Laugardagur 15. júní, 2024
11.8 C
Reykjavik

„Ég er ekki að leita að karli“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Fyrir fjórum árum skildi ég við manninn minn. Ég komst að því að hann hafði haldið framhjá mér um tveggja mánaða skeið. Konan var fyrrverandi kærasta hans og þetta var gríðarlegt áfall. Mér fannst eins og allt okkar hjónaband hefði verið lygi, eitthvert millibilsástand meðan hann biði eftir að hún losnaði. Ég var því mjög brotin og kærði mig sannarlega ekki um sambönd við aðra karlmenn en þeir létu mig ekki í friði.

Við Biggi kynntumst á bar í miðbænum. Hann var fyndinn og skemmtilegur og ég féll eiginlega strax fyrir honum. Hann var líka umhyggjusamur og ljúfur og mér fannst lengi að ég hefði fundið draumaprins. Að vissu leyti var hann það líka en hann hafði brennt sig illa í fyrra sambandi. Fljótlega sagði hann mér frá Stínu, sinni fyrrverandi, hversu hrifinn hann hefði verið af henni og hvernig hún hafði svikið hann. Þau höfðu haft allt til alls, hann var með góðar tekjur, hún líka og lífið virtist brosa við þeim. Þar til Biggi komst að því að hún hélt við yfirmann sinn í vinnunni. Heimur hans hrundi. Í tvö ár var hann gersamlega brotinn og gat varla farið út fyrir hússins dyr.

Hann leitaði sér loks hjálpar og meðferðin farin að skila árangri þegar við hittumst. Við nutum þess að fara hægt af stað, fórum mjög margt saman og skemmtum okkur. Við bjuggum sitt í hvoru lagi en notuðum vel kvöldin og helgarnar. Við eigum sameiginlegt áhugamál sem við stunduðum saman en fórum líka mikið í leikhús, bíó, gönguferðir, bíltúra og út að borða. Þetta var yndislegur tími. Ég hef aldrei haft það jafngott á ævinni. Vinir Bigga tóku mér mjög vel en kannski hefðu viðvörunarljós átt að kvikna þegar einn þeirra hafði orð á því að ég líktist Stínu í útliti. Ég hafði séð myndir af henni og fannst það ekki vera svo en sé eftir á að við erum svipaðar týpur, báðar ljóshærðar og bláeygðar og með líkan vöxt. Ég veit ekki hvort það var þess vegna sem hann valdi mig, það er ómögulegt að segja en hefur ábyggilega haft áhrif.

Rómantískari og betri

Eftir rúmlega árs samband fórum við Biggi að búa saman. Það gekk mjög vel þótt auðvitað yrðu árekstrar. Ég átti mína eigin íbúð og hafði búið ein meðan ég var í námi í útlöndum og var þess vegna fremur fastheldin á margar venjur en okkur gekk vel að vinna úr hlutunum. Kannski hjálpaði sú vinátta sem við vorum búin að byggja upp þegar koma að því. Eftir nokkurra mánaða sambúð giftum við okkur. Við vorum alveg viss um að þetta vildum við en vorum sammála um að bíða með að eignast börn þar til við værum komin í framtíðarhúsnæði.

Eftir tveggja ára hjónaband vorum við Biggi farin að tala um barneignir og að kaupa okkur hús saman. Þá tók ég eftir að hann hafði breyst. Fyrst fannst mér hann hálfannars hugar og alltaf upptekinn þegar ég stakk upp á að við gerðum eitthvað. Hann þurfti að vinna, hitta vini, þvo bílinn eða eitthvað annað. Ég hafði litlar áhyggjur því jafnframt þessu varð hann enn ljúfari og betri við mig en hann hafði verið. Hann kom oft heim með blóm, eldaði matinn, gaf mér gjafakort í spa og hvatti mig til að fara eitthvert og njóta lífsins meðan hann væri upptekinn.

„Það sem fór þó mest í taugarnar á mér var að út úr ýmsum skúmaskotum og ormagryfjum skriðu karlar sem töldu að ég væri að leita huggunar og þeir réttu mennirnir til að veita hana. Í þeim hópi var besti vinur Bigga, sá sem mér fannst svo skilningsríkur í fyrstu.“

- Auglýsing -

Fyrst fannst mér þetta ekkert skrýtið, var bara ánægð með hvað ég ætti góðan mann en þegar hann var farinn að fara undan í flæmingi þegar ég nefndi börn eða stakk upp á að við skoðuðum hús saman varð ég tortryggin. Áður varð það hann sem ýtti á að við gerðum þessa hluti. Ég spurði hann þess vegna hreint út hvort eitthvað hefði breyst. Hvort hann væri ekki enn sama sinnis. Hann reiddist og sakaði mig um að vera ósanngjarna í sinn garð. Það væri mikið að gera og mjög skrýtið að ég treysti honum ekki betur en þetta. Þessi viðbrögð voru svo fáránleg og ekki í neinu samræmi við orð mín að ég vissi um leið að hann stæði í framhjáhaldi.

Ég spurði hann hreint út og hann þverneitaði. Ég var ekki sannfærð og gekk á hann aftur og aftur. Hann varð alltaf öskureiður og rauk jafnan út. Þetta endaði með því að ég hringdi í besta vin  hans, sagði honum hvernig málin stæðu og að ég yrði að vita sannleikann. Við hefðum verið farin að tala um barneignir og ég væri hætt að nota getnaðarvarnir. Það síðasta sem ég vildi væri að sitja uppi ófrísk eftir mann sem ekki væri hundrað prósent skuldbundinn mér. Vinur hans vildi ekkert segja í fyrstu og talaði um að þetta væri okkar mál, milli tveggja og hann ætti ekkert með að blanda sér í það. Loks gafst hann upp en sagðist ekki vita meira en að Biggi hefði hitt Stínu fyrir tveimur mánuðum og hún væri farin frá yfirmanninum.

Mikið áfall

- Auglýsing -

Þetta var algjört áfall. Þótt ég hefði verið nokkuð viss um að Biggi stæði í einhverju framhjáhaldi hafði mér aldrei dottið hún í hug. Mér fannst þetta þýða að ég hefði ævinlega verið varaskeifa fyrir Stínu og fullgóð meðan hann beið eftir henni en um leið og hún kallaði sneri hann aftur til hennar. Ég var niðurbrotin og gersamlega búin á taugum þegar Biggi kom loksins heim. Ég sagði honum að ég væri búin að fá staðfestingu á að hann héldi framhjá mér og að ég vissi hver konan væri. Þá játaði hann allt en grét og bað mig að skilja ekki því hann elskaði mig. Hann hefði bara þurft að ná Stínu út úr systeminu, eins og hann orðaði það. Ég sagði honum að ekki kæmi til greina af minni hálfu að halda hjónabandinu áfram og sama kvöld flutti hann út.

 „Við eigum sameiginlegt áhugamál sem við stunduðum saman en fórum líka mikið í leikhús, bíó, gönguferðir, bíltúra og út að borða. Þetta var yndislegur tími. Ég hef aldrei skemmt mér betur á ævinni. Vinir Bigga tóku mér mjög vel en kannski hefðu viðvörunarljós átt að kvikna þegar einn þeirra hafði orð á því að ég líktist Stínu í útliti.“

Næstu mánuðir voru skelfilegir. Ég var sundurtætt af sorg og reiði og reyndi allt hvað ég gat að púsla mér saman. Ekki hjálpaði að til að byrja með lét Biggi mig ekki í friði og suðaði stanslaust í mér að fyrirgefa sér, tala við ráðgjafa, taka við sér aftur og þar frameftir götunum. Á sama tíma frétti ég af honum heima hjá Stínu á degi sem nóttu. Að lokum sá ég mér ekki annað fært en að flýja til vinkonu minnar í Frakklandi. Þar dvaldi ég í mánuð og svaraði engum símtölum, sms-um eða tölvuskilaboðum frá honum. Ég eyddi öllu óséðu, ákveðin í að gefa mér tíma til að hugsa málin ótrufluð. Það hjálpaði mér að vinur Bigga, sá sem ég hringdi í hafði samband af og til og spurði hvernig ég hefði það. Hann spjallaði við mig en nefndi Bigga aldrei á nafn og minntist ekki á hvað væri í gangi þar, gaf mér bara færi á að tala um hversu rugluð ég væri, döpur og illa stemmd. Mér fannst hann einstaklega skilningsríkur og fínn, enda menntaður á sálfræðisviði.

Þegar ég kom heim hittumst við Biggi til að ræða um okkar mál. Ég sagði honum að ég hefði tekið endanlega ákvörðun, okkar sambandi væri lokið. Hann tók því ekki illa en seinna komst ég að því að á því tímabili höfðu þau, Stína og hann, ákveðið að taka upp sambúð. Við skildum svo í nokkuð sæmilegri sátt miðað við það sem á undan var gengið. Biggi og Stína urðu hins vegar ekki langlíf. Hún henti honum út og tók aftur saman við eiginmanninn. Eftir það reyndi hann nokkrum sinnum að hringja í mig en ég svaraði aldrei.

Aðrir menn

Allt þetta var mér mjög erfitt og ég þurfti að leggja hart að mér til að vinna úr því. Leitaði mér hjálpar fagfólks og fann lengi fyrir einkennum áfallastreituröskunar. Það sem fór þó mest í taugarnar á mér var að út úr ýmsum skúmaskotum og ormagryfjum skriðu karlar sem töldu að ég væri að leita huggunar og þeir réttu mennirnir til að veita hana. Í þeim hópi var besti vinur Bigga, sá sem mér fannst svo skilningsríkur í fyrstu. Þetta hreinlega olli mér ógleði og ég hef ekki tölu á hversu oft ég varð að segja: „Ég er ekki að leita að karli.“

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Elsta tímarit landsins um daglegt líf, tísku, menningu, mat og lífsstíl.

Tryggðu þér árs áskrift og fáðu vikuleg tölublöð á 832 kr. stykkið eða kauptu stakt blað á 1.795 kr.

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -