Föstudagur 29. mars, 2024
4.8 C
Reykjavik

Þetta land á sig

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Eftir Guðmund Andra Thorsson þingmann Samfylkingar.

Land verður æ mikilvægara á tímum mikilla loftslagsbreytinga og komandi þjóðflutninga í kjölfar þess að æ fleiri svæði heims verða óbyggileg af manna völdum. Það er löngu tímabært að við setjum reglur sem takmarka skefjalausa söfnun einstaklinga á landi, þó ekki væri bara vegna þess mikla verðmætis sem þetta land á eftir að hafa á komandi tímum. Það má einu gilda hvort slíkur auðmaður er frá Kuala Lumpur, Bretlandi, Breiðholtinu eða úr Aflöndunum: samþjöppun á eignarhaldi er alltaf hættuleg, hvort sem um er að ræða útgerðarfyrirtæki, matvörubúðir, fjölmiðla eða jarðnæði. Slíku eignarhaldi fylgir meira vald en við viljum að safnist á fárra hendur.

Í rauninni ætti enginn maður að eiga meira land en hann kemst sjálfur yfir að sinna, með vélum eða mannafla, eða hefur eru „Í rauninni ætti enginn maður að eiga meira land en hann kemst sjálfur yfir að sinna, með vélum eða mannafla, eða hefur kenndir til vegna tengsla við landið.

Það er gott og æskilegt að fólk komi sér upp eignum sem það geti nytjað eins og hugur þess stendur til, stofni fyrirtæki sem vaxi og dafni eftir efnum og ástæðum, hagnist og greiði af því sanngjarnan hlut til samfélagsins (en feli ekki í skattaskjólum), kaupi sér jarðarskika til að rækta og nytja eins og dugnaður og hugkvæmni leyfir – og þar fram eftir götunum. En það þarf að setja skorður við hömlulausri samþjöppun á eignarhaldi á landi og öðrum auðlindum; sumt land á heima í þjóðareigu vegna gildis síns. Um auðlindirnar þarf ekki að tala, þær eru nú þegar í þjóðareigu, en þarf einungis að árétta það með góðu ákvæði í stjórnarskrá: fiskurinn, náttúruperlur, vatnið …

„Í rauninni ætti enginn maður að eiga meira land en hann kemst sjálfur yfir að sinna, með vélum eða mannafla, eða hefur kenndir til vegna tengsla við landið.“

Það getur verið mikil innspýting í því fólgin fyrir lítið samfélag þegar dugmikill og framtaks-samur einstaklingur kaupir eign eða eignir og tekur að láta þar til sín taka. En það er aldrei gott fyrir samfélag að slíkur einstaklingur verði þar einráður og allt fari fram á forsendum viðkomandi og hrynji við brotför hans. Hitt er svo enn verra, sem orðið er sérstakt böl í nútímasamfélögum – og alveg sérstaklega hér á landi – og það er sú iðja sumra auðmanna að leynast bak við leppa eða flókið net skáldaðra eignarhaldsfélaga. Við eigum heimtingu á að vita hver á land og hvað hann hyggst fyrir með það.

„Þetta er landið þitt …“ orti Guðmundur Böðvarsson í ljóðinu sínu fallega Fylgd og líka „þetta land á þig“ og minnti okkur á skyldur okkar við landið sem verður hér eftir okkar dag og barna okkar og barnabarna. Því þetta land er ekki bara til fyrir okkur sem hérna búum – það hefur líka gildi í sjálfu sér, verðmæti þess verður ekki mælt í mannlegum einingum á borð við krónur og aura. Þetta land á sig, og það eigum við að virða, um leið og við lærum að umgangast það og nýta góðar gjafir þess.

- Auglýsing -

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -