Fimmtudagur 25. apríl, 2024
9.8 C
Reykjavik

Vonda barnið

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Leiðari úr 43. tölublaði Vikunnar

Allir foreldrar þekkja óttann við að barnið þeirra verði fyrir ofbeldi. Einelti er algengt í skólum og meðal unglinga á sér stundum stað alvarlegt og hugsunarlaust ofbeldi. Það er hræðilegt að vera aðstandandi og standa hjá þegar barnið manns berst að því er virðist vonlausri baráttu við eineltisbullurnar. Skólayfirvöld iðulega gagnslaus og lítið sem maður sjálfur getur gert nema að styðja barnið þegar heim kemur. Ástæðulausar líkamsárásir eru líkt og óvæntar náttúruhamfarir, snöggar og eyðileggjandi. Stundum nást gerendur og stundum ekki en hvernig sem það veltur sitja eftir einstaklingar í áfalli sem vinna verður úr. Eftir að umræða um kynferðisofbeldi varð opinber og fólk fór að átta sig á hversu algengt þetta er fengu þolendur skyndilega rödd, leyfi til að tjá sig og láta í ljós sársaukann sem fram að því hafði verið grafinn eins djúpt og mögulegt er. Mikið hlýtur að vera sárt að eiga barn sem hefur þurft að þola slíkt og krefjandi líka. Því þá reynir á styrk þinn sem aldrei fyrr, að umfaðma barn þitt, sýna því ástúð og uppbyggjandi hlýju en ýta eigin sársauka og reiði til hliðar.

Sumir eru raunar enn þeirrar skoðunar að þolandinn eigi að leita sér hjálpar en tala ekki um reynslu sína utan vébanda meðferðarstofunnar. Þar sem þetta er ein viðbjóðslegasta tegund ofbeldis sem hugsast getur telja sumir að hlífa eigi saklausum við því að upp um einhvern nákominn þeim komist. Þegar þetta kemur upp innan fjölskyldna sundrast þær gjarnan. Reiði margra beinist meira að þolandanum en gerandanum. Hann hefur kallað skömm yfir alla. Þá gleymist auðveldlega að enginn ber ábyrgð á gerðum annars. Í þeim tilfellum að um systkini er að ræða hlýtur staða foreldranna að vera enn verri. Að mínu mati er bara eitt verra en að komast að því að barnið þitt hafi verið beitt kynferðisofbeldi og það er að komast að því að það hafi verið gerandi í slíku máli.

Friederike Berger var misnotuð af bróður sínum í æsku, einnig af vinafólki foreldra hennar og þegar hún óx upp vissi hún og fann að eitthvað var að. Minningarnar voru óljósar en með hjálp dáleiðslu náði hún að rifja þær upp til fulls. Foreldrar hennar gátu ekki horfst í augu við og tekið á málinu og kusu að láta sem ekkert væri. Friederike hefur þess vegna misst mestallt samband við fjölskyldu sína. Enginn reyndist fær um að sýna henni fullan stuðning og taka á hlutunum. Það er sorglegt. Afneitun er val og þótt í fyrstu líti út fyrir að hún sé besta leiðin eða sú auðveldasta er staðreyndin samt sú að þögnin og yfirdrepsskapurinn étur fólk að innan. Vissulega er hræðilegt að hafa alið upp ofbeldismanneskju en verra þó að leyfa viðkomandi að komast upp með óásættanlega hegðun sína.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -