Kvikmyndir með kraftakonum í karlaheimi.
Á flótta
Salt fjallar um leyniþjónustukonuna Evelyn Salt sem sór þess eið að þjóna föðurlandi sínu í einu og öllu. Það reynir hins vegar á tryggð hennar þegar svikari ásakar hana um að vera rússneskur njósnari. Salt leggst á flótta og notar áralanga þjálfun sína og reynslu til að komast hjá því að verða handsömuð en jafnframt reyna að sanna sakleysi sitt.
Prinsessan bjargar heiminum
Wonder Woman var fyrst kynnt til sögunnar í Batman vs. Superman í fyrra og hefur nú fengið sína eigin mynd sem gefur innsýn í sögu persónunnar. Áður en hún varð Wonder Woman var Díana prinsessa Amazónanna og mikill stríðsmaður. Bandarískum herflugmanni skolar upp á strendur Themyscira og hann segir Díönu frá hörmungarástandinu sem ríkir í heiminum en sagan gerist á tímum fyrstu heimsstyrjaldarinnar. Díana ákveður að fara frá paradísareyju sinni og halda til Lundúna til að binda endi á stríðið.
Fyrst kvenna
Hermenn Bandaríkjahers eru oft kallaðir G.I. Joes en myndin G.I. Jane fjallar um Jordan O´Neill liðþjálfa sem reynir að verða fyrsta konan í sjóhernum. Í viðræðum við tilvonandi yfirmann í sjóhersins hvetur stjórnin, sem skipuð er af öldungardeildarþingmönnum, hann til að jafna hlutfall kynjanna í sjóhernum. Hann leggur til að þau velji kvenþáttakanda og ef hún kemst í gegnum inntökuprófin fyrir úrvalsdeild sjóhersins muni sjóherinn verða að fullu opinn konum. O´Neill fær þetta verkefni í hendurnar og enginn býst við að henni takist það, enda gefast 60% allra karlmanna sem reyna við þessi próf upp. O´Neill ætlar hins vegar að sanna að hún og konur almennt geti þetta. En ýmislegt fleira liggur að baki.
Óhrædd í hringnum
Million Dollar Baby fjallar um hina efnilegu hnefaleikakonu Maggie Fitzgerald. Hún vill æfa með besta þjálfaranum, Frankie Dunn en hann gefur lítið fyrir það í fyrstu og segist engan áhuga hafa á að þjálfa konu. Dunn lifir einmanalegu lífi því dóttir hans talar ekki við hann og hann á fáa vini. Maggie er hins vegar hörkutól sem lætur ekki neita sér. Dunn slær til að lokum og Maggie sannar ekki einungis að hún er boxarinn sem hann hefur alltaf dreymt um að þjálfa, heldur einnig vinur sem fyllir upp í tómið í lífi hans.
Texti / Hildur Friðriksdóttir