Laugardagur 26. október, 2024
3 C
Reykjavik

„Flateyri sá á bak þorpshöfðingja“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Jón Gunnar Stefánsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri á Flateyri, er borinn til grafar í dag. Jón Gunnar á að baki langan og farsælan feril sem athafnamaður og seinna bæjarstjóri í Grindavík og Vesturbyggð. Hann fæddist í Hafnarfirði 26 júní 1931 og lést 6. júlí síðastliðinn 92 ára að aldri.

Jón Gunnar varð viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands. Hann var ráðinn framkvæmdastjóri Ísfells, stærsta fyrirtækisins á Flateyri, árið 1956, aðeins 25 ára að aldri. Hann stýrði fyrirtækinu, sem var í eigu Einars ríka Sigurðssonar, næstu fjögur árin eða þangað til það skipti um eigendur. Jón Gunnar stofnaði fiskvinnsluna Fiskborg hf. árið 1960. Hann rak það fyrirtæki í sjö ár. Þá kynntist ég honum sem launþegi. 12 ára gamall var ég ráðinn á skip hans, Hinrik Guðmundsson ÍS. Við stunduðum handfæraveiðar. Aflinn var unninn og saltaður á hafi úti. Við hásetarnir fengum greiddar 10 krónur á hvern fisk. Þetta var gríðarleg lífsreynsla fyrir mig og eldskírn. Drullusjóveikur drattaðist ég í gegnum dagana og dró mína fiska. Síðdegis var svo fiskurinn flattur og komið fyrir í lestinni. Þetta var eldskírn mín. Í landi gerði svo Jón Gunnar upp við mig og alla hina með skilum.

Hjálmur stofnaður

Jón Gunnar hafði gríðarleg áhrif á Flateyri á sínum tíma. Hann og Einar Oddur Kristjánsson fóru fyrir hópi fjárfesta árið 1968 sem keyptu frystihús og útgerð Flateyringa sem þeir ráku undir merki Hjálms hf. Fyrirtækið var lengst af farsælt. Togarinn Gyllir ÍS 261 var smíðaður fyrir félagið á áttunda áratugnum og reyndist vera happafley sem var í rekstri allt fram á síðasta ár. Jón Gunnar var framsýnn maður og stjórnaði sem slíkur við aðstæður í sjávarútvegi sem oft voru erfiðar. Ég var um 10 ára skeið skipverji á Gylli og kynntist Jóni Gunnari ágætlega. Við vorum síður en svo alltaf sammála. Ég var launþeginn og hann var vinnuveitandinn. Það gustaði stundum í þeim samskiptum. En á endanum voru við gjarnan sammála.

Nágrannar

Við vorum lengi nágrannar í raðhúsalengjunni við Drafnargötu þar sem Jón bjó ásamt eiginkonu sinni, Gunnhildi Guðmundsdóttur, sem lést fyrir aldur fram. Jón var glæsilegur á velli, bar sig vel og var ævinlega óaðfinnanlega klæddur. Hann var listunnandi sem lék firnavel á píanó. Jón Gunnar setti svo sannarlega svip á þorpið.

Á Gyllisárum mínum hvarf Jón Gunnar frá Hjálmi. Hann seldi sinn hlut árið 1983 og flutti frá Flateyri. Einar Oddur hélt áfram og stjórnaði fyrirtækinu þar eftir einn. Þar hafði orðið vik milli vina. Það var missir af Jón Gunnari sem flutti suður til Grindavíkur. Flateyri sá á bak þorpshöfðingja.

Bæjarstjóri

Jón Gunnar varð í framhaldinu bæjarstjóri í Grindavík við góðan orðstír. Leiðir okkar lágu ekki saman lengur og árin liðu. Það var svo fyrir nokkrum árum að við náðum aftur sambandi. Ég hafði snúið baki við kyrrsetunni og stundaði fjallgöngur. Ég sagði gjarnan frá ferðum mínum á Facebook og lýsti gjarnan beint frá fjallstindum. Þar náðum við Jón Gunnar aftur saman. Hann var iðinn við að skrifa athugasemdir lýsa löngun sinni til að koma með í göngu á Úlfarsfell, einhvern góðan veðurdaginn. „Áhugasamur en óhress,“ skrifaði hann mér þann 8. mars síðastliðinn. Seinna sendi hann mér skilaboð um að vonandi færi þetta allt að koma. 93 ára að aldri var andinn óbugaður en líkaminn að nálgast endastöð.

- Auglýsing -

Ég mun skála í te fyrir Jóni Gunnari á næsta fjallstindi og hugsa hlýtt til hans með þakklæti fyrir samleiðina.

Börnum, eiginkonu og öðrum ástvinum Jóns Gunnars Stefánssonar sendi ég samúðarkveðju við fráfall hans. Gott dagsverk sómamanns er að baki.

Reynir Traustason.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -