Laugardagur 27. apríl, 2024
4.1 C
Reykjavik

„Gerðu það sem þér þykir skemmtilegt“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Það getur verið erfitt að finna út úr því hvernig best sé að stuðla að góðu heilsufari og vellíðan. Það sem er lífsnauðsynlegt í dag getur verið talið banvænt á morgun og engin furða að fólk missi svolítið áttirnar í því hvað skynsamlegast sé að gera. Við brugðum því á það ráð að leita til Hilmu Hólm hjartalæknis og spyrja hvað hún ráðleggur fólki að gera til að öðlast betri líðan og heilsu.

 

„Ég ráðlegg bæði konum og körlum að huga vel að mataræði, streitu, svefni, hreyfingu og samveru með vinum og fjölskyldu. Það mætti skrifa heilan pistil (eða tvo) um mataræði, en til dæmis er ljómandi gott að borða hæfilega mikið af hollum og góðum mat, gjarnan heimagerðum, og í góðum félagsskap, um það bil þrisvar á dag. Finndu hvaða matur fer vel í þig og borðaðu hann. Þessi rómantíska hugmynd kolfellur hinsvegar um sjálfa sig ef svefninn er í ólagi, það þekkja allir. Það er ekki hægt að leggja of mikla áherslu á mikilvægi svefns, bæði varðandi tímalengd og gæði. Ég mæli eindregið með því að setja svefninn í forgang,“ segir hún og heldur áfram.

„Hreyfing, hreyfing, hreyfing, hreyfing,“ segir Hilma.

„Hreyfing, hreyfing, hreyfing, hreyfing. Hreyfing. Hreyfing, hreyfing. Hreyfðu þig alla daga vikunnar og gerðu það sem þér þykir skemmtilegt. Hjólaðu frekar daglega í vinnuna og labbaðu í búðina heldur en að treysta á að bæta upp fyrir hreyfingaleysi vikunnar með tveimur Esjum sunnudagsmorgna (Esjan er samt frábær). Ekki er verra að hreyfa sig úti í náttúrunni, það gefur aukalega andlega upplyftingu ókeypis. Til að bæta um betur er hreyfingin gerð í góðra vina hópi, þannig myndi hjólatúr vina sem endar í góðum mat teljast sem hin besta heilsubót. Við áttum okkur nefnilega sífellt betur á því hvað góð félagsleg tengsl og samvera eru mikilvægur hluti af góðu lífi og vellíðan.“

Hilma segir að það verði að nefna álag og streitu en sem betur fer sé samfélagið mun opnara gagnvart þessu algenga vandamáli en áður. „Þú ert sú eina (eða eini) sem veist hvernig þér líður og því er það þitt að meta hvenær streitan fer yfir mörk þess viðráðanlega. Þá þarf að endurmeta stöðuna, fjarlægja streituvalda eða takast á við þá. Hreyfing, slökun og samvera hjálpa við streitu en einnig getur verið gott að leita sér ráðgjafar“.

 „Ef þú færð einkenni sem valda þér áhyggjum þá skaltu hlusta á líkamann og leita til læknis.“

Hvað varðar sértækari ráð tengd hjarta- og æðakerfinu segir hún að það mikilvægasta sem fólk geti gert sé að fylgja ofangreindum ráðum. „Því til viðbótar er ráðlegt að biðja heimilislækninn þinn að meta og mæla áhættuþætti þína, ekki síst fjölskyldusöguna, til að draga úr líkum á því að þú fáir hjarta- og æðasjúkdóm. Slík skimun getur til dæmis leitt til greiningar á háu kólesteróli eða háum blóðþrýstingi sem hægt er að bregðast við, með fræðslu, ráðleggingum um lífsstílsbreytingar, og stundum lyfjameðferð. Hvenær slíkar mælingar eru gerðar og hversu oft er einstaklingsbundið og best metið í samráði við þinn heimilislækni. Ef þú færð einkenni sem valda þér áhyggjum þá skaltu hlusta á líkamann og leita til læknis.“

Að lokum segir hún að ekki megi gleyma því mikilvægasta, að hafa gaman. „Gerðu sem mest að því sem sem þér finnst skemmtilegt, hvort sem það er að mála, vera með vinum, hjóla, vinna í garðinum, prjóna, kafa, lesa, elda eða fara í leikhús.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -