fannst mér efni sögunnar vera tilvalið umræðuefni á fundi okkar vinanna. Ég sendi honum því slóðina áður en við settumst niður. Mér kom hins vegar á óvart hversu alvarlegur hann var þegar við hittumst og hversu mikið honum lá á að byrja umræður um Klausturmálið. Raunar virtist honum mest í mun að ræða það sem haft var eftir mér í sögunni: Hafði ég virkilega sagt þetta? Hvers vegna hafði ég svona miklar áhyggjur af einkalífi stjórnmálamanna? Og hvers vegna virtist ég hafa mestar áhyggjur af því hvaða skoðanir birtust í orðum kjörinna fulltrúa?

„Raunar virtist honum mest í mun að ræða það sem haft var eftir mér í sögunni: Hafði ég virkilega sagt þetta? Hvers vegna hafði ég svona miklar áhyggjur af einkalífi stjórnmálamanna?“

Það kom fljótt í ljós hvað það var sem truflaði vin minn, franska heimspekinginn, hvað mest. Honum fannst miklu skipta að stjórnmálamenn gætu átt sitt einkalíf. Hegðun þeirra utan starfsins ætti ekki að hafa áhrif á hvernig við dæmum verk þeirra. Og auðvitað endaði ræða hans á frásögnum af afburða stjórnmálamönnum í Frakklandi sem höfðu átt hjákonur og börn utan hjónabands án þess að það hefði mikil áhrif á skoðanir almennings á störfum þeirra.

Án þess að ég hafi miklar skoðanir á því (eða hafi leitt hugann mikið að því) þá get ég alveg tekið undir orð vinar míns um að líklega hafi stjórnmálafólk, eins og almenningur, rétt til einkalífs. Ég ætlaði ekki að láta leiða mig út í að vera með siðvöndun vegna þess að kjörnir fulltrúar kunni að vera staðnir að því að kasta upp í flugvél, vera skráðir á framhjáhaldssíður eða annað slíkt sem hefur poppað upp í íslenskri umræðu undanfarin ár. Nú kann vel að vera að ekki hafi verið nokkur fótur fyrir áðurnefndri umræðu og hún ekki átt erindi við nokkurn mann af þeim sökum. En jafnvel þótt allt hafi þar verið rétt eftir haft sé ég ekki að slíkar uppákomur ættu, að öllu jöfnu, mikið erindi við almenning.

En hvernig kem ég þessu heim og saman við það sem ég lét hafa eftir mér um atburðina á Klaustri? Annars vegar virðist mér standa á sama um athafnir einstaklinga og hins vegar geri ég mál úr skoðunum sem ekki er víst að hafi nokkurn tímann brotist út í breytni viðkomandi. Hvernig svaraði ég vini mínum yfir bollanum þarna á kaffihúsinu um daginn?
Svarið byggist á tveimur atriðum. Annars vegar held ég að það sé mikilvægt að gleypa ekki við þeirri staðhæfingu að orð (og skoðanir) séu siðferðilega saklausari heldur en athafnir. Við greinum einmitt oft á milli svipaðra athafna í ljósi þess hvaða hugur liggur að baki þeim. Samræður milli manna varpa ljósi á þann hugarheim sem allar líkur eru á að stýri gerðum þeirra og í því ljósi má segja að skoðanir reynist ekki það einkamál sem mörgum finnst þær vera.

„Og jafnvel þótt allir þeir sem greiddu manni atkvæði séu sáttir við pólitísk hrossakaup við opinberar stöðuveitingar þá verða slík kaup ekki réttmæt við það.“

- Auglýsing -

Síðara atriðið er eilítið flóknara og alveg á mörkunum að hægt sé að gera því skil í stuttum pistli. Í sem stystu máli má segja að það er mín skoðun að kjörnir fulltrúar beri nokkurs konar umboðsskyldu í því hlutverki sem þeir gegna. Og það er almennt viðurkennt að í slíkri skyldu felist að manni beri að gæta að jafnréttis- og jafnræðissjónarmiðum í störfum sínum. Slíkt er ekki einkamál jafnaðarmanna heldur sameiginlegt verkefni allra kjörinna fulltrúa. Maður situr ekki í umboði kjósenda síns flokks heldur allrar þjóðarinnar. Jafnvel þótt maður hafi fullvissu fyrir því að einungis gagnkynhneigðir karlar hafi greitt flokki manns atkvæði sinnir maður ekki einungis þeirra þörfum í störfum sínum eða básúnar skoðanir sem falla að þeirra smekk. Og jafnvel þótt allir þeir sem greiddu manni atkvæði séu sáttir við pólitísk hrossakaup við opinberar stöðuveitingar þá verða slík kaup ekki réttmæt við það.

Klausturmálið fjallaði því fyrst og fremst um það hvað var sagt við borðið á barnum og hvernig. Málið snerist að mínu viti aldrei um að kjörnir fulltrúar hafi verið gripnir í glasi og haft hátt að loknum vinnudegi (hvort honum var í raun lokið er svo sjálfstæð umræða). Hér hefur aldrei verið um pólitíska aðför að kjörnum fulltrúum að ræða. Kjarni málsins hefur alltaf verið hvort þingmenn geti leyft sér fordómafulla orðræðu. Við skulum endilega standa vörð um eðlileg réttindi fólks til einkalífs, en um leið má alveg halda til haga þeim hlutverkabundnu skyldum sem fylgja því að gerast kjörinn fulltrúi.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -