Föstudagur 26. apríl, 2024
7.1 C
Reykjavik

Kerfið sem bregst

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Við Íslendingar erum gjörn á að áætla það að við stöndum öllum öðrum framar í öllu því sem við tökum okkur fyrir hendur og er heilbrigðiskerfið okkar þar engin undantekning. Nema þó að því leiti að við erum svo langsamlegast og mest búin að skíta lengst upp á bak á þessum vettvangi. Það skal þó skýrt tekið fram að ég er á engan hátt hér að tala um hjúkrunarfræðinga, sjúkraliða og starfsfólk almennt. Ég geri mér fulla grein fyrir að innan þessa kerfis vinnur fólk við ómögulegar aðstæður þar sem skorður og hömlur eru settar sem koma á allan hátt í veg fyrir að hægt sé að inna af hendi sómasamlegu verki og umönnun þeirra sem mest þurfa á að halda. Þarna eru nú samt svartir sauðir líka eins og annars staðar og eiga þeir sér líka stóran hlut í því sem ég vil hérna koma frá mér. Hér ætla ég ekki að fara út í alla þá vitleysu sem ég sjálf hef gengið í gegnum hvað þetta kerfi varðar eða að ræða þá yfirmáta fyrru að læknar skuli endalaust þurfa að vera að réttlæta vinnu sína fyrir Tryggingastofnun Íslands í stað þess að vera að lækna fleira fólk, fólk sem liggur heima og bíður og komum við þar að kjarna málsins.

Fyrir rúmum 4 árum síðan fékk stjúpfaðir minn sýkingu í tá. Þetta þykir kannski ekki tiltökumál alla jafna. Í marga mánuði fer hann og mamma mín með til læknis þar sem sárið er hreinsað og skipt um umbúðir, það eru uppáskrifuð sýklalyf en allt kemur fyrir ekki, ennþá er sýking. Þetta heldur svona áfram og það er beðið og gefin sýklalyf sem ekkert virðast hafa að segja. Svo kemur að sjálfsögðu að því að nú er of seint í rassinn gripið, það kemur sýking út í blóð sem endar með því að fótinn verður að taka og þarna erum við að tala um ekki eina heldur þrjár aðgerðir þar sem fótur er tekinn neðan við hné en endar svo töluvert ofan við hnéð og mátti mikið mjóu muna að ekki færi allt á versta veg. Nú tekur við langt ferli endurhæfingar og þess háttar. Þegar líður á fer mátturinn í höndunum að gefa sig og það kemur að ekki getur hann lyft höndunum nema rétt upp á borð og með herkjum matast sjálfur. Þá er komin sýking í hinn fótinn. Á þessum árum sem líða á milli er mikið búið að ganga á inni í skrokknum sem ég kann ekki að hafa eftir og snýr ekki beint að þessu. En nú þarf að fara að berjast enn á ný um að eitthvað sé gert til að ekki fari hinn fóturinn á sama veg. Þurfti að stappa og erjast mikið en á endanum er gerð hjáveituaðgerð á fætinum til að auka blóðflæðið. Sú aðgerð gekk vel þó annað hafi brugðist og endaði sofandi í tæpar tvær vikur milli heims og helju. 

Nú er þó svo komið að hvorki hendur né fótur gerir nokkurt gagn og mátturinn í útlimunum alveg þorrinn. Hvað gerist þá??? Jú það gerist ekkert. Eftir marga mánuði bíðandi og kallandi eftir hjálp hefur móðir mín bograð og komið, yfir 100 kílóa karli sínum í stól og til baka í rúm, þrifið hann, matað og aðstoðað við allt sem snýr að því sem okkur finnst eðlilegt að gera sjálf en hann getur ekki. Einhver spyr hvort þetta sé ekki það sem maki skrifar upp á þegar samband hefst, í blíðu og stríðu. Jú þess vegna hefur konan á áttræðisaldri, konan með átta samfallna hryggjaliði, konan sem er aðframkomin og nær ekki svo mikið sem að næra sig eða sinna eðlilegu lífi gert þetta. Til hennar komu tvær konur frá heimahjúkrun sem neituðu að gera þetta því þetta væri of erfitt fyrir þær tvær. Eftir hark og hótanir fer nú að berast einhver hjálp þó hún sé ekki næg. Það kemur til hvíldarinnlögn. Þegar þangað er komið er manninum hent inn í herbergi í einangrun og hurðinni lokað. Þar mátti maðurinn húka og öskraði sig nánast í hjartaáfall í tvo klukkutíma því enginn heyrði og enginn leit inn. Formleg kvörtun, nýtt herbergi, þar er klukka á veggnum, ekkert sjónvarp og það fékkst nú barna stöð sem þó virkar aðeins í aðra áttina, þannig að hann kallar en veit ekki hvort einhver er hinumegin og heyrir. Er hvíldarinnlögn ekki líka fyrir maka?? jú, hvernig hvílist þú vitandi af þeim sem þú elskar í þessari aðstöðu?

Loksins kom nú í ljós ástæðan fyrir því að mátturinn í líkamanum er enginn orðinn. Bein vex og er byrjað að skemma mænuna. Það er hægt að gera aðgerð sem jú er mjög áhættusöm því þetta er jú mænan og skrokkurinn ekki alveg tilbúinn í svæfingu en auðvitað vill hver einasti maður reyna að komast út úr lömun, bjargarleysi og að finnast hann vera byrði á þeim sem hann elskar, svo hann vill aðgerð. Það kemur dagsetning, aðgerð á fimmtudag. Fimmtudagur mætir á svæðið, nei þetta var misskilningur, hún er á föstudag. Föstudagur mætir, engin aðgerð, það kom svolítið upp á, aðgerð á þriðjudag eða miðvikudag. Hann sendur heim. Ég hef fullan skilning á að ýmislegt geti gerst en nú er vikan búin og þegar þetta er skrifað eru komnir átta dagar frá því að aðgerð var áætluð upphaflega og engar fréttir ennþá borist, enginn hefur hringt og  sagt “sorry með mig”, enginn hringt og útskýrt hvað sé í gangi eða hvenær sé möguleiki á að eitthvað gerist, það er bara endalaus þögn sem ærir og gerir hvern mann brjálaðan. Andlega líðanin sekkur og sekkur. Nú spyr ég bara í heimsku minni. Er þetta forsvaranlegt? Er þetta það sem við eigum að láta bjóða okkur? Er það svona sem þú sem læknir myndir láta bjóða þínum ástvinum upp á? Eigum við bara að bíða þar til málið snýst um að vera að deyja en ekki “bara” lamast? Hversu lengi og hversu fast eigum við að láta traðka á okkur?

Björg Ragnarsdóttir

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -