Fimmtudagur 18. júlí, 2024
10.8 C
Reykjavik

Skildagatíð

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Höfundur / Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna

Nú um þessar mundir, þegar hátíðarmatarafgangar fylla ísskápa landsins, er víða venja að staldra við og fara yfir hvað hefur borið á fjörur okkar í gjafaflóði jólanna. Þó að gjafir séu jafnan gefnar af góðum hug, falla þær ekki alltaf að smekk, hið gefna hefur þegar verið til á heimilinu eða fjöldi samskonar gjafa slíkur að nauðsyn sé að skila eða skipta gjöfunum. Þannig mætti kalla dagana eftir jól nokkurs konar skildagatíð.

Í lögum um neytendakaup eru nokkuð góðar reglur sem gilda um skilarétt neytenda á gölluðum vörum, en yfirleitt má skila vöru innan tveggja ára frá afhendingu, og stundum fimm ára, ef vörunni er ætlaður verulega lengri endingartími en almennt gerist.

Þrátt fyrir að í lögum um neytendakaup sé eiginlegur skilaréttur á ógallaðri vöru ekki fyrir hendi, gaf viðskiptaráðuneytið út verklagsreglur um skilarétt, gjafabréf og innleggsnótur árið 2000. Reglurnar eru leiðbeinandi og þeir seljendur sem fylgja þeim gera það að eigin frumkvæði og án lagaboðs.

Meginatriði verklagsreglnanna eru:

– Að réttur til að skila ógallaðri vöru sé að minnsta kosti 14 dagar frá afhendingu hennar.
– Að vörur sem merktar eru með gjafamerki gera kassakvittun óþarfa við skil.
– Að Inneignarnótur miðist við upprunalegt verð vöru.
– Að gjafabréf og inneignarnótur gildi í allt að fjögur ár frá útgáfudegi.

- Auglýsing -

Það er vert að athuga að sé hlutur keyptur á Netinu, eða við svokallaða húsgöngusölu, eru réttindi neytenda mun sterkari. Þá er skilaréttur ógallaðrar vöru beinlínis bundinn í lög um neytendasamninga. Í þeim segir að neytandi hafi 14 daga frá því að samningur var gerður milli hans og seljanda til að hætta við kaupin án nokkurra skýringa og fá vöruna endurgreidda að því gefnu að hann skili vörunni óskemmdri til seljandans og að varan eða þjónustan sem keypt er hafi ekki verið sérsniðin að ósk neytandans eða innsigli rofin.

Neytendasamtökin hafa á undaförnum árum vakið sérstaka athygli á takmörkuðum rétti neytenda þegar kemur að gjafabréfum og inneignarnótum. Því þó að verklagsreglur viðskiptaráðuneytisins mæli fyrir um að þau gildi í fjögur ár, eru verslanir oft með skemmri gildistíma. Þá er réttur neytenda afar takmarkaður komi til þess að verslunin fari í þrot, eða skipti um kennitölu af einhverjum sökum.

Besta leiðin til að losna við skildagatíðina og amstrið í kringum hana, er að sjálfsögðu að takmarka gjafaflóðið. Sér í lagi ættum við að sneiða hjá því að kaupa óþarfa hluti, jafnvel fyrir peninga sem við eigum ekki. Bestu gjafirnar er hvort sem er hvorki hægt að pakka inn í pappír, né kaupa fyrir peninga.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -