Sunnudagur 3. nóvember, 2024
3 C
Reykjavik

„Ég sá að hann var á barmi taugaáfalls af þreytu og álagi“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Vinur minn var rétt um tvítugt þegar hann kynntist jafnöldru sinni og stofnaði fjölskyldu með henni. Ástin entist ekki lengi en það var hægara sagt en gert að slíta sambandinu eftir að tvö börn voru komin til sögunnar.

 

Mér leist ekkert illa á Nínu þegar Gummi kynnti mig fyrir henni en fljótlega eftir að þau fóru að búa saman kom í ljós að hún glímdi við mikla andlega erfiðleika, m.a. þunglyndi og svo drakk hún líka mikið. Hún var á lyfjum við þunglyndinu og fékk fullar örorkubætur. Gummi vissi næstum frá byrjun af þessum erfiðleikum Nínu þótt hann talaði ekki um þau og ég held að hann hafi vonast til þess að með því að vera bara nógu góður við hana myndi það hjálpa henni. Það má þó segja að það hafi haft öfug áhrif með tímanum og Nína nýtti sér góðsemi hans frekar en hitt.

Mér finnst ekki ólíklegt að Gummi hefði gefist upp fyrr eða síðar ef Nína hefði ekki orðið ófrísk nokkrum mánuðum eftir að þau byrjuðu saman. Hann hefur alltaf verið mjög ábyrgur og það tel ég vera ástæðuna fyrir því að hann lét sig hafa þetta. Ástandið versnaði mjög á meðan Nína var ófrísk. Gummi vann eins og hestur og þegar hann kom heim tóku húsverkin við því Nína lá mest fyrir. Sumar konur eru veikar alla meðgönguna og vinna samt en mér fannst alltaf sem Nína nýtti sér ástandið til að fá meiri þjónustu frá Gumma.
Sonurinn fæddist á tilsettum tíma og var ekki nema nokkurra mánaða þegar Nína varð ófrísk aftur og lítil dama kom í heiminn á tilsettum tíma.

Gummi var að springa út hamingju og stolti en Nínu leið sífellt verr. Hún sá sæmilega um börnin á meðan Gummi vann en þegar hann kom heim lokaði hún sig inni í svefnherbergi og sagði honum að taka við. Ég hafði mikla samúð með þeim báðum, hún var mögulega með fæðingarþunglyndi og hann var alltaf þreyttur, enda tvöfalt álag á honum.

Gummi stóð sig vel í föðurhlutverkinu þrátt fyrir ungan aldur en hann leit sífellt verr út. Hann átti margar svefnlausar nætur þegar börnin voru veik eða voru að taka tennur en lét það ekki aftra sér frá því að mæta til vinnu næsta morgun. Hann var í vaktavinnu og átti góð frí á milli. Stundum kíkti hann í heimsókn til mín með börnin þegar Nína lagði sig sem oftar og nokkrum sinnum steinsofnaði hann í stofusófanum hjá mér. Ég hafði ofan af fyrir börnunum á meðan og fannst gott að geta eitthvað hjálpað. Litla hjálp var að fá frá öfum og ömmum. Foreldrar Gumma búa úti á landi og foreldrar Nínu virtust eiga nóg með sig. Það var eins og allir hefðu sammælst um að unga fólkið ætti að axla ábyrgðina sjálft, sem hefði eflaust verið rétt ef ábyrgðin hefði ekki bitnað öll á Gumma sem var of stoltur til að biðja um aðstoð. Hann skammaðist sín líka fyrir Nínu og útganginn á heimilinu en það var eins og Nína orkaði bara að drasla allt út en ekki taka til.

Skilnaður og áhyggjur

- Auglýsing -

Þegar börnin voru á öðru og þriðja árinu gafst Gummi loksins upp og flutti út. Öll ást var löngu horfin úr sambandinu og Gummi kveið fyrir að koma heim úr vinnunni og hitta Nínu. Hann lifði bara fyrir börnin og átti ekki von á öðru en hún samþykkti að hann fengi forræðið yfir þeim þar sem hún virtist ekki geta hugsað um þau hjálparlaust. Hann talaði um að skipta um vinnu þar sem vaktavinna myndi þá ekki henta lengur. Það kom honum á óvart að Nína harðneitaði að gefa eftir forræðið. Þau sömdu um sameiginlegt forræði, að börnin byggju hjá henni áfram, hún fengi meðlag og hann hefði börnin í öllum vaktafríum. Mig minnir að hann hafi unnið í fimm daga og fengið síðan fjögurra daga frí, en það var þó eitthvað breytilegt.

Börnin voru byrjuð í leikskóla á þessum tíma og Gummi sótti þau þangað fyrsta dag í vaktafríi eða sótti þau ýmist þangað eða til Nínu, ef það var helgi, þegar hann var búinn að sofa eftir næturvaktatörn. Þetta gekk svona í nokkrar vikur. Eitt kvöldið þegar Gummi kom dauðþreyttur heim eftir vinnutörn beið Nína eftir honum með börnin steinsofandi í bílstólunum. Gummi varð hissa og spurði hana hvort lítil börn ættu ekki að vera sofandi í rúmum sínum á þessum tíma en Nína spurði á móti hvort hann væri ekki kominn í frí, hann hefði lofað að vera með börnin. Gummi gat ekki neitað því og tók við börnunum. Nína sat sífellt oftar um hann og það skipti engu þótt hann bæði hana um að fá að sofa nokkra klukkutíma eftir næturvaktir áður en hann tæki börnin ef vaktafríið bar upp á helgi. Hann benti henni á að það væri slæmt fyrir börnin ef hann væri alveg svefnlaus en henni virtist standa á sama um það. Hann var kominn í frí og þá var hans tími með börnunum.

Eitt föstudagskvöldið þegar Gummi lauk kvöldvaktatörn ákvað hann að skreppa með vinnufélögum sínum á pöbbarölt á eftir og lét Nínu vita til öryggis svo að hún mætti ekki óvænt með börnin. Hún spurði hann hvenær hann héldi að hann kæmi heim um nóttina en hann sagðist ekki geta sagt til um það, bað hana bara um að koma með þau um morguninn.

- Auglýsing -

Á barmi taugaáfalls

Þetta var skemmtilegt skrall með strákunum og Gummi skreiddist heim um miðja nótt. Það fyrsta sem Gummi sá þegar hann kom út úr leigubílnum var Nína á bílnum með sofandi börnin. Klukkan var að verða fjögur að morgni og hann vissi ekki hvað hún hefði beðið lengi með börnin í bílnum til að afhenda honum þau, hún neitaði að segja honum það. Hann vildi ekki rífast, tók við sofandi börnunum og setti þau í rúmið. Hann var búinn að sofa í tæpa þrjá tíma þegar þau vöktu hann og var þakklátur sjálfum sér fyrir að hafa ekki drukkið meira um nóttina.

„Heimilið væri alltaf sóðalegt, stundum bjórdósir á stofugólfinu, börnin oft skítug og þótt Nína væri ekki vond við þau gerði hún samt lítið til að sinna andlegum og líkamlegum þörfum þeirra.“

Hann heimsótti mig þennan laugardag og sagði mér undan og ofan af því sem hafði gengið á. Ég held að fram að þessu hafi fæstir vitað hvað ástandið var slæmt. Gummi sagðist vera ráðalaus. Nína væri nánast óhæf móðir og hann hefði endalausar áhyggjur af börnunum. Hann færi mjög oft í heimsókn til hennar og barnanna eftir vinnu, dag- eða næturvaktir, til að fylgjast með og aðstoða ef á þyrfti að halda. Heimilið væri alltaf sóðalegt, stundum bjórdósir á stofugólfinu, börnin oft skítug og þótt Nína væri ekki vond við þau gerði hún samt lítið til að sinna andlegum og líkamlegum þörfum þeirra. Hann sagðist hika við að leita til Barnaverndar af hræðslu við að börnin enduðu í fóstri hjá vandalausum. Hann væri kannski ekkert í stakk búinn til að taka við þeim, væri svo ungur, byggi í pínulítilli leiguíbúð og ynni mikið, ekki væri fullvíst að hann fengi börnin þótt hann vildi það. Atvinnuástandið var ekkert sérlega gott fyrir ungan, ómenntaðan mann og Gummi var viss um að hann gæti ekki fengið betur borgaða vinnu en vaktavinnuna sem hann var í. Ég sá að hann var á barmi taugaáfalls af þreytu og álagi.

Ástandið bitnaði óneitanlega á börnunum sem voru stundum ergileg og óörugg, þau límdu sig á Gumma þegar þau voru hjá honum og hann gat sig varla hreyft. Að lokum missti Gummi þolinmæðina og talaði alvarlega við Nínu. Hann sagðist vilja forræðið en þá spurði hún á móti á hverju hún ætti þá að lifa! Sem öryrki fékk hún tvöfalt meðlag með börnunum og fannst það greinilega slæm tilhugsun að þurfa að sjá af þeim peningum. Pabbi Nínu komst að þessu og varð alveg brjálaður, hann hafði lítið gefið sig að barnabörnunum en fannst að dóttur sinni vegið með þessu. Hann ráðlagði Nínu eindregið að gefa forræðið ekki eftir.

Loksins réttlæti

Um þetta leyti fór Nína að búa með manni sem var líka öryrki, tíu árum eldri og jafnmikið fyrir bjórdrykkju og hún. Maðurinn var þó góður við börnin og heimilið fór að líta aðeins betur út. Eftir að hann kom til sögunnar hætti Nína líka að mestu að mæta með börnin til Gumma um leið og vaktafríin hófust hjá honum sama hvenær sólarhringsins það var.

Það var ekki fyrr en Gummi missti vinnuna, ásamt nokkrum öðrum sem var sagt upp vegna samdráttar, að eitthvað gerðist í málunum. Hann flutti út á land til foreldra sinna, leigði litla íbúð skammt frá þeim og fékk ágæta vinnu. Hann fór oft til Reykjavíkur að hitta börnin og tók þau með sér heim aftur í lengri eða skemmri tíma. Mamma hans og pabbi voru alsæl með að hitta barnabörnin svona mikið og hjálpuðu honum með þau þegar á þurfti að halda.
Þau Nína prófuðu um tíma að vera með börnin mánuð í senn hvort um sig en þegar hún áttaði sig á því að hún þurfti að borga leikskólaplássin fyrir börnin þann mánuðinn sem þau væru ekki hjá henni sleit hún samkomulaginu.

Ekki svo löngu síðar gafst Gummi gafst upp á þessu rugli. Hann hafði samband við Barnavernd og lagði spilin á borðið. Þar fékk hann góða aðstoð og fann að þar var hugsað fyrst og fremst um hagsmuni barnanna og hvað þeim væri fyrir bestu. Sem betur fer náðist samkomulag í mestu vinsemd og nú eru börnin búsett hjá Gumma sem hefur einn forræðið yfir þeim. Þau fara tvær helgar í mánuði til Nínu og oftar eftir samkomulagi. Börnin hafa þroskast hratt eftir að þau fluttu til pabba síns og fá þá örvun og umhyggju sem þau þurftu á að halda. Þau hafa líka loksins öðlast það öryggi sem þau bjuggu ekki við áður. Kannski dæmi ég Gumma of hart með þessu en hann var oft svo dauðþreyttur og úttaugaður þegar hann var með börnin í fríunum sínum og átti litla orku aflögu þótt hann reyndi sitt besta. Það var bara ekki nóg.

„Klukkan var að verða fjögur að morgni og hann vissi ekki hvað hún hefði beðið lengi með börnin í bílnum til að afhenda honum þau, hún neitaði að segja honum það.“

Ég veit um feður sem hafa reynt að misnota Barnavernd til að hefna sín á barnsmæðrum sínum en ekki borið hag barnanna fyrir brjósti. Oft sér starfsfólkið í gegnum slíkt en ekki alltaf og í flestum tilfellum táknar þetta bara leiðindi og rask fyrir heimili barnsins, sem er kannski það sem sóst er eftir þegar kært er í hefndarskyni.

Í tilfelli Gumma sigraði réttlætið, hagsmunir barnanna voru hafðir að leiðarljósi. Ég er alsæl fyrir hönd vinar míns og barna hans.

Hægt er að hlusta á Lífsreynslusögur Vikunnar á Storytel. Guðrún Óla Jónsdóttir, Gógó, blaðamaður hjá Vikunni, les upp lífsreynslusögur sem sendar hafa verið inn í blaðið í gegnum tíðina og sögurnar eru jafn ólíkar og þær eru margar. Ekki missa af því þegar nýr þáttur af Lífsreynslusögum fer í loftið í viku hverri – fylgstu með okkur á Facebook

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -