Saga Skuggabarna – Marri, tvítugur barnsfaðir Margrétar, tók eigið líf: „Jú, hann er dáinn.“

top augl

Margrét Finnbogadóttir kom fram í bókinni Skuggabörn en hún missti barnsföður sinn, Marra, þegar hann tók eigið líf aðeins tvítugur að aldri.

Margrét og Maríus, sem almennt var kallaður Marri, fóru að vera saman þegar þau voru fjórtán ára að aldri. Foreldrar þeirra lögðu blessun sína yfir það að þau fengu að gista hvert hjá öðru en það atvikaðist þannig að Margrét eyddi heldur tíma á heimili Marra en öfugt. Þau komu bæði frá brotnum heimilum og Margrét segir að hún hafi snemma fundið sig í hlutverki aðstandandans. Hún passaði því ágætlega inn á heimili Marra.

Strax snemma á unglingsaldri var Marri farinn að reykja hass daglega en Margrét leiðir að því líkum að það hafi verið til þess að deyfa sig. Neysla hans þróaðist svo þangað til hann var farinn að nota sprautur.

Þau eignuðust son en neysla Marra olli því að samband þeirra gat ekki gengið. Þau töluðu þó oft saman eftir það og hann hringdi gjarnan í hana ef hann vanhagaði um eitthvað eða þurfti að fá far, gjarnan úr partýum.

Einn daginn þegar Margrét var að læra undir próf sem hún þurfti að taka daginn eftir áttu þau eitt slíkt samtal. Margrét segir að hún hafi þá verið komin á þann stað að þurfa að standa meira með sjálfri sér og í það skiptið ákvað hún að segja nei.

„Ég segi í þetta skiptið nei, ég er að fara í próf á morgun. Ég get ekki staðið í þessu. Síðan fer ég í þetta próf og þegar ég kem heim sé ég tólf ósvöruð símtöl á símanum og þá fæ ég þessar fréttir. Ég vissi að þetta væri satt en ég vildi samt ekki trúa því. Ég man þennan dag og dagana á eftir rosalega skýrt. Þetta er stærsta sjokk sem ég hef á ævinni fengið. Það var ein stelpa sem hafði verið með honum þarna um kvöldið sem var búin að hringja svona oft í mig. Hún hringir akkúrat þegar ég er að kíkja á símann, ég svara og það var hún sem sagði mér að hann væri dáinn. Ég man að það fyrsta sem ég sagði var „nei, hann er ekkert dáinn, ég var að tala við hann í gær“ en hún sagði „jú, hann er dáinn.“ “

Í kjölfarið þurfti Margrét sjálf að há baráttu við áfengi og fíkniefni en sögu Margrétar má sjá í heild sinni hér á hlaðvarpsveitu Mannlífs.

Árið 2005 komu samhliða út bókin og heimildarmyndin Skuggabörn. Myndina fjallar um gerð bókarinnar en hana gerðu Jóakim Reynisson og Lýður Árnason í samstarfi við Þórhall Gunnarsson. Efnistökin voru fíkniefnaneysla hérlendis á þessum tíma og meðal annars skyggnst inn í líf einstaklinga sem voru í neyslu.

Nú tæpum 20 árum síðar skyggnumst við inn í líf sumra þeirra einstaklinga sem komu fram í upprunalegu útgáfunni í þáttunum Hvað varð um Skuggabörn og að því tilefni sýnum við myndina í fullri lengd.

Myndina má sjá hér.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni