Miðvikudagur 17. júlí, 2024
11.8 C
Reykjavik

Á tæpustu tungu

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Í heiminum er ekki að finna neitt tæki jafn margslungið eða vel til þess búið að varðveita og fremja menningu – hugsun, bókmenntir, tilfinningar, lærdóm – og tungumálið. Í krafti tungumálsins gerum við allt og án þess ekkert. Engin reynsla er heldur jafn umbreytandi og sú að læra nýtt tungumál. Það opnar ekki bara á heilan nýjan menningarheim – nýja hugsun, nýjar bókmenntir, nýjar tilfinningar og nýjan lærdóm – heldur ryður það bókstaflega nýjar leiðir fyrir manns eigin hugsanir og gefur manni hlutdeild í samtalinu um framtíð þess tungumáls sem maður lærði, sem er í grunninn samtal um það hvað sé hægt að hugsa á jörðinni. Það er óendanlega dýrmætt, einsog gefur að skilja, og það er bæði þrekvirki og kraftaverk í hvert einasta sinn sem það á sér stað. Fólk sem heldur að aðrir geti bara hrist það fram úr erminni ætti að reyna það á sjálfu sér fyrst. 

En hinkrum samt aðeins við í háfleygninni – hvað er það að kunna tungumál? Erum við einu sinni sammála um það? Hvað þarf maður að kunna mörg orð áður en maður „kann tungumál“? Ég þekki fólk sem þýðir alvarlegar fagurbókmenntir og níðþunga heimspeki úr tungumálum sem það talar aldrei upphátt – þetta fólk gæti ekki sagt öðrum til vegar þótt líf þeirra lægi við. Og ég þekki líka fólk sem einfaldlega veður elginn á erlendum málum, mál þess úir og grúir kannski í málvillum, en það talar þó og tjáir sig – samt getur þetta fólk ekki lesið svo mikið sem dagblað á sama máli. Ég þekki þjóna erlendis sem lært hafa helstu kurteisiskveðjur og matseðilinn þar sem þeir vinna og komist þannig í gegnum vakt eftir vakt án þess að nokkur uppgötvaði að þeir kynnu ekkert annað í málinu. Ef það tekur enginn eftir því að þú kannt ekki íslensku – kanntu þá ekki íslensku? Ef þú leynir alla því að þú kannt íslensku – kanntu þá íslensku? Er nóg að kunna að stafsetja „Kringlumýrarbraut“ eða þarf líka að kunna að bera það fram? Þarf maður að geta bæði lesið Hallgrím Pétursson með upprunalegu stafsetningunni og skilið óðamála strákana í Æði? Og ef maður segir „ske“ – er maður þá alltíeinu að tala dönsku?

Ef ég væri krafinn svars? Það „kann“ aldrei neinn að tala neitt tungumál. Ekki einu sinni sitt eigið móðurmál. Maður lærir það bara. Lærir og lærir og lærir og lærir. 

Sem leiðir okkur að hinu. Sá sem segir ekki „takk“ úti í búð – hvort heldur sem viðkomandi er að stunda innkaup eða afgreiðslu – á augljóslega ekki í neinum „tungumálavandræðum“. Þá er eitthvað annað sem bjátar á. Það er ekkert erfitt við að segja „takk“ annað en auðmýktin sem í þakklætinu býr. Og sá sem þarf alltaf að segja „thank you“ hvar sem hann fer í heiminum er fyrst og fremst að sýna fjölbreytileika heimsins skeytingarleysi og þar með að missa af ferðalaginu sem hann hefur greitt fyrir dýrum dómum, einsog sá sem hengir (bara) upp auglýsingar og skilti á ensku er að sýna sinni eigin staðsetningu skeytingarleysi og raunar að einhverju leyti að ræna sína heimabyggð sérstöðunni, taka þátt í versta glæp glóbalismans: að gera alla staði nákvæmlega eins, staðlaða og staðnaða.

Það er alls ekki víst að þessi þjóð sé „þjóð“ án tungumálsins. Og svo allt sé uppá borðum er víst best að ég nefni það, að ég á persónulega allt mitt undir þessu máli: starf, sjálfsmynd, líf og hugsjón, og mér þætti satt best að segja afar vænt um að það færi ekki allt til andskotans. En tungumálið má ekki vera baggi, ekki áþján, ekki vopn, ekki skilyrðislaust skylduboð, ekki svipa til þess að beita á lánlaust lágstéttarfólk, ekki tæki til þess að draga fólk í dilka eða gefa þeim stig, draga af þeim stig, banna þeim þátttöku í leiknum, svipta þau réttindum eða gera þau tortryggileg. Við sem tölum þetta mál – líka þau sem kunna bara fáein orð – berum ábyrgð á þróun þess og það er í okkar höndum að sjá til þess að íslenskan taki vel á móti þeim sem vilja fást við að læra hana. Ef við mætum því fólki af offorsi þess sem kennir með því einu að slá reglustiku á fingur nemenda sinna verður það ekki bara til þess að stilla upp ósigri gagnvart tungumálinu heldur líka gagnvart okkar eigin mennsku. Sá sem lærir tungumál af nauðung lærir samtímis í hjarta sínu óbeit á því máli sem er þvingað ofan í hann. Það krefst þrautseigju að læra tungumál og ef uppspretta þeirrar þrautseigju er ekki gleði og von verður ávöxtur námsins aldrei annað en gremja: Hvert einasta orð fellur beiskt af vörum. Við verðum öll verra fólk og enginn lærir neitt. 

En við skulum horfast í augu við staðreyndir. Það er bjartsýni miðað við núverandi þróun að það verði enn töluð íslenska eftir 100 ár, nema til skrauts eða sem háskólaíþrótt – einsog latína í kirkju, danska á sunnudögum eða íslenska í Gimli. Viðnámið, að því marki sem nokkur hefur áhuga á viðnámi, snýst fyrst og fremst um að segja „takk“ en ekki „thank you“ – það hefur ekkert að segja að þýða tölvuleiki sem enginn ætlar að spila á íslensku, þýða stýrikerfi sem enginn ætlar að nota á íslensku, eða skrifa bækur á íslensku sem enginn undir fimmtugu les. Þetta er spurning um hugarfar. Að nógu margir – og nógu fjölbreyttur hópur – verði eftir sem vilji nota málið. Og misnota málið. Afbaka það. Leika sér með það. Breyta því, bæta það, stækka það. Það eina sem gæti hugsanlega verið verra en að málið hverfi er nefnilega að það verði „varðveitt einsog gersemi inni í stofu hjá okkur“ – einsog Kári Stefánsson stakk upp á í viðtali fyrir skemmstu. Ég get ekki talað fyrir aðra en mig langar ekki að búa á minjastofnun um íslenska tungu. Bara svo það sé nú sagt. Því tungumál sem ekki dansar við önnur og fær ekki að reyna á þolmörk sín staðnar og tungumál sem staðnar deyr ekki einsog Rómanoff keisari, fær ekki kúlu í hausinn, heldur einsog Lenín, þanið af smurolíu og formaldehýði, sótthreinsað og til sýnis í glerkassa, í kistulagningu sem aldrei tekur enda. Þá er betra að hverfa hratt og örugglega. 

- Auglýsing -

Við búum í samfélagi fólks sem þolir ekki enskuslettur. Fólks sem þolir ekki pólskuslettur. Fólks sem þolir ekki dönskuslettur. Fólks sem þolir ekki kynhlutlaust mál. Fólks sem þolir ekki kynjað mál. Fólks sem þolir ekki þágufallssýki. Fólks sem þolir ekki þýdd fræðiheiti. Fólks sem þolir ekki fag- og fræðislettur. Fólks sem þolir ekki kansellístíl. Fólks sem þolir ekki krimmastíl. Fólks sem þolir ekki gamaldags orð. Fólks sem þolir ekki nýmóðins orð. Fólks sem þolir ekki Íslendingasagnastíl. Fólks sem þolir ekki annars konar stafsetníngu. Fólks sem óþolir alternatífa málfræði. Fólks sem þolir ekki tæknimál. Fólks sem þolir ekki barnamál. Fólks sem þolir ekki orðagrín. Fólks sem þolir ekki íslenskun erlendra borgarheita. Fólks sem þolir ekki sambreiskinga. Fólks sem þolir ekki orð sem það þekkir ekki. Fólks sem þolir ekki gullaldarmál. Fólks sem þolir ekki blótsyrði. Fólks sem þolir ekki nýtt slangur. Fólks sem þolir ekki gamalt slangur. Fólks sem þolir ekki löng orð eða langar setningar. Fólks sem þolir ekki stutt orð eða stuttar setningar. Fólks sem þolir ekki ritmál. Fólks sem þolir ekki talmál. Fólks sem þolir ekki anafórur. Fólks sem þolir ekki woke-orðin. Fólks sem þolir ekki ó-woke-orðin. Fólks sem þolir ekki tungumálahræring. Fólks sem þolir ekki hreintungustíl. 

Kannski er þetta til marks um einhvers konar væntumþykju – og sannarlega legg ég ekki til að við hættum að láta okkur málið varða – en þessi væntumþykja er líka kæfandi og frek. Tökumst á um málið en gleymum því ekki að þetta snýst ekki um að við tölum öll nákvæmlega eins. Hvert einasta orð er gjöf. Hver einasta ný rödd er kraftaverk. Og á meðan það hjarir: Takk fyrir mig.

Eiríkur Örn Norðdahl

- Auglýsing -

Grein þessi er liður í greinaröð á vegum Gefum íslensku séns – íslenskuvænt samfélag rituðum af fólki sem lætur sig íslenskuna varða og vill bjóða fólk sem hingað flyst velkomið í íslenskt (mál)samfélag með íslenskuna og brosið að vopni.

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -