Fimmtudagur 28. mars, 2024
1.8 C
Reykjavik

 Draumurinn sem breytti lífi mínu

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Lífsreynslusaga úr Vikunni

Mig dreymdi fyrsta minnisstæða drauminn á barnsaldri þótt ég hafi ekki skilið hann fyrr en ég varð fullorðin. Draumarnir urðu fleiri en í nokkrum tilvikum vildi ég ekki horfast í augu við merkingu þeirra. Einn afar skýr og erfiður draumur varð síðan til þess að ég gjörbreytti lífi mínu.

Þegar ég var tíu ára skildu foreldrar mínir. Pabbi þótti fínn maður í litla bænum þar sem við bjuggum og naut mikillar virðingar, svo út á við áttaði sig enginn, eða fáir, á því að hann drakk allt of mikið.Áður en okkur systrum var sagt frá skilnaðinum dreymdi mig fyrsta skrímslisdrauminn minn. Þá fannst mér stórt skrímsli koma upp úr jörðinni og ætla að gleypa eða kremja húsið okkar. Löngu seinna áttaði ég mig á merkingu draumsins, að hann væri fyrir brotthvarfi pabba af heimilinu og sorginni sem því fylgdi.

Bæði pabbi og amma höfðu mikinn áhuga á draumum og ég sat oft og hlustaði á þau ræða drauma og hvað þeir þýddu. Líklega vegna þess hef ég reynt að rýna í merkingu þeirra drauma minna sem virðast tákna eitthvað. Að öðru leyti er ég ekki sérlega áhugasöm um það sem flokkast undir andlega hluti, eða dulræna.

„Vina mín …“

Mamma flutti með okkur systkinin til Reykjavíkur nokkru eftir skilnaðinn og þar hef ég búið síðan. Ég held að ég hafi verið dæmigert barn alkóhólista og frá því ég var ung stúlka valið mér kærasta sem ég ætlaði að bjarga. Fyrsti sambýlismaður minn drakk mikið og beitti mig andlegu ofbeldi en innan við ári eftir að ég fór frá honum kynntist ég Bjarna sem heillaði mig upp úr skónum. Hann gat fengið sér í glas án þess að verða dauðadrukkinn, ólíkt sambýlismanninum, en ég áttaði mig ekki á því fyrr en seinna að hann hafði bara svona gott þol.

Hann gaf mér lítinn umhugsunarfrest, allt í einu vorum við bara gift og á leið í brúðkaupsferð til Frakklands. Hann var fimmtán árum eldri en ég en aldursmunurinn truflaði mig þó alls ekki, hann var unglegur og vel á sig kominn.

- Auglýsing -

Í brúðkaupsferðinni greindi okkur fyrst á. Það hafði angrað mig allan tímann að hann sagði alltaf að hann ætlaði alltaf að „taka mig“ hingað og þangað til að sýna mér en hann hafði áður heimsótt Frakkland og þekkti sig betur en ég sem hafði aldrei farið þangað. Svo sagði hann alltaf „vina mín“ sem pirraði mig óstjórnlega mikið og hefur alltaf gert.

Í einni skoðunarferð okkar bað ég hann loks um að hætta þessu, við værum að fara saman í þessar ferðir, ekki hann að taka mig þangað … og svo fyndist mér óþægilegt að vera kölluð vina mín, eins og ég væri lítill krakki. Ég sagði þetta brosandi og kurteislega og átti ekki von á þeirri bræði sem þessi tillaga mín orsakaði. Hann öskraði á mig og ég bjóst allt eins við að fólkið í kringum okkur hringdi í lögregluna, svo trylltur og ógnandi var hann við mig. Þetta eyðilagði þá tvo daga sem eftir voru af ferðalaginu og önnur systir mín sagði seinna að ég hefði komið breytt heim, ekki verið þessi síbrosandi, ástfangna og glaða kona sem fór í ferðina með stóru ástinni í lífinu. Ég sagði engum frá þessu.

Það tók mig mörg ár að átta mig á því hvernig maður Bjarni var, heillandi persónuleiki hans yfirgnæfði oftast slæmu hliðarnar hans. Hann var meiri í orði en á borði, var hreinlega grobbinn sem ég ruglaði saman við sterkan persónuleika, og lítil innistæða var fyrir orðum hans og loforðum.

- Auglýsing -

Við eignuðumst tvö börn en þegar það yngra var fimm ára gafst ég endanlega upp á Bjarna. Þá vorum við nánast gjaldþrota.

Loksins!

Seinni eiginmaður minn, Ágúst, sem ég kynntist hálfu ári síðar, var gjörólíkur honum, rólegur maður og traustur, með alla hluti á hreinu, fannst mér. Honum þótti, eins og mér, gott að fá sér í glas um helgar og hann kunni að fara með vín.

Mér fannst Ágúst einn besti maður sem ég hafði kynnst en með tímanum kom í ljós að hann var með mikla félagsfælni og vildi þess vegna hvorki bjóða fólki heim né ferðast. Það veitti honum mikið öryggi að hafa fasta rútínu og því voru allar breytingar, stórar og smáar, honum mjög erfiðar. Dagarnir liðu í rútínu og tilbreytingaleysi sem var aftur á móti verulega erfitt fyrir mig, því ég hef þá lífssýn að tilbreyting sé krydd lífsins. Ég elska að hitta vini, kynnast nýju fólki, læra eitthvað nýtt og ferðast. En sá lífsstíll var sem martröð fyrir eiginmanninn og smám saman hætti ég að leggja það á hann og okkur bæði, hvorki að skipuleggja ferðalög né bjóða fólki heim. Í viðleitni minni til að skilja hann og styðja varð ég sífellt daprari og fimm árum eftir að við giftum okkur var ég komin á þunglyndislyf.

Mig fór að dreyma pabba sem þá var nýdáinn. Mér fannst ég vera í bíltúr með honum og við spjölluðum mikið og hlógum. Þetta voru yndislegir draumar, ég saknaði pabba mikið og leið betur eftir þessa drauma. Ekki kafaði ég dýpra í þá, enda var ég í afneitun. Jú, ég drakk ansi mikið, og ansi oft þegar ég var að elda færði Ágúst mér léttvínsglas eftir að hann kom heim úr vinnunni, og var þá sjálfur búinn að hella sér í glas. Hann vildi að ég spilaði með honum í þessu óheilbrigða sambandi, svo kvíði hans félli í skuggann, ég drukkin og þunn til skiptis og vildi engan hitta, það hentaði honum best. Mér tókst svo vel að fela drykkju mína að systur mínar og vinkonur áttuðu sig ekki á neinu.

Eitt kvöldið, eða öllu heldur eina nóttina, sat ég í hægindastól í stofunni, Ágúst var sofnaður. Ég var með koníak í glasi og leið hörmulega, mig langaði ekki til að lifa lengur. Allt í einu fannst mér sem ég hefði farið út úr líkamanum því ég horfði á þessa brjóstumkennanlegu konu sem sat þarna vansæl og drakk. Líklega hefur mér runnið í brjóst eitt augnablik en hvort sem þetta var draumur eða ekki, varð þetta til þess að ég ákvað að leita hjálpar.

Ég pantaði viðtal hjá áfengisráðgjafa strax daginn eftir og fékk tíma stuttu seinna. Eftir smáspjall spurði ráðgjafinn mig hvort ég væri tilbúin til að stökkva út í djúpu laugina og fara í meðferð. Ég játaði því og komst þangað inn ótrúlega fljótt. Það kom mér mikið á óvart hvað það var gaman í meðferðinni. Ég upplifði þetta meira eins og sumarbúðir fyrir fullorðna með spennandi dagskrá alla daga. Það voru grúppufundir á morgnana, fyrirlestrar eftir hádegi, frábær matur í mötuneytinu og AA-fundir á hverju kvöldi. Þetta var líka algjört frí frá daglegu amstri og tilbreytingalausum dögum. Ég kynntist nokkrum yndislegum manneskjum í meðferðinni sem ég hef síðan hitt á fundum af og til. Þetta var eins og að gjörbylta lífinu, opna fyrir félagslífið og læra að elska sjálfa mig og lífið upp á nýtt.

Nýja ég

Ágúst tók þessari nýju mér mjög illa. Hann vildi hafa mig eins og ég var, heimakæra og meðfærilega, vegna þess að ég var með eilíft samviskubit yfir laumudrykkjunni og þunglyndinu. Það tónaði vel við hans félagskvíða og kröfuna um einangrað heimilislíf. Mig langaði strax til að skilja við hann en var ráðlagt að taka engar stórar ákvarðanir í heilt ár eftir meðferðina. Skilnaður var óhjákvæmilegur því sambandið var löngu staðnað og dáið. Hamingja okkar Ágústs jókst til muna þrátt fyrir sorgina og söknuðinn sem skilnaðurinn olli en Ágúst leitaði sér loks sálfræðiaðstoðar sem hjálpaði honum mikið.

Draumar mínir um bílferðirnar með pabba sýndu auðvitað að ég var alkóhólisti eins og hann en bílar í draumi tákna oft líf fólks. Ég var ekki undir stýri í draumunum sem þýddi líka að ég stjórnaði ekki eigin lífi, heldur vínið. Skrímslið sem mig dreymdi í æsku hafði mætt aftur nokkrum sinnum og elt mig í gegnum ganga og ranghala. Ég afskrifaði þá drauma sem marklausa martröð, en líklega hafa þeir verið tákn fyrir sjúkdóminn sem hafði tekið yfir líf mitt, eyðilagt hjónaband foreldra mína og einnig líf föður míns þar til honum tókst að hætta að drekka.

Ég öðlaðist nýtt líf í kjölfarið og fór að finna fyrir tilfinningum aftur en ég hafði nánast kæft þær með drykkju. Ég hef aldrei verið hamingjusamari og hef náð að tengjast fjölskyldu minni og vinum á nýjan og betri hátt. Ég hef meira sjálfstraust og tel mig betri mannþekkjara en áður.

Ágúst gifti sig aftur og mér sýnist á öllu að hann blómstri með konunni sinni sem er álíka heimakær og hann. Hún er þó með meira bein í nefinu en ég og það er líklega það sem Ágúst þarf. Þau ferðast allavega meira en við gerðum.

Ég hef verið einhleyp í nokkur ár, vissulega farið á stefnumót en enginn maður hefur náð að heilla mig almennilega. Kannski eru bestu mennirnir þegar gengnir út, eins og ég segi stundum í gríni við systur mínar og vinkonur sem eiga frábæra menn. Hvað verður kemur bara í ljós, ég hef ekkert á móti ást og rómantík en vil vera varkár.

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -