Mánudagur 15. júlí, 2024
12.8 C
Reykjavik

Að knýja fram sannleikann

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Leikritið Efi – dæmisaga, er sýnt um þessar mundir í Kassanum við Þjóðleikhúsið. Verkið hverfist í kringum mörk mannlegra samskipta, tortryggni, nísandi óvissu, óræðu sakleysi og viljans til þess að trúa á hið góða.

Inntak verksins má finna í titli þess því efinn er vafalaust sá silfraði þráður sem spinnur söguna saman. Fljótlega eftir að ljósum er beint á aðalpersónurnar eru efasemdafræjum stráð í huga áhorfenda sem fá svo að velkjast þar í vafa á meðan á sýningunni stendur, og vonandi lengur. Handritið er vandlega unnið en verkið sló fyrst í gegn árið 2004 þegar það var frumsýnt í New York og hefur síðan þá unnið til fjölda verðlauna en það byggir á dæmisögu eftir John Patrick Shanley en lifnar hér við í leikstjórn Stefáns Baldurssonar.

Sagan segir frá þeim systur Aloysisus og séra Flynn sem starfa á sama vinnustað. Strax í upphafi er áhorfendum gert ljóst að gríðarleg stéttaskipting á sér stað innan starfsstéttarinnar þar sem kynin mega vart mætast á göngu við klaustursveggina.

Þegar verkið hefst hefur hinn geðþekki Flynn nýverið tekið við stöðu prests og ekki líður að löngu þar til systir Aloysisus fer að gruna hann um græsku. Eftir að hafa fylgst vökulu auga með hverri hreyfingu ákveður hún að grunur sinn sé á rökum reistur og sækir hann til saka um ósæmilega hegðun gagnvart nemenda við klausturskólann. Hin saklausa og auðtrúa systir James er samstundis þvinguð í dómsúrskurðanefnd um sannleiksgildi ásakananna.

Leikaraval sýningarinnar er hágæða og gleðilegt að fá Steinunni Ólínu Þorsteinsdóttur aftur á svið eftir þrettán ára hlé. Hlutverk systur Aloysisus virðist sem hannað fyrir Steinunni enda túlkar hún hina miskunnarlausu og óskeikulu Aloysisus af mikilli sannfæringu. Það að fá Hilmi Snæ Guðnason í hlutverk séra Flynn var jafnframt stórsnjallt enda gæti hann með sínu flekklausa brosi komist upp með hvað sem er. Eins og við var að búast var samleikur þeirra framúrskarandi og dínamík verksins nánast áþreifanleg eftir sem líða tók á framvinduna. Spurningin sem situr eftir er hvenær höfum við rétt til þess að rétta yfir eigin samfélagi og er í raun hægt að knýja fram sannleikann?

Lára Jóhanna Jónsdóttir lék hina ungu og óreyndu systur James og gerði vel. Eflaust fundu meðvirkir áhorfendur rækilega til sín en systir James vakti á sama tíma samúð úr salnum fyrir því erfiða vali sem hún stóð frammi fyrir. Sólveig Guðmundsdóttir túlkaði svo móður drengsins sem deilur verksins hverfast í kringum í litlu en eftirminnilegu hlutverki.

Það að titill leikritsins sé dæmisaga gefur sögunni ákveðið hlutleysi en endalok sýningarinnar eru jafnframt óræð sem eykur að mínu mati líftíma sögunnar. Þórunn Sigríður Þorgrímsdóttir hannaði bæði búninga og leikmynd en sögusviðið er sambland af rannsóknarstofu og umferðargötu þar sem hægt er að ákveða í hvora áttina skal haldið. Óhætt er að segja tónlist og lýsingu í lágstefndara lagi en sú leið hentar verkinu vel þar sem úrvals leikur fær hvað best notið sín meðan áhorfendur sveiflast á milli þess hver hinn endanlegi sannleikur sé.

- Auglýsing -

 

Texti / Íris Hauksdóttir.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -