Fimmtudagur 5. desember, 2024
-0.2 C
Reykjavik

Í hefndarhug gegn fyrrverandi

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Lífsreynslusaga úr Vikunni 

Vinkona mín var um árabil gift virtum manni sem gegndi ábyrgðarmiklu embætti. Heima fyrir var hann svo stjórnsamur að það var nánast fyndið, ef það hefði ekki kostað vinkonu mína áratugi nánast í fangelsi … í gullbúri þó.

Ég hafði ekki hugmynd um hversu kúguð Sonja vinkona var á meðan hún var gift Stefáni, hún áttaði sig kannski ekki almennilega á því sjálf lengst af. Hún var rétt tvítug, feimin og ósjálfstæð þegar þau Stefán fóru að vera saman og hann mótaði hana í það form sem hann langaði að hafa hana í. Hann var sjö árum eldri en hún og þótti einstaklega efnilegur ungur maður. Hafði verið virkur í stúdentapólitíkinni og stefndi á glæsta framtíð. Allir sögðu Sonju að hún hefði dottið í lukkupottinn.

Þau giftu sig með pomp og prakt og dæturnar tvær komu í heiminn á næstu árum. Stefán stjórnaði heimilinu frá upphafi með styrkri hendi og hafði afskipti af hreinlega öllu. Hann vildi ekki að Sonja væri á bíl, frekar ók hann henni þangað sem hún þurfti að fara … en aðeins ef honum fannst hún eiga þangað erindi. Hún fór til kaupmannsins á horninu á daginn en öll stórinnkaup gerðu þau saman.

Fín frú

Stefán fór hratt upp metorðastigann og varð þekktur og virtur innan síns geira. Hann var vel tengdur í gegnum stjórnmálaflokkinn sem hann var meðlimur í og gott ef hann var ekki frímúrari líka, ekki skemmdi það fyrir honum.

Sonja hafði ætlað í háskólanám á sínum tíma en kynntist Stefáni á meðan hún var á síðasta árinu í menntaskóla. Hann talaði hana ofan af því að fara í skóla og sagði meðal annars að það væri nægur tími til þess síðar.

- Auglýsing -

Þau hjónin voru þekkt fyrir stór og fín matarboð en þau voru skipulögð frá grunni af Stefáni. Hvað var í matinn, hvaða vín með, hverjum átti að bjóða og allt í þeim dúr. Þetta voru auðvitað vinir hans og eiginkonur þeirra, fínt fólk sem átti nóg af peningum. Mér, sem einhleypri vinkonu Sonju, var aldrei boðið í rómuðu matarboðin þeirra. Sonja var góður kokkur en í stærstu veislunum sá veisluþjónusta um matinn og þá fylgdi þjónustufólk.

Sonja sætti sig við þetta allt saman, ég varð að minnsta kosti ekki vör við annað. Hún var ein af fínu frúnum í bænum og klædd eftir því. Ég held að Stefán hafi yfirleitt valið fötin á hana.

Hann var mjög gjafmildur við Sonju, gaf henni dýra og glæsilega skartgripi og gráan pels sem mér fannst sjúklega fallegur. Ég komst að því að Sonja hefði viljað pels í öðrum lit og þegar ég spurði hana hvort hún ætlaði ekki að skipta honum sagði hún að hún gæti það ekki. Hún skilaði aldrei gjöfunum hans. Ég man að það hvarflaði að mér nokkrum sinnum í gegnum árin að hún væri kannski fangi í gullbúri en hún sagði samt aldrei neitt sem staðfesti það. Þetta var einhver tilfinning hjá mér sem ég reyndi að hrista af mér og hélt að væri röng.

- Auglýsing -

Sonja lifði sannkölluðu yfirstéttarlífi, var með húshjálp, þurfti ekki að vinna og varði dögunum meðal annars í bóklestur, jógatíma og heimsóknir til vinkvenna í svipaðri stöðu. Þau hjónin ferðuðust mikið og höfðu séð stóran hluta af heiminum. Dvöldu á fínum hótelum og flugu á milli með Saga Class. Þau voru fastagestir í leikhúsum og misstu ekki af viðburðum í samkvæmislífinu. Þau fóru mikið út að borða og umgengust nánast eingöngu fólk sem var á svipuðum stað í lífinu og þau. Sonja var trygg og vildi ekki missa mig, æskuvinkonuna, og við hittumst alltaf reglulega. Mér líkaði vel við Stefán, hann lét mig aldrei finna að ég væri eitthvað ófínni en þau Sonja.

Örlagarík heimsókn

Sonja var að verða fimmtug þegar systir hennar, búsett í Bretlandi, veiktist. Þær systur höfðu alltaf verið nánar en sambandið á milli þeirra allt of lítið, fannst mér á Sonju. Hún fór þó árlega í heimsókn til systur sinnar og var þar í eina til tvær vikur. Stefán gat auðvitað stjórnað þessu þar sem fanginn í gullbúrinu átti enga peninga og þurfti að leita á náðir hans með hverja krónu.

Hann tók vel í að Sonja dveldi hjá systur sinni um tíma, enda var hann að fara í laxveiðitúr með „strákunum“ á sama tíma. Sonja ætlaði reyndar að vera lengur í þetta skiptið vegna veikinda systur sinnar.

Önnur dóttirin var í framhaldsnámi í Bandaríkjunum, hin í háskólanámi hér á Íslandi en komin í sambúð með kærasta sínum.

Stefán keyrði Sonju út á flugvöll eldsnemma að morgni en þennan sama dag ætlaði hann í laxveiðina.

Dvöl Sonju varð lengri en hún hafði ætlað, hálfur mánuður varð að mánuði sem varð að tveimur mánuðum og Stefán varð sífellt argari. Reyndar var mjög mikið að gera hjá honum þetta sumar og haust, svo ekki hafði hann tíma til að fljúga út og hreinlega sækja Sonju, eins og hann var farinn að tala um.

Sonju líkaði einstaklega vel úti og frestaði því í lengstu lög að fara heim. Hún átti löng samtöl við systur sína þar sem augu hennar opnuðust fyrir því að hún lifði ekki því lífi sem hún vildi sjálf. Hún lifði lífi sem Stefán hafði skapað henni. Einn daginn ákvað hún að fara ekki til baka. Hún tilkynnti Stefáni það og að hjónabandi þeirra væri hér með lokið. Stefán tók því ekki vel og hótaði henni öllu illu en Sonja hafði breyst á þessum stutta tíma og lét hann ekki lengur kúga sig, hún sagði honum það líka.

Ljót hefnd

Sonja fékk arf og ákvað að nota hann til að mennta sig ytra. Einnig hafði hún ráðið sér lögmann á Íslandi til að sjá um skilnaðinn og skiptin. Án efa fór hún illa út úr skilnaðinum fjárhagslega en henni var alveg sama. Ekki langaði hana í húsgögn eða borðbúnað sem Stefán hafði hvort eð er valið, hún vissi að dæturnar fengju þetta fyrir rest. Eitthvað af fötunum sínum vildi hún fá en komst að því að Stefán hafði fleygt þeim öllum eða gefið á nytjamarkað. Yngri dóttirin hafði, að hennar beiðni, skellt persónulegum munum hennar í kassa og tekið með sér. Stefán hafði skipt skartgripum Sonju á milli dætranna en þær sáu til þess að hún fékk fyrir rest það sem hún hélt mest upp á af þeim, án vitundar föður þeirra.

Sonja kynntist Breta sem kenndi við skólann þar sem hún stundaði nám sitt og með þeim tókust ástir. Þótt skilnaðurinn væri genginn í gegn á þessum tíma komst Sonja að því að Stefán hefði orðið kolbrjálaður þegar hann frétti það. Eins og hann hefði beðið eftir því að hún kæmi skríðandi til baka til hans þegar London væri orðin leiðigjörn.

Rúmum þremur árum eftir skilnaðinn eignaðist önnur dóttirin barn og Sonja dreif sig af stað til Íslands til að sjá litla undrið í eigin persónu.

Einhvern veginn komst Stefán að því að hún væri að koma og með hvaða flugi. Hann var áhrifamikill á Íslandi og auðvitað var tekið mark á því þegar hann lét vita af því að Sonja ætlaði að smygla inn eiturlyfjum …

Hún vissi ekki hvaðan á sig stóð veðrið þegar henni var kippt afsíðis og leit gerð í farangri hennar. Þegar ekkert fannst tók við niðurlægjandi líkamsleit sem heldur engu skilaði og þá var farið með hana til Reykjavíkur í gegnumlýsingu. Hún gat ekki látið tengdason sinn vita en hann beið árangurslaust eftir henni á flugvellinum.

„Hvorki lögregla né tollur vissi að þau voru aðeins verkfæri lítils karls sem vildi hefna sín á fyrrverandi eiginkonu.“

Auðvitað gat Sonja ekkert sannað og eflaust hefði kæra á hendur honum aldrei komist langt. Þetta var andstyggileg reynsla og ekki möguleiki að þetta hafi verið tilviljanakennt úrtak hjá tollinum. Tollverðirnir voru svo vissir í sinni sök þegar þeir leituðu að þeir ætluðu ekki að trúa eigin augum þegar ekkert fannst. Auðvitað verður að fara eftir ábendingum, ekki síst frá fólki eins og Stefáni. Hvorki lögregla né tollur vissi að þau voru aðeins verkfæri lítils karls sem vildi hefna sín á fyrrverandi eiginkonu. Mér hefur verið sagt að þetta sé ekkert einsdæmi.

Sonja gleymdi öllum óþægindunum þegar hún hitti barnabarnið sitt og heimsóknin var yndisleg.

Hún býr enn ytra en kemur nokkuð oft til landsins, enda hafa barnabörnin, nú fjögur, mikið aðdráttarafl. Hún býr með háskólakennaranum sínum og þau virðast yfir sig ánægð hvort með annað. Sonja talar ekki mikið um Stefán og vill meina að hann sé alls ekki alslæmur, hann hafi bara viljað móta hana í form sem passaði henni alls ekki. Nú gæti hún loks breitt út vængi sína sem hún hafði þráð svo lengi að gera en ekki fengið.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -