Föstudagur 11. október, 2024
-0.8 C
Reykjavik

Notum það sem við eigum og eigum það sem við notum

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Leiðari úr 1. tölublaði Húsa og híbýla

Nýtt ár er upphaf að einhverju nýju. Við getum byrjað árið með óskrifað blað og það er góð tilfinning að geta bætt sig. En til þess þurfum við auðvitað að horfa yfir farinn veg og velta fyrir okkur hverju við viljum breyta í okkar lífi eða fari. Algengast er að fólk setji sér markmið um að léttast og komast í betra form og það er vissulega eðlilegt þar sem flestir hafa legið í kræsingum meira og minna allan desembermánuð. Ýmsir setja sér líka markmið um að koma einhverju í verk, standa sig betur í skólanum eða vera duglegri að rækta vini og fjölskyldu. Ég þekki líka mann sem hét því að vera duglegri að skipta um perur í húsinu, metnaður fólks er misjafn. En ég held reyndar að öll markmið sem við setjum okkur séu af hinu góða enda alltaf gott að stefna að einhverju í lífinu.

Verum dugleg að breyta

Á nýju ári er hefð fyrir því að skoða hvaða tískustraumar verða í gangi ár hvert og auðvitað gerum við það í þessu fyrsta tölublaði ársins. Margt nýtt og spennandi mun líta dagsins ljós á árinu en eitt af því sem er mjög áberandi er nýtni og það er verulegur þrýstingur á fólk að minnka neyslu, hvort sem hún snýr að fötum, snyrtivörum, bílum, mat eða húsbúnaði. Ég held að við þurfum að fara í svolitla naflaskoðun og spyrja okkur hvort við þurfum raunverulega að kaupa eitthvað nýtt. Hvað með að hafa markmiðið á þessu ári að nota það sem við eigum og nýta betur það sem fyrir er á heimilinu. Ég man mjög vel eftir því hvað mamma og pabbi voru dugleg að breyta í stofunni í gamla daga og bara með því virkaði allt eins og nýtt og í raun man ég miklu minna eftir því að þau hafi verið að kaupa einhverja smáhluti en það voru vissulega aðrir tímar. Pabbi var líka mjög duglegur að mála einn og einn vegg í stofunni og færa myndir og bara þetta breytti heilmiklu.

Hemjum eyðsluna og kaupum vandað

Auðvitað þurfum við stundum að endurnýja eitthvað og það ætti enginn að hafa samviskubit yfir því að kaupa sér það sem vantar, bara að velta fyrir sér hvað er raunveruleg þörf fyrir og hvað er óþarfi. Ef okkur langar virkilega að kaupa eitthvað nýtt inn á heimilið bara til að lífga upp á það væri til dæmis ekki úr vegi að kaupa plöntur, þær eru góðar fyrir umhverfið og andlegu hliðina. Einnig tel ég að betra sé að kaupa vandað og klassískt sem endist og jafnvel erfist. Fyrir skemmstu var ég með stálpuðum dætrum mínum í útlöndum að kaupa föt, mér blöskraði hvað þær voru búnar að raða miklu drasli ofan í körfu og spurði hvort þær vantaði þetta í alvörunni. Ekki stóð á svarinu. „Sko mamma, við erum með kerfi. Við setjum allt sem okkur langar í í körfuna svo hittumst við í einhverju horni og förum yfir þetta í sameiningu. Við spyrjum hvor aðra fyrst, vantar þig þetta? ef svarið er já þá kaupum við þetta, ef svarið er nei þá spyrjum við, hversu mikið á skalanum 1-3 langar mig í þetta? og eftir þessa yfirferð förum við yfirleitt með örfáa hluti á kassann.“ Ég gat lítið sagt nema að mér þætti þetta sniðugt og sagðist ætla að hitta þær á kassanum, laumaðist svo út í horn og losaði mig við nokkra hluti úr körfunni svo enginn sæi til.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -