Föstudagur 29. mars, 2024
-4.2 C
Reykjavik

Mikilvægt að huga vel að húðinni á meðan maður ferðast

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ráðleggingar um vörur sem gott er að hafa meðferðis í handfarangri.

Það getur tekið sinn toll á húðina að ferðast erlendis því um borð í flugvélum er afar þurrt loft. Þess vegna fer húðin að sýna merki rakaskorts. Það þýðir að þurr húð verður þurrari en feit húð verður enn feitari því fitukirtlarnir fara á fullt við að vinna á móti rakatapinu. Þess vegna er ekki síður mikilvægt að huga vel að húðinni á meðan maður er um borð. Hér eru nokkrar ráðleggingar um vörur sem gott er að hafa meðferðis í handfarangri.

Alls ekki gleyma að drekka nóg af vatni.

Sótthreinsandi klútar: Það er nauðsynlegt að byrja á því að sótthreinsa á sér hendurnar áður en þú ferð að snerta á þér andlitið. Klútar hafa það fram yfir handspritt að þeir fjarlægja líka megnið af óhreinindum af höndunum. Fyrst þú ert byrjuð, hví ekki strjúka klút yfir borð, sætisarma og beltissylgju og tryggja þannig að þeir fletir sem þú snertir mest séu líka lausir við bakteríur.

Hreinsiklútar: Í lengra flugi, til dæmis til Norður-Ameríku, er langbesta ráðið að þrífa strax allan farða af húðinni þannig að þú getir notað alvörurakasprengjur til að vinna gegn þurra loftinu um borð. Þægilegast er að nota þartilgerða hreinsiklúta því þeir teljast ekki til vökva í handfarangri og þú þarft ekki að komast í vatn til að þrífa húðina. Hafðu í huga að þú þarft alltaf að nota fleiri en einn klút á andlitið.

Maski eða olía: Þegar þú ert búin að taka af þér farðann, eða gerðist svo djörf að mæta ómáluð, þá er næsta skref að gefa húðinni eins mikinn raka og mögulegt er. Hér duga ekki venjuleg rakakrem heldur er betra að nota rakaserum, andlitsolíu eða einfaldlega maska. Upp á síðkastið hafa komið á markað svokallaðir svefnmaskar sem er ekki nauðsynlegt að þrífa af og eru í raun ofurnæturkrem. Einnig grípa sumir til þess ráðs að setja á sig taumaska en þú verður þá að vera tilbúin til þess að líta út eins og múmía á meðan. Hvað sem þú kýst að nota gildir það að bera oft og mikið á.

Rakagefandi sprey: Í styttra flugi er kannski ekki ástæða til að fjarlægja af sér allan farða til að setja á sig olíu eða maska, þó að sumar geri það. Við verðum samt sem áður að passa að veita húðinni nægan raka og þá geta rakagefandi andlitsvötn komið að góðum notum. Þau innihalda flest rakagefandi efni svo sem aloe vera eða hyaluronic-sýru en sum þeirra innihalda einnig plöntuolíur. Hægt er að fá mörg þessara andlitsvatna í spreyformi sem má þá spreyja yfir allt andlitið, jafnvel þótt það sé farðað, og við mælum með því að spreyja að minnsta kosti eina umferð á klukkutíma fresti meðan þú ert um borð.

Varasalvi: Vegna þess að í vörum okkar eru engir fitukirtlar stóla þær á utanaðkomandi raka, hvort sem það er úr varasalva eða munnvatni. Varasalvar eru mjög mismunandi, sumir innihalda vaselín og eru fyrst og fremst fyrirbyggjandi gegn þurrki og henta því ágætlega í flug en aðrir innihalda góðar náttúrulegar olíur sem mýkja húðina og veita raka. Báðar týpur henta vel í flug þannig að það er bara um að gera að velja þann sem þér þykir bestur.

- Auglýsing -

Augndropar: Þurrt flugvélaloftið hefur líklega mest áhrif á augu okkar og til að gera ástandið enn verra erum við oft að horfa á kvikmyndir eða lesa bækur á upplýstum skjám sem erta líka augun. Þau verða því oft þurr og rauð og okkur klæjar í þau. Þess vegna er mjög sniðugt að ferðast með augndropa með sér til að róa augun og gefa þeim raka.

Vatnsflaska: Alls ekki gleyma að drekka nóg af vatni.

Texti / Hildur Friðriksdóttir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -