Fimmtudagur 5. desember, 2024
0.8 C
Reykjavik

Eitrað samband

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Lífsreynslusaga úr Vikunni:

Ég hef aldrei skilið hjónaband foreldra minna sérstaklega í ljósi þess að það varði í tuttugu og fimm ár. Þetta var eitrað samband þar sem báðir aðilar niðurlægðu hvorn annan og reyndu á allan máta að gera hinum lífið leitt. Hvað hélt þeim saman veit ég ekki en hitt veit ég að þessar aðstæður í uppvextinum höfðu vond áhrif á okkur öll systkinin.

Mamma tilkynnti öllum sem heyra vildu að þau pabbi hefðu ekki gifst af ást heldur vegna þess að hún varð ólétt af elstu systur minni. Pabbi var vanur að taka undir og segja að hann hefði haft vit á að forða sér ef hann hefði ekki fundið til ábyrgðar á barninu. Rifrildi þeirra hófst venjulega um leið og þau opnuðu augun á morgnana og stóð allar samverustundir þeirra þar til þau sofnuðu á kvöldin.

Mamma þoldi ekki venjur pabba. Við systkinin vöknuðum við það að hún öskraði á hann fyrir á pissa á klósettsetuna eða einhverjum dropum út fyrir. Hún var líka brjáluð yfir hvernig hann gekk um sturtuna. Sápan var ekki skoluð burtu, sjampóbrúsinn skilinn eftir opinn, glerið ekki þrifið og ekki hreinsað úr niðurfallinu.

Ekkert af þessu var rætt eða komið til skila af venjulegum raddstyrk. Allt var öskrað. Stundum fannst mér að pabbi gerði í því að æsa hana upp. Að hans gagnárás væri að leika sér að því að ganga verr um en hann þurfti og skilja viljandi allt eftir í óreiðu.

Ekkert gert á afmælinu

Við systkinin voru auðvitað vön þessum samskiptaaðferðum ef hægt er að flokka þetta undir samskipti því hvorugur aðilinn hlustaði á hinn og báðir öskruðu fremur en að tala. Við vorum hins vegar ekki gömul þegar við skildum hve óeðlilegt þetta var og vegna þess að foreldrar okkar gátu aldrei stillt sig um að rífast hættum við að koma með vini heim þegar bæði voru á staðnum. Ég sótti reyndar alltaf mest í að vera heima hjá bestu vinkonu minni.

Vegna þess að foreldrar okkar gátu aldrei stillt sig um að rífast hættum við að koma með vini heim þegar bæði voru á staðnum.

Þar ríkti allt annað andrúmsloft. Foreldrar hennar voru samhent og báru augljóslega mikla virðingu hvort fyrir öðru. Ég man hvað ég var hissa þegar ég varð vitni að því dag nokkurn að pabbi hennar kom heim með óvænta gjöf handa mömmu hennar. Ég spurði hvort hún ætti afmæli en svo var ekki. Pabba hennar langaði bara að sýna hve mikils hann mæti konu sína.

- Auglýsing -

Ekki að ég væri vön því að pabbi hefði mikið við á afmæli mömmu. Hann færði henni aldrei neitt. Mamma hafði alltaf mikið við á afmælum okkar barnanna. Fór á fætur eldsnemma og bakaði amerískar pönnukökur, uppáhaldsmorgunverð okkar allra, svo tók hún til góðgæti á bakka og færði þeim sem átti afmæli og pakkinn var venjulega fallega umbúinn á honum. Ef gjöfin var stærri en svo að hann gæti rúmast þar var bundið fyrir augu okkar og við leidd að henni. Þannig var það þegar ég fékk hjólið mitt, dúkkuhúsið og skrifborðið.

Hún færði pabba alltaf morgunmat í rúmið á afmælisdaginn hans en hún hafði ekki lag á að velja gjafir handa honum. Sennilega þekkti hún pabba bara ekki nóg. Hann var mikill veiðimaður og fótboltafrík en mamma færði honum oft heimilistæki eða smíðatól. Líklega vegna þess að hún hafði áhuga á slíku, enda var hann vanur að rétta henni gjöfina og segja: „Fínt, þú getur notað þetta.“ Hann hafði hins vegar aldrei fyrir því að gera neitt fyrir hana.

Ég veit að mamma var oft sár og ég man eftir einum afmælisdegi þegar hún grét inni í rúmi. Hún reyndi að leyna því fyrir okkur en ég vissi af því og systir mín líka. Mjög erfitt ástand hafði verið á heimilinu í nokkurn tíma áður en dagurinn hennar rann upp og ég held að hún hafi vonast til að pabbi gerði eitthvað til að reyna að bæta hlutina en svo var ekki.

- Auglýsing -

Framhjáhald og skilnaður

Svona liðu árin og við systkinin fluttum að heiman eins fljótt og við gátum. Ég var sautján ára þegar ég fór að leigja með vinkonu minni sem einnig bjó við erfiðar heimilisaðstæður. Ég var þó það heppin að engin óregla var á mínu heimili en stöðug togstreita, leiðindi og óánægja. Mamma var kattþrifin og þoldi illa óhreinindi, pabbi var kærulaus og hirðulaus um flest annað en sjálfan sig. Hann var ævinlega mjög hreinn og strokinn og passaði vel upp á fötin sín en gekk um heimilið eins og það væri útihús.

Pabbi talaði alltaf niður til mömmu. Það var augljóst að honum fannst ekki mikið til hennar eða fjölskyldu hennar koma. Hann kallaði bræður hennar smurolíupjakka vegna þess að þeir unnu við véla- og bílaviðgerðir. Mamma var mjög listræn og saumaði, málaði og föndraði alls konar fallega muni.

Að hans mati var það algjör tímasóun og ekki mikið varið í neitt af því sem hún gerði. Eiginkona bróður hans var hins vegar listmálari og fyrir henni bar hann ómælda virðingu og allt sem hún gerði lofaði hann í hástert. Þegar við vorum yngri og litlir peningar til á heimilinu bjó mamma til allar jólagjafir. Pabbi kallaði þær drasl og kvartaði yfir að miklir peningar færu í efniskaup. Mamma benti honum á að mun dýrara væri að kaupa gjafir og þá sljákkaði aðeins í honum. Þegar pakkarnir voru opnaðir kom í ljós að mágkona pabba hafði gert það sama og mamma, búið allt til og nú átti pabbi ekki orð yfir hve flott það væri. Okkur fannst dótið hennar mömmu þó mun flottara og skemmtilegra.

Þegar við vorum yngri og litlir peningar til á heimilinu bjó mamma til allar jólagjafir. Pabbi kallaði þær drasl og kvartaði yfir að miklir peningar færu í efniskaup.

Ég veit að þetta særði mömmu mikið en hún var ekki skárri gagnvart pabba. Amma mín hafði ekki tekið sambandi þeirra vel þegar það byrjaði og mamma talaði alltaf mjög illa um hana. Hún sagði öllum að tengdamóðir sín hefði tekið illa á móti sér og frá fyrstu tíð gert lítið úr sér. Föðurfólk mitt var upp til hópa langskólagengið en hefð var fyrir iðnnámi í mömmu fjölskyldu, enda þar mjög margir dverghagir einstaklingar. Móðurafi minn var bifvélavirki og tveir synir hans fetuðu í þau fótspor.

Systir mömmu var hárgreiðslukona og klæðskeramenntuð í ofanálag en mamma var húsmæðraskólagengin og hafði auk þess lært tækniteiknun. Það fag varð fljótt úrelt og mamma fór þá að vinna hjá innréttingabúð. Þar komu hæfileikar hennar að góðum notum og iðulega teiknaði hún upp fyrir fólk innréttingar og hjálpaði því að hanna rýmin í íbúð sinni.

Uppgjör

Mömmu og föðurafa mínum kom mjög vel saman og þegar hann dó snögglega þegar ég var nítján ára var eins og eitthvað brotnaði í fjölskyldunni. Hann hafði alltaf verið bandamaður mömmu og staðið með henni í mörgum deilum. Ég veit að systkinum pabba fannst hún leiðinleg gribba og töldu pabba of góðan fyrir hana. Að mínu mati var það alrangt. Pabbi hafði vissulega sína kosti en mamma var ekki síðri en hann og bæði gerðu sitt til að skapa og viðhalda darraðardansinum á heimilinu.

Auðvitað dróst öll stórfjölskyldan beggja megin smátt og smátt inn í þetta og stundum lá við slagsmálum milli pabba og bræðra mömmu og iðulega talaði mamma ekki við helminginn af fjölskyldu pabba.

Við systkinin tölum oft um að við lærðum aldrei almennileg samskipti.

Samband mömmu og pabba entist í þrjú ár eftir að afi dó. Þá komst mamma að því að hann hafði haldið við aðra konu árum saman og rak hann á dyr. Síðan þá hefur hún unnið mikið í sínum málum og er á góðum stað í dag. Pabbi býr með viðhaldinu og er hamingjusamur. Við systkinin tölum oft um að við lærðum aldrei almennileg samskipti. Það hefur tekið okkur mörg ár að átta okkur á að ef þú vilt að aðrir hlusti öskrar þú ekki, ef þú vilt eiga í gefandi samskiptum gefur þú af þér og gefur eftir í stað þess að niðurlægja.

Ég lærði þetta áður en illa fór hjá mér en eldri systir mín segir að hefði hún áttað sig fyrr væri hún enn í hjónabandi með fyrri manni sínum. Bróðir minn er nýskilinn og er að vinna með sálfræðingi í að gera upp æskuna og eigin vanþekkingu á heilbrigðum samböndum.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -