Fimmtudagur 5. desember, 2024
-0.2 C
Reykjavik

Samstaða í rússíbanareið

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Leiðari úr 13 tölublaði Húsa og híbýla 2020

Rík hefð er fyrir því að líta um öxl þegar árið er á enda og velta fyrir sér hvað stóð upp úr
og hvað var áhugavert. Árið 2020 hefur reynst flestum jarðarbúum erfitt og eiginlega
má segja að það hafi verið hálfgerð rússíbanareið sem enn sér ekki alveg fyrir endann
á þótt vissulega séu jákvæð teikn á lofti. Það er ótrúlega margt sem við, sem samfélag
og einstaklingar, getum lært af þessum tíma og ég vona að við berum gæfu til að nýta okkur það á jákvæðan hátt í framtíðinni. Eitt af því sem mér finnst standa upp úr er hversu mikilvægt það er að standa saman sem hópur enda segir í máltækinu; sameinaðir stöndum vér, sundraðir föllum vér. Um leið og við tókum höndum saman, samt ekki í bókstaflegri merkingu, náðum við betri árangri þótt vissulega hafi sumar starfsstéttir þurft að taka á sig meiri skaða en aðrar, eins og tónlistarmenn og fólk í veitingabransanum svo fátt eitt sé nefnt. En ég efast ekki um að fólk eigi eftir að flykkjast á veitingahús og tónleika að faraldri loknum enda þyrstir okkur í að hitta annað fólk.

Tæknin hefur leyst ýmislegt á þessum tímum og gert okkur t.a.m. kleift að vinna heima, kaupa á netinu og hitta ástvini á Zoom, en ekkert kemur í stað mannlegra samskipta. Daginn sem stóri jarðskjálftinn reið yfir Reykjanesskagann þann 20. október sl. fór ég í kvöldgöngu með tvítugri dóttur minni sem vinnur á leikskóla. Hún hafði ekki fundið jarðskjálfta af þessari stærðargráðu áður og var verulega brugðið en bætti við að sér hefði þótt svo gott hvað atburðurinn sameinaði alla. „Það voru allir á kaffistofunni bara að spjalla saman og segja frá því hvernig þeir fundu skjálftann og hvernig þeim leið og það var enginn í símanum. Allir voru bara að styðja hver annan.“ Þetta spjall okkar vakti mig til umhugsunar en ég skildi samt svo vel hvað hún átti við. Á sama tíma fann ég til með þessari kynslóð sem nánast þekkir ekki annað en að allir séu alltaf í símanum þótt þeir séu saman, andlega fjarverandi og þá komum við að hinni neikvæðu hlið tækninnar.

Heimavinnan hefur reynst sumum erfið á meðan aðrir hafa blómstrað en eitt er víst að híbýli fólks hafa leikið stórt hlutverk í að vernda okkur fyrir veirunni enda heyrist ekki kvartað frá húsgagna- og byggingavöruverslunum. Margir hafa notað tímann til að dytta að og gera huggulegt heima enda hefur umhverfi okkar áhrif á andlega líðan og ég held að margir séu meðvitaðir um það. En ekki er endilega nauðsynlegt að kaupa nýtt sófasett eða leggja parket, ein lítil planta, ilmkerti og nýr púði geta gert mikið og veitt okkur ánægju, það er gott að gleðjast yfir litlu. Íslendingar elska líka að kveikja á kertum og gera híbýli sín notaleg en ég hef aldrei áður séð jafnmikið jólaskrautið fara upp eins snemma og í ár, það er gott.

Þeir verða eflaust margir sem fá kikk út úr því að sprengja þetta ár í burtu og skála fyrir nýju en gerum það samt með tveggja metra millibili, ekki fleiri en tíu saman og áramótahatturinn árið 2020 verður auðvitað gríma. Munum svo að ganga hægt um gleðinnar dyr og blanda ekki saman spritti og flugeldum, þótt hvoru tveggja sé órjúfanlegur hluti af gamlárskvöldi þetta árið. Klárum COVID-verkefnið saman svo við getum farið að hittast fyrir alvöru. Það er nefnilega ekkert sem kemur í staðinn fyrir að horfa í augun á fólki, sjá svipi þess og hlæja með öðrum milliliðalaust. Maður er manns gaman

Sjá einnig: Jólin eru í hátíðarblaði Húsa og híbýla – Glys og glamúr um hátíðarnar

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -