Fimmtudagur 25. apríl, 2024
8.1 C
Reykjavik

Detox í desember

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Í desember gæti verið sniðugt að „detoxa“ eða „pretoxa“ áður en jólahátíðin skellur á.

Það er mikilvægt að passa upp á að nóg sé til af ferskum mat, eins og ávöxtum og grænmeti.

Desember er annasamasti mánuður ársins hjá flestum. Við þurfum ekki aðeins að versla jólagjafir, þrífa heimilið, skrifa jólakort, skreyta og guð má vita hvað heldur er okkur einnig boðið í alls konar aðventuboð á vinnustöðum, til ættingja og vina. Síðan skellur jólahátíðin á og það er sama upp á teningnum þá. Þannig að mánuðurinn einkennist af áti, drykkju, streitu og svefnleysi. Við höfum oft heyrt talað um detox, eða hreinsun, eftir þetta sukktímabil en einnig er gáfulegt að huga að nokkurs konar „pretoxi“, það er andlegum og líkamlegum undirbúningi, og hér eru nokkur góð ráð.

Matur

Hangikjöt, skata, villibráð, grafinn lax og svo mætti lengi telja. Þótt hátíðarmatur sé vissulega gómsætur er hann einnig þungur í maga og oftar en ekki fremur saltur. Án þess að þú gerir þér fulla grein fyrir því þá getur hann farið að hafa áhrif á heilsu þína.

Þú getur lítið stjórnað hvað er á boðstólum í þeim veislum og partíum sem þú ferð í. Þess vegna er enn mikilvægara að passa upp á að ísskápurinn þinn sé að minnsta kosti vel birgur af alls kyns ferskum mat, eins og grænmeti. Þau fáu kvöld sem þú ert heima hjá þér í aðdraganda jólanna ættir þú að reyna að fá þér salat eða annan léttan mat. Þú munt sofa betur og almennt líða betur þegar þú vaknar daginn eftir.
Takmarkaðu nammiátið við nokkra daga því of mikill sykur getur valdið ójöfnu orkustigi, þannig að þú ert annað hvort alltof þreytt eða of ör.

Drykkur

Áfengi er oftar en ekki haft um hönd í kringum hátíðarnar og þá kannski í meira mæli en gengur og gerist aðra mánuði ársins. Það er mikilvægt að reyna að gæta hófs og jafnframt vanda valið. Reyndu að drekka sem minnst af sykruðum drykkjum og drekktu alltaf eitt vatnsglas á móti hverjum drykk svo þú verðir ekki fyrir vökvatapi.

- Auglýsing -
Gott er að venja sig á að fá sér vatnslosandi drykk, eins og sítrónuvatn, á morgnana.

Hátíðarmatur er eins og áður sagði fremur saltur og reyktur sem þýðir að okkur hættir til að binda meira vatn í líkamanum. Þannig að þegar þú hættir einn morgun að passa í buxurnar þínar þá er það ekki endilega vegna þess að þú sért búin að fitna heldur getur það einfaldlega verið bjúgur. Því er gott að venja sig á að drekka nóg af vatni og fá sér vatnslosandi drykk, eins og sítrónuvatn, á morgnana.
Eins og áður sagði er maturinn í þessum mánuði ekki mjög fjölbreyttur. Til að auka vítamín- og steinefnaneyslu þína er gott að fá sér „smoothie“ á morgnana með nóg af ferskum eða frosnum ávöxtum, kókosvatni, chia-fræjum, avókadó og spínati eða grænkáli. Þannig færðu góðan kraft og næringu fyrir daginn og þú getur tjúttað fram eftir nóttu ef þannig liggur á þér.

Reyndu líka eftir bestu getu að skipta kaffinu út fyrir te því það hefur alla jafna mun meira magn andoxunarefna ásamt því að innihalda jurtir sem geta hjálpað til við að jafna meltingu, styrkja ónæmiskerfið, gefa orku og einbeitningu og svo framvegis.

Hvíld

- Auglýsing -

Það er alveg bókað mál að þú færð ekki nægan svefn í desember, hvort sem þú ert að djamma á jólahlaðborðum eða sveitt að versla jólagjafir á miðnæturopnun í verslunum. Þess vegna verður að grípa gæsina þegar hún gefst og fara snemma að sofa og tryggja gæði svefnsins. Skiptu reglulega um á rúminu, því fátt hjálpar manni að sofna eins og tandurhrein og ilmandi sængurföt. Það þekkja flestir að lavender er mjög róandi og því er sniðugt að blanda nokkrum dropum af lavander-ilmolíu við vatn og spreyja létt yfir koddann.

Einnig er gott að drekka róandi te á kvöldin til að tryggja að maður sofni snemma. Það er hægt að fá ýmsar gerðir af tei í verslunum og mikilvægast er að það sé koffínlaust en síðan eru ýmsar jurtir sem eru svefnaukandi, eins og kamilla, eða garðabrúða.

Hættu líka í símanum og spjaldtölvunni allavega klukkutíma áður en þú ætlar upp í rúm því bláa ljósið sem slík tæki gefa frá sér hamla melatónínframleiðslu svo það tekur þig lengri tíma að sofna.

Áríðandi er að grípa gæsina þegar hún gefst og fara snemma að sofa og tryggja gæði svefnsins.

Texti / Hildur Friðriksdóttir
Myndir / www.pixabay.com

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -