Fimmtudagur 25. apríl, 2024
8.1 C
Reykjavik

Gerði mynd í miðri #metoo byltingu

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Kvikmyndin Lof mér að falla eftir þá Baldvin Z og Birgi Örn Steinarsson verður frumsýnd innan skamms en myndin er byggð á sannsögulegum atburðum.

Baldvin segir gerð myndarinnar hafa verið fróðlega en um leið erfiða, enda umfjöllunarefnið vandmeðfarið. Eðli málsins samkvæmt reyndust hlutverkin bæði líkamlega og andlega krefjandi og viðurkennir Baldvin að mörk þess að vera leikstjóri og sálfræðingur hafi á köflum verið óljós.

„Það komu alveg dagar þar sem ég var eitthvað allt annað en leikstjóri og það komu líka dagar þar sem þetta reyndist stelpunum of erfitt.“

„En maður verður að velja krakka sem maður treystir og ég vissi að þær hefðu bæði þroskann og kunnáttuna. Ég bað þær frá fyrsta degi að segja mér ef ég væri að keyra þær út og þær voru því alltaf meðvitaðar um að þær hefðu stjórnina. Mestu máli skiptir að hafa opið og gott samband svo allir geti sagt það sem þeir vilja segja.“
Myndin er tekin upp í miðri #metoo-sprengju og segir Baldvin byltinguna hafa varpað nýju ljósi á alla hans vinnu. „Ég hef unnið svo margar erfiðar senur og velti því alvarlega fyrir mér hvort ég hefði á einhverjum tímapunkti farið fram úr eða skaðað einhvern.“

„Eftir myndina hringdi ég í alla kven- og karlleikara sem hafa tekið þátt í svona senum og spurði hvort ég hefði ofboðið þeim, en sem betur fer voru viðbrögðin bara jákvæð.“

„Það var engu að síður gott að taka öll þess símtöl og taka út hvernig maður er, því þegar ég gerði Óróa, sem dæmi, var ég ekki meðvitaður um þetta. Ég held að í eðli mínu hafi ég alltaf reynt að gera rétt án þess að ofbjóða neinum en þetta er vandmeðfarið starf.“

„Það er, sem dæmi, sena í Vonarstræti þar sem ég gekk hrikalega langt og leikkonan endaði á sjúkrahúsi. Við vorum öll miður okkar, en ég stoppaði ekki tökuna. Það er það sem ég sé mest eftir núna, en við erum bestu vinir í dag.“

Í kjölfarið hélt Baldvin tvær prufusýningar á myndinni Lof mér að falla, annars vegar fyrir konur sem höfðu staðið framarlega í baráttunni og hins vegar fyrir karla. „Þetta er vandmeðfarið, kvikmynd um gróft ofbeldi gegn konum, skrifuð og leikstýrt af karlmönnum.“

„Við Biggi erum báðir femínistar og teljum okkur meðvitaða um hvað við erum að gera en ég vildi fá tilfinningu fyrir því hvaða punkta ég fengi frá konum og hvaða punkta frá körlum.“

„Viðbrögðin voru rosalega sterk og góð en punktarnir voru svo áhugaverðir því konurnar virtust ná því betur sem við vorum að reyna að segja meðan karlarnir horfðu öðruvísi á myndina.“

Viðtalið í heild má lesa í nýjasta tölublaði Vikunnar.

- Auglýsing -

Texti / Íris Hauksdóttir.
Mynd / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -