Miðvikudagur 6. nóvember, 2024
5.1 C
Reykjavik

Leyndar perlur á Suðurlandi

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Þegar farið er í frí um landið hættir okkur til að stoppa bara á þekktustu stöðunum því við vitum ekki af öllu hinu sem Ísland hefur upp á að bjóða.

Suðurlandið er einn vinsælasti staður ferðamanna sem koma hingað til lands og geymir ótrúlegar náttúruperlur. Hér eru nokkrir staðir sem minna hefur farið fyrir og við mælum sannarlega með að þið skoðið.

Þótt núna sé kannski ekki eins sumarlegt um að lítast og á þessari ljósmynd þá er óhætt að segja að Svartifoss sé einn fallegasti foss landsins.

Fjaðrárgljúfur
Fjaðrárgljúfur er virkilega falleg náttúrusmíð rétt við þjóðveg númer eitt, skammt vestan við Kirkjubæjarklaustur. Ekið er að gljúfrinu um Lakaveg og þaðan gengið upp með gilinu. Einnig er hægt að ganga upp eftir gljúfrinu sjálfu en það gæti þurft að vaða töluvert. Mikilfenglegar móbergsmyndir prýða gilið og þetta getur verið skemmtilegt stopp fyrir alla fjölskylduna.

Gljúfrabúi
Fossinn Gljúfrabúi er aðeins nokkur hundruð metrum fyrir innan Seljalandsfoss og fellur bak við hamravegg úr móbergi, kallaður Franskanef, sem lokar fossinn af. Hægt er að komast inn í hellinn um op að framanverðu þar sem áin Gljúfurá rennur út og það er töfrum líkast að sjá fossinn steypast niður þessa 40 metra. Einng má klifra upp á Franskanef og sá fossinn að ofanverðu en munið að fara að öllu með gát.

Svartifoss
Svartifoss er einn fallegasti foss á landinu þar sem hann fellur niður ægifagurt stuðlaberg í Skaftafelli. Frá Skaftafellssofu er hægt að ganga að Svartafossi en leiðin er tæpir tveir kílómetrar og tekur um 35-45 mínútur. Gengið er meðfram tjaldsvæðinu og beygt upp á hæð sem heitir Austurbrekkur. Farið er yfir Eystragil á göngubrú og á leiðinni sjást Hundafoss og Magnúsarfoss. Þegar komið er upp hæðina er gott útsýni að Svartafossi og svo er gengið niður í gilið til að komast alveg að fossinum.

Þakgil
Þakgil er falinn gimsteinn á Höfðabrekkuafrétti staðsett milli Mýrdalsjökuls og Mýrdalssands um 15 kílómetra frá þjóðveginum en beygt er út af þjóðvegi númer eitt við Höfðabrekku sem er fimm kílómetrum fyrir austan Vík. Þar er gott tjaldsvæði, veðursæld og stórbrotin náttúra. Ef þú ert á leiðinni í útilegu þá er þetta staður sem er virkilega þess virði að skoða. Einnig er hægt að leigja smáhýsi á staðnum. Margar fallegar gönguleiðir við allra hæfi eru á svæðinu.

Ingólfshöfði
Fjölskyldufyrirtækið Öræfaferðir á Hofsnesi sem staðsett er rétt hjá Fagurhólsmýri við rætur Öræfajökuls býður upp á spennandi lunda- og söguferðir út í Ingólfshöfða á heyvögnum sem eru hengdir aftan í dráttarvélar (sjá aðalmynd). Ferðin tekur alls tvo og hálfan klukkutíma og ferðin í vagninum um það bil 25 mínútur hvora leið. Það kostar 7.500 kr. fyrir fullorðna, 2.500 kr. fyrir börn á aldrinum 8-16 ára en börn frá 4-7 ára frá frítt. Gengið er um höfðann með leiðsögumanni og það eru 99% líkur á því að sjá lunda á svæðinu yfir sumartímann. Skemmtileg ævintýraferð fyrir fjölskylduna í sumarfríinu.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -