Ragnheiður Inga rektor er gestur Guðna: „Skordýraræktun sem getur verið til fóðurs eða manneldis“.

top augl

Ragnheiður Inga Þórarisndóttir, rektor Landbúnaðarháskóla Íslands, ræddi við Guðna Ágústsson. Hún fæddist í Reykjavík og var þriggja ára þegar fjölskyldan flutti til Danmerkur þar sem faðir hennar fór í nám og þar bjuggu þau í sex ár. Hún gekk í Hvassaleitisskóla og fór síðar í Menntaskólann við Hamrahlíð og útskrifaðist þaðan árið 1987. Hún fór síðan í nám við Danska tækniháskólann; fór í efnaverkfærði og sérhæfði sig í lífefnafræði og næringarfræði. Í kóngskins Köben kynntist hún ástinni í lífi sínu; bóndasyni úr Húnavatnssýslu, Ólafi Pétri Pálssyni, sem er prófessor í iðnaðar- og vélaverkfærði við Háskóla Íslands.

„Ég segi alltaf að lambakjöt eigi að vera miklu dýrara. Við getum gert miklu meira með það heldur en við erum að gera í dag í vöruþróun og bara hækka verð á þessu dýrindis kjöti,“ segir dr. Ragnheiður

Við ættum að vera að flytja út miklu meira af grænmeti heldur en við erum að flytja inn.

Stjórnmálamenn, vísindamenn og fleiri hafa sagt að ein stærstu tækifæri landbúnaðarins liggi í garðyrkju. „Við ættum að vera að flytja út miklu meira af grænmeti heldur en við erum að flytja inn. Við erum að framleiða allar gúrkurnar okkar og við erum aðeins farin að flytja út gúrkur til Grænlands og Danmerkur og það er mjög erfitt að flytja út gúrkur segja menn mér. Erfitt í flutningi. Hvað varðar tómata þá er kannski verið að framleiða helminginn sem við erum að neyta sjálf og kannski innan við 10% af paprikunum,“ segir Ragnheiður og talar meðal annars um að hér á landi sé verið að framleiða á 20 hekturum en í Hollandi á um 10.000 hekturum. „Stærstu fyrirtækin hér á landi eru um einn hektari og þau eru nokkur. Meðalstærðin í Hollandi er um fimm hektarar þannig að stærstu fyrirtækin okkar eru að ná um 20% af meðalstærð fyrirtækja í Hollandi. Og 10 stærstu fyrirtækin í Hollandi eru um 500 hektarar. Þetta er samkeppnin sem við búum við.“

Tækifærin hér á landi eru mörg og segist Ragnheiður halda að það verði miklar breytingar á næstunni og bendir meðal annars á að stöðvunum sé að fækka og þær stóru eru að stækka og framleiðslan að aukast.

Er Ísland kornræktarland?

Þannig að það séu þá einhvers konar kornsamlög sem geti tekið við.

„Ég held við getum ræktað miklu meira af korni. Auðvitað erum við háð veðrum og það koma brestir í það en eitt af þeim málefnum sem við höfum verið að leggja áherslu á er að nýta jarðvarmann aftur til þess að þurrka, koma upp þurrkstöðvum og geymslum þannig að það séu þá einhvers konar kornsamlög sem geti tekið við þannig að bændur þori að framleiða meira af því að þeir vita þá að það er einhver sem tekur við og það sé utanumhald utan um það til þess að styrkja markaðinn til þess að við getum aukið framleiðsluna.“

Skyrið flýgur víða og íslenski hesturinn þannig að tækifærin eru víða.

„Við höfum ekki nefnt önnur nýsköpunartækifæri eins og skordýraræktun sem getur verið til fóðurs eða manneldis. Eða þörunga. Skordýr eru fæða fyrir um tvo milljarða manna í dag og það er hægt að setja þetta í samhengi við rækju og humar.“ Ragnheiður segir að í þessu sambandi séu þau aðallega búin að vera að skoða mjölorma og svörtu hermannafluguna. „Þær eru mjög vinsælar í ræktun í Evrópu og eru nokkur fyrirtæki að koma upp framleiðslu. Svo eru þörungafyrirtæki að spretta upp hér; ætlu þau séu ekki orðin sjö. Þá er hampur kominn í prufuframleiðslu á nokkrum bæjum.

Við eigum gríðarleg tækifæri en við erum kannski ekki að nýta þau nógu vel af því að við erum auðlindaþjóð og höfum það gott.“

 

Tilraun á rottum

Ragnheiður fæddist í Reykjavík og var þriggja ára þegar fjölskyldan flutti til Danmerkur þar sem faðir hennar fór í nám og þar bjuggu þau í sex ár. Hún gekk í Hvassaleitisskóla og fór síðar í Menntaskólann við Hamrahlíð og útskrifaðist þaðan árið 1987. Hún fór síðan í nám við Danska tækniháskólann; fór í efnaverkfærði og sérhæfði sig í lífefnafræði og næringarfræði. Í kóngskins Köben kynntist hún ástinni í lífi sínu; bóndasyni úr Húnavatnssýslu, Ólafi Pétri Pálssyni, sem er prófessor í iðnaðar- og vélaverkfærði við Háskóla Íslands. „Ég fann hann á Hviids Vinstue,“ segir Ragnheiður. Börnin eru fjögur og barnabörnin nokkur.

„Ég gerði í lokaverkefninu tilraun á rottum og fóðraði þær með mismunandi fiskiolíum og fékk meðal annars sendar fiskiolíur frá Lýsi.“

Við notum um 10% af jarðhitanum í framleiðslu.

Síðan var flutt heim. Ragnheiði bauðst starf hjá Iðntæknistofnun og vann í sambandi við plastefni. Hún skráði sig svo í doktorsnám í efnisfræði; tæringu málma. „Þannig að ég tók doktorsgráðuna mína frá Danska tækniháskólanum starfandi hjá Iðntæknistofnun og síðar hjá lagnadeild Rannsóknarstofnunar byggingaiðnaðarins og kláraði síðan doktorsgráðu frá Danska tækniháskólanum í tæringu málma. Það varð síðar tenging í næsta starf af því að ég var sérstaklega að stúdera tæringu málma í hitaveitukerfum og næsta starf var hjá Orkustofnun. Þá var ég búin að setja mig inn í orkumálin svolítið og hafði sérstakan áhuga á jarðhitakerfum og hvernig við erum að nýta heita vatnið. Ég fór síðan að vinna svolítið sjálfsætt í verkefni í nýsköpun; hringrásarverkefni – hvernig við gætum búið til mat og nýtt heita vatnið okkar í meira mæli. Við notum um 10% af jarðhitanum í framleiðslu og manni finnst að sá geiri ætti að stækka. Þetta fer meðal annars í í ylrækt og fiskeldi og manni hefur þótt þarna vera mikil tækifæri fyrir okkur.“

 

Gengur vel að fá styrki

Ragnheiður varð rektor Landbúnaðarháskóla Íslands árið 2019.

„Ég myndi hiklaust segja að þetta sé mest spennandi háskólinn á Íslandi og hér séu stærstu tækifærin. Og það var það sem kallaði til manns þegar ég sótti um starfið að þarna væru mál málanna – það er matvælaframleiðsla, umhverfið og loftslagsmálin og skipulagsmálin.“

Ragnheiður segir að lengi vel hafi um 300 nemendur stundað grunnnám við skólann hverju sinni en í dag eru þeir um 600 fyrir utan þá sem eru í endurmenntun.

„Við skiptum þessu upp í þrjár fagdeildir og það var nýtt skipurit sett upp 1. janúar 2020. Það hafði áður verið ein háskóladeild og ein starfs- og endurmenntunardeild þannig að við skiptum þessu upp til þess að gera námið sýnilegra og það var líka hugsað til þess að ná meiri samlegð á milli brauta.“ Þessar þrjár fagdeildir kallast ræktun og fæða, skipulag og hönnun og svo loks náttúra og skógur. „Síðan röðuðum við brautunum þarna inn; fjórar brautir í hverri deild og allar deildir bjóða þá upp á starfsmenntanám á framhaldsskólastigi, grunnnám, BS-námið, og síðan framhaldssnám; meistara- og doktorsnám.“

Eftir þessa aukningu hefur verið biðlisti á nemendagarða.

Um 120 nemendur búa á nemendagörðum og eftir þessa aukningu hefur verið biðlisti á nemendagarða. Þá hefur verið biðlisti á meðal skiptinema.

Ragnheiði gengur vel að fá styrki. „Já, ég hef verið svolítið góð í því. Við höfum á þessum árum núna verið frá því að fá styrki úr samkeppnissjóðum um 120 milljónir á ári á tímabilniu 2012-2018 og núna 2019, 2020 og 2021 erum við komin í 330 milljónir. Þannig að við erum komin langt í það að þrefalda þá upphæð sem við fáum úr samkeppnissjóðum sem þýðir það að við getum ráðið til okkar sérstaklega doktorsnemendur þannig að þeir eru núna um 20 talsins. Það er vegna þessara fjármuna sem við getum ráðið þá í vinnu. Þeir eru náttúrlega flestir á launum og síðan erum við með postdoc og fleiri sérfræðinga þannig að ef þú ert með 200 milljónir til viðbótar þá getur þú ráðið í fleiri störf.“

 

Landbúnaðurinn er „in“

Búfræðin blómstrar í háskólaumhverfinu.

„Búfræðin hefur verið sú braut sem hefur verið vinsælust og við höfum þurft að vísa fólki frá. Það hefur stundum verið þannig að fólk hefur verið með stúdentspróf og viljað koma inn í búfræðina og hefur þá farið í búvísindi á háskólastigi og bætt síðan við sig búfræðinni til að fá praktíska hlutann. Þannig að ég myndi segja að búfræðin sé kannski vinsælasta námið í gegnum tíðina.“ Í fyrra var bætt við fjarnámsbekk og segir Ragnheiður að áhugi sé fyrir því að bæta líka við staðnámið. „Við gerum þá kröfu í búfræðinni að nemendur sem vilja koma í fjarnámið séu starfandi í greininni.“

Það er mikil tæknivæðing og nýjar tillögur og hugmyndir að koma fram.

Það segir manni að landbúnaðurinn sé „in“ hjá ungu fólki.

„Ég held það. Ég held að við munum líka sjá breytingar til framtíðar. Það er mikil tæknivæðing og nýjar tillögur og hugmyndir að koma fram.“

Skólinn er í samstarfi við landbúnaðarháskóla á öllum hinum Norðurlöndunum sem og baltnesku löndunum og geta nemendur farið út til að taka kúrsa. „Við höldum sameiginlega kúrsa og svo er líka mikið sameiginlegt rannsóknarstarf. Við erum til dæmis með meistaranám, loftslagsbreytingar á norðurslóðum, í samstarfi við háskóla í Helsinki og Svíþjóð; sænska landbúnaðarháskólann. Síðan erum við með ansi spennandi verkefni núna sem við vorum að senda í Evrópusambandið sem er samstarf átta evrópskra háskóla. Ég held að þetta sé grundvöllurinn að vexti til framtíðar að við séum í góðu samstarfi við erlenda háskóla sem eru stærri og geta verið með miklu betri innviði á þeim sviðum sem borgar sig kannski ekki fyrir okkur að byggja upp. Þannig að við getum þá sent nemendur út og fengið kennara að utan hingað heim. Þá geta bæði nemendur og starfsmenn farið á milli á auðveldan máta.“ Hún nefnir líka fjarkennslu. „Það skiptir kannski ekki alltaf máli hvar þú situr ef þetta er bóklegt.“

Þá er skólinn í samstarfi við aðra íslenska háskóla.

 

Ný tæki

Ragnheiður segir að það sé gott samstarf við Svandísi Svavarsdóttur matvælaráðherra sem og fyrrverandi landbúnaðarráðherra sem hún segir að hafi stutt vel við bakið á skólanum. „Hluti af fjárveitingu skólans er ennþá í landbúnaðarráðuneytinu eða núna matvælaráðuneytinu sem snýr að rannsóknum. Og 2020 gerðum við nýjan samning til þriggja ára þar sem var sú breyting að það var eiginlega tíundað aðeins hvaða verkefni við myndum setja í forgang í samstarfi við ráðuneytið. Þannig að ráðuneytið bað okkur sérstaklega um að gera skýrslu um fæðuöryggi og eins um stöðu sauðfjárbænda og svo stendur til að fara í garðyrkjumálin líka. Þetta er þriggja ára samningur og byggður á því að við myndum hafa reglulegri fundi en hafði verið.“

En ég myndi segja að í dag séu rannsóknirnar að eflast.

Ragnheiður er spurð hvernig hin gamla rannsóknarstofnun landbúnaðarins standi inni í landbúnaðarháskólanum sem var hér sterk lengi vel.

„Þegar þetta var lagt saman þá held ég að það hafi verið um 160 starfsmenn. Í dag erum við 100 og höfum verið að byggja okkur upp. Ég held það hafi verið komið niður í 80. Sameining var í byrjun árs 2005 og menn fóru bjartsýnir af satð. Svo svo kom hrun og alls konar í kjölfarið þannig að það var svolítið erfitt fyrir skólann á margan hátt fyrstu árin. En ég myndi segja að í dag séu rannsóknirnar að eflast.“

Ragnheiður segir að lögð hafi verið mikil áhersla á að bæta innviðina. Kaupa tækjabúnað. „Við höfum sótt fram eins og ég sagði í samkeppnissjóðina; náttúrlega líka í tækjakaupasjóði eins og jarðræktarmiðstöðin okkar er mjög sterk. Við höfum verið að kaupa ný tæki fyrir hátt á annað hundrað milljónir meðal annars með styrk frá tækjakaupasjóði.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni