Mánudagur 15. júlí, 2024
11.8 C
Reykjavik

„Ekkert til í okkar orðabók sem heitir stöðnun.“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Íslenskt áhugafólk um förðun ætti að kannast vel við Sigurlaugu Dröfn Bjarnadóttur og Söru Dögg Johansen, en þær hafa skipað sér í raðir okkar fremstu förðunarfræðinga. Ungar að árum stofnuðu þær fyrirtækið sitt Reykjavík Makeup School sem nýtur mikilla vinsælda, en á þeim fimm árum sem liðin eru frá stofnun skólans hafa tæplega 600 nemendur útskrifast þaðan. Velgengni þeirra má þakka metnaði og óbilandi áhuga á því sem þær gera, en þær leggja mikla áherslu á að auka sífellt þekkingu sína og færni í faginu.

Leiðir vinkvennanna lágu upphaflega saman árið 2010 þegar þær kynntust í Airbrush & Makeupschool. Á þessum tíma var Sara nýútskrifuð úr listnámi en hún segir hönnun og list alltaf hafa heillað sig. „Ég tók grunn í arkitektúr áður en ég lærði förðun, en draumur minn frá því að ég man eftir mér var að verða arkitekt,“ segir hún, en eftir útskrift úr förðunarnáminu var ekki aftur snúið. „Upphaflega ætlaði ég aðeins að læra förðun fyrir sjálfa mig, en eftir námið bauðst mér starf í förðunarverslun og sem förðunarkennari, síðan þá hefur þessi heimur átt hug minn allan.“

Silla starfaði í Íslandsbanka og ætlaði sér, líkt og Sara, eingöngu að læra förðun fyrir sjálfa sig. Hún fann fljótt að þetta lægi vel fyrir sér, en hélt áfram að vinna í bankanum næstu tvö árin. „Einn daginn fékk ég svo símtal þar sem mér bauðst að gerast kennari við skólann þar sem ég lærði, og mér fannst það mjög spennandi. Þegar ég fór að velta þessu fyrir mér fór ég samt sem áður að hugsa, „af hverju geri ég þetta ekki bara sjálf, af hverju ekki að opna nýjan skóla?“ og þar með kviknaði hugmyndin. Ég ræddi þetta fram og til baka við manninn minn sem leist vel á hugmyndina og hvatti mig áfram, en mig vantaði viðskiptafélaga, einhvern sem var tilbúinn til að gera þetta með mér. Ég þekkti Söru ekki mikið á þessum tíma en fann einhvern veginn á mér að hún væri rétta manneskjan í þetta. Það er skemmtilegt að segja frá því að ég bað hana þess vegna að koma með mér í hádegismat á Hamborgarafabrikkunni einn daginn, og spurði hana hvernig henni litist á að stofna eitt stykki skóla með mér. Ótrúlegt en satt, hún var búin að vera hugsa nákvæmlega það sama, og allar hugmyndirnar sem hún hafði voru svipaðar því sem ég var með í huga. Ég þurfti því ekkert að hafa fyrir því að sannfæra hana, og við ákváðum þarna að bara kýla á þetta.“

Eftir að hugmyndin var komin í loftið var ekki aftur snúið og hlutirnir gerðust hratt. Aðeins mánuði eftir fundinn á Hamborgarafabrikkunni var komin kennitala fyrir fyrirtækið, nafn og leit hafin að rétta húsnæðinu. Hvorug þeirra var í vafa um að þetta væri rétt skref. „Auðvitað var þetta einhver áhætta, að stofna fyrirtæki og henda okkur í djúpu laugina, sérstaklega þar sem við þekktumst varla. En við vorum bara svo vissar frá upphafi að þetta myndi ganga,“ segir Sara, og Silla tekur undir. „Það er líka kannski það sem hefur komið sér svona vel, að vera ekkert að ofhugsa hlutina. Við erum svolítið þannig að ef við fáum góðar hugmyndir sem við trúum á, förum við frekar í það að finna leiðir til að láta þær ganga upp heldur en að hugsa út í allt sem gæti farið úrskeiðis. Ég er alveg viss um að ef við hefðum fengið þessa hugmynd og ætlað að hugsa um þetta í einhvern tíma, mánuði eða ár, hefði bara einhver annar verið á undan.“

 

Við erum svolítið þannig að ef við fáum góðar hugmyndir sem við trúum á, förum við frekar í það að finna leiðir til að láta þær ganga upp heldur en að hugsa út í allt sem gæti farið úrskeiðis

Þetta er aðeins brot úr ítarlegu viðtali við Sillu og Söru. Lestu viðtalið í heild sinni í nýjasta tölublaði Vikunnar.

- Auglýsing -

/Texti: Margrét Björk Jónsdóttir
/Myndir: Aldís Pálsdóttir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -