Mánudagur 15. júlí, 2024
11.8 C
Reykjavik

Evrópa stóð ekki með mannréttindum

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Nazima Kristín Tamimi er af blönduðum uppruna en faðir hennar kemur frá Palestínu.

Hún segir uppeldi sitt sambærilegt annarra íslenskra barna, að trúnni undanskilinni, en menningarmunurinn hafi þó verið talsverður. Sérstöðu sína nýtir Nazima til að fræða Íslendinga um málefni Palestínumanna sem og múslima. „Ég myndaði mér pólitískar skoðanir langt á undan krökkunum í kringum mig. Að öðru leyti var ég ekkert ólík jafningjum mínum, nema kannski fyrir þær sakir að ég borða ekki svínaafurðir þar sem trúin bannar það.“

„Það hefur eflaust aðskilið mig hvað mest frá hinum í ljósi þess að annar hver Íslendingur pantar pepperóni eða skinku á pítsuna sína.“

Eftir hryðjuverkaárásina þann 11. september 2001 er óhætt að segja að múslimar, og arabar almennt, hafi af mörgum Vesturlandabúum verið álitnir hryðjuverkamenn. Palestínumenn eru þar engin undantekning. Stjórnmálaaflið Hamas hefur jafnframt verið umdeilt en margir flokka það sem hryðjuverkahóp og þar af leiðandi eru stuðningsmenn Palestínu oft kallaðir gyðingahatarar og hryðjuverkamenn. Að sögn Nazimu snýst málið ekki um gyðingdóm heldur almenn mannréttindi. „Það hefur verið margsannað af Sameinuðu þjóðunum að stjórnvöld í Ísrael fremja mannréttindabrot daglega. Það er það sem skiptir máli. Íslendingar eru vel sér í þessum efnum og augu almennings eru að opnast, því tek ég fagnandi. Fólk er loksins farið að átta sig á þeim yfirgangi, hertöku og mismunun sem Palestínumenn hafa þurft að búa við síðustu sjötíu árin og von mín er sú að með síaukinni tæknivæðingu muni fólk loksins fara að sjá heiminn eins og hann er.“

Í beinu framhaldi er nær óhjákvæmilegt annað en að ræða nýkjörinn sigurvegara Eurovision í ár þar sem Ísraelsmenn báru sigur úr býtum.

„Framlag Ísraelsmanna í Eurovision er ímyndarsköpun þar sem upp er sett ákveðin mynd af mannréttindabaráttu Ísraels með því að syngja í átt að kvennahreyfingunni sem hefur farið stigvaxandi síðustu ár.“

„Á sama tíma, hinum megin við aðskilnaðarmúrinn, ríkir blóðbað þar sem vopnlausir Palestínumenn eru drepnir af ísraelska hernum í friðsamlegum mótmælum. Mannréttindi eru einskis verð þegar kemur að Palestínumönnum.“

Áhrifavaldar innan íslensku tónlistarsenunnar hafa þegar mótmælt og segir Nazima stuðning þeirra ómetanlegan. „Páll Óskar og Daði Freyr og Gagnamagnið hafa komið opinberlega fram með yfirlýsingu um að þeir muni sniðganga keppnina á næsta ári en það skiptir miklu máli að fá stóra tónlistarmenn til að standa með málstaðnum.“

„Evrópa stóð ekki með mannréttindum og kaus að næsta söngvakeppni fari fram í Ísrael.“

„Þótt ég geti ekki fullyrt að hver einasta manneskja í Ísrael sé ómanneskjuleg drápsvél er raunin sú að sárafáir Ísraelsmanna virðast vilja finna friðsamlega lausn á deilunni. Ég sýni öllum virðingu, sama hvaðan þeir koma, en ég fordæmi aðgerðaleysi ísraelska borgara. Ég mun þess vegna sniðganga Eurovision og ég hvet aðra til þess líka.“

- Auglýsing -

Viðtalið í heild má lesa í nýjasta tölublaði Vikunnar.

Texti / Íris Hauksdóttir.
Myndir / Unnur Magna.
Förðun / Björg Alfreðsdóttir.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -