Miðvikudagur 24. apríl, 2024
7.1 C
Reykjavik

Lögðu Pétursborg að fótum sér

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Því miður urðu þau leiðu mistök við umbrot á 38.tbl. Vikunnar að kafli úr viðtali við Gerði Bolladóttur datt út. Hér birtist því viðtalið í heild.

Gerður Bolladóttir, sópransöngkona og tónskáld, er nýkomin heim úr ferð til Rússlands þar sem hún kom fram á tónleikum í kastala í Pétursborg ásamt Alexöndru Chernyshovu, sópransöngkonu og tónskáldi. Gerður segir ferðina og tónleikana hafa verið alvörudívuupplifun og þær stöllur stefna að því að halda þessa tónleika fyrir íslenska áheyrendur fyrr en síðar.

 

En hver er bakgrunnur Gerðar og hvernig kom það til að hún tróð upp í Pétursborg?

„Jú, jú, það stemmir, ég er ein af Bollastellinu,“ svarar Gerður hlæjandi þegar hún er spurð hvort hún sé ekki dóttir Bolla Gústavssonar, sóknarprests í Laufási í Þingeyjarsýslu og seinna vígslubiskups, en þau systkinin eru sex talsins og hafa mörg hver verið áberandi í þjóðfélaginu. „Ég átti yndislega barnæsku,“ heldur hún áfram. „Það var dásamlegt að alast upp á svona fallegum stað og hafa mömmu og pabba alltaf heima. Það voru forréttindi.“

Heillaðist af fiðluleik Guðnýjar

En hvernig stóð á því að Gerður lagði tónlistina fyrir sig, kom aldrei til greina að feta í fótspor föður síns og fara í guðfræði eins og sum systkini hennar hafa gert?

- Auglýsing -

„Nei, það kom aldrei til greina,“ segir hún ákveðin. „Tónlistarferillinn byrjaði strax þegar ég var barn. Þá fór ég á tónleika til Grenivíkur með mömmu og pabba og þar var Guðný Guðmundsdóttir fiðluleikari í aðalhlutverki. Ég varð svo rosalega heilluð af hennar leik að ég tilkynnti það þegar við komum heim að ég vildi læra á fiðlu. Þá voru góð ráð dýr þar sem ekki var neinn fiðlukennari í sveitinni en það var samt ákveðið að ég fengi að læra á fiðlu, mamma og pabbi reyndu alltaf að koma til móts við það sem okkur systkinin langaði til að gera þótt við værum sex. Þannig að ég byrjaði að læra á fiðlu á Akureyri, fór þangað einu sinni í viku með þeim sem átti erindi þangað á hverjum tíma.

Þegar ég varð dálítið eldri kom bresk söngkona til landsins, Antonia Ogonovsky að nafni, og byrjaði að kenna við Tónlistarskólann á Akureyri. Þá var fólk farið að hafa það á orði að ég hefði ágæta rödd og ég var alltaf sísyngjandi. Það var oft gert grín að því þar sem ég var svo upptekin af því að syngja að ef ég átti til dæmis að þeyta rjóma varð hann yfirleitt að smjöri því ég gaulaði út í eitt og var ekki með hugann við það sem ég var að gera. Þegar ég var sautján ára fór ég svo í söngtíma hjá Antoniu og féll alveg fyrir söngnum þannig að ég hætti bara að læra á fiðluna og sneri mér að söngnum og hef verið að syngja síðan

„Það var oft gert grín að því þar sem ég var svo upptekin af því að syngja að ef ég átti til dæmis að þeyta rjóma varð hann yfirleitt að smjöri því ég gaulaði út í eitt og var ekki með hugann við það sem ég var að gera.“

Svo fór ég náttúrlega suður og fór í Söngskólann í Reykjavík og síðan í Tónlistarskólann í Reykjavík og útskrifaðist með burtfararpróf árið 1995. Eftir það fór ég til Bandaríkjanna og lærði við  Indiana University, School of Music sem þó nokkuð margir íslenskir söngvarar hafa lært við, meðal annarra Bergþór Pálsson og Sólrún Bragadóttir. Þetta þykir einn besti og virtasti tónlistarháskóli í Bandaríkjunum þannig að ég var voða glöð að fá að læra þar.“

- Auglýsing -

Fékk grænt ljós á lögin sín

Varstu þá bara í söngnámi eða lærðirðu tónsmíðar þar líka? „Nei, það er nefnilega málið, ég hef ekkert lært tónsmíðar,“ segir Gerður.

„Fyrir nokkrum árum síðan kom andinn bara yfir mig. Ég hafði náttúrlega alltaf haft mikla ást á ljóðum, kunni skólaljóðin utan að þegar ég var barn og þá byrjaði ég svolítið að semja lög við ljóðin. Svo gerðist það þegar ég fór að kenna við Tónlistarskóla hér í Reykjavík og var að kenna ungum nemendum á hljóðfæri og söng að ég fór aðeins að prófa að semja lög fyrir þau. Árið 2015 hefði pabbi orðið áttræður og mig langaði til að halda minningartónleika um hann. Og flytja á þeim tónleikum stóran ljóðaflokk eftir hann sem Anna Þorvalds hafði samið tónlist við nokkrum árum áður. Þá hafði ég verið að starfa mikið með hörpuleikara frá Belgíu og hún vissi af því að ég hafði verið að semja lög fyrir krakkana og spurði hvers vegna ég semdi ekki bara lag við ljóð eftir föður minn.

Mér fannst það frekar djörf tillaga en fór samt heim og valdi fallegt ljóð eftir pabba, Lífið sækir fram, ég prófaði að semja lag við það og þá bara kemur þetta fallega lag upp í kollinn á mér og þá sá ég í fyrsta skipti að ég gat þetta. Þannig að ég fór að semja meira af lögum við ljóð og fann að mér fannst það bara mjög skemmtilegt. Ég samdi aðallega lög við ljóð eftir frændfólk mitt frá Sandi í Aðaldal en líka við eigin ljóð sem ég hafði verið að semja í gegnum tíðina. Ég kunni svo sem ekkert til verka þannig að ég lét Báru Grímsdóttur fara yfir þessi lög og hún gaf mér grænt ljós á það að ég gæti alveg flutt þau á tónleikum. Það varð úr að ég hélt tónleika í Listasafni Íslands 2017 þar sem ég flutti lög eftir sjálfa mig og fleiri sjálflærð tónskáld.“

Aðdáendur báðu um eiginhandaráritanir

Þessir tónleikar urðu til þess að Gerður bætti enn einni fjöður í hattinn og fór að syngja í óperu eftir Alexöndru Chernyshovu.

„Alexandra mætti á þessa tónleika í Listasafninu og hún varð svo hrifin þegar hún hlustaði á mig flytja þessi lög að hún bauð mér hlutverk í óperunni sinni, Ævintýrinu um norðurljósin, sem var sýnd í Hörpu í fyrra. Þar lék ég babúsku, svona rússneska ömmu, og það gekk bara prýðilega vel, þótt ég segi sjálf frá. Alexandra varð alltaf hrifnari og hrifnari af vinkonu sinni og bauð mér í framhaldinu með sér til Rússlands núna í sumar. Ég hélt nú bara að við værum að syngja eitthvað rússneskt og íslenskt eftir þekkta höfunda, en þá tilkynnti Alexandra mér að hún vildi að við kæmum fram sem tvær dívur sem flytja eigin verk. Við gerðum það þann 21. ágúst á tónleikum í Kamennoostrovskiy sem er kastali í Pétursborg. Tónleikarnir hétu „Russian Souvenir: Introducing Iceland“ og ég get alveg sagt þér það að mér hefur aldrei verið sýndur eins mikill heiður. Ég hugsaði bara: vá! Það eru fjögur ár síðan ég fór að fikta við að skrifa tónlist og hér var ég að flytja mín eigin lög í kastala í Rússlandi. Þetta sýnir glögglega að ævintýrin geta gerst.“

„Tónlistarferillinn byrjaði strax þegar ég var barn.“

Með dívunum í för var Kjartan Valdimarsson píanóleikari og með þeim á tónleikunum söng rússneski bass-baritón söngvarinn Sergei Telenkov, sem söng sitt hlutverk á íslensku. Gerður segir viðtökurnar hafa verið stórkostlegar.

„Rússar hlusta auðvitað mjög mikið á sín stórkostlegu tónskáld en þarna komu bara tvær konur, ljóshærð og dökkhærð, og sungu sín eigin verk sem þótti saga til næsta bæjar.“

„Það var fullur salur og fólk varð alveg rosalega hrifið,“ segir hún. „Rússar hlusta auðvitað mjög mikið á sín stórkostlegu tónskáld en þarna komu bara tvær konur, ljóshærð og dökkhærð, og sungu sín eigin verk sem þótti saga til næsta bæjar. Þetta varð heljarinnar ævintýri, við komum líka fram á elstu útvarpsstöð í Pétursborg þannig að lögin okkar og verkin hljómuðu líka í útvarpinu. Þetta gekk allt saman ægilega vel og var stórkostleg upplifun. Það hópuðust að okkur aðdáendur sem vildu fá eiginhandaráritanir eftir tónleikana, þetta var alveg alvörudívuupplifun. Ég er enn þá að ná mér niður eftir þessa ferð.“

Skapa sér verkefnin sjálfar

Verður eitthvert framhald á þessu ævintýri? Ætlið þið ekki að leyfa íslenskum áheyrendum að heyra þetta prógramm?

„Við erum eiginlega enn þá í sæluvímu eftir þetta, þannig að við erum ekki búnar að skipuleggja það,“ segir Gerður og hlær. „Við Alexandra eigum það sameiginlegt að hafa verið rosalega duglegar við það að koma okkur áfram sjálfar. Við sitjum ekkert og bíðum eftir verkefnum heldur sköpum þau sjálfar. Þegar við hittumst þá gerðist eitthvað og við fundum að það er margt líkt með okkur, þótt við séum ekki líkar í útliti; við hugsum mjög líkt og ég tel það hafa verið mikla gæfu fyrir mig að hitta þessa konu. Við ætlum auðvitað að flytja þessa tónleika eins og þeir voru úti í Rússlandi fyrir Íslendinga en við erum ekki búnar að ákveða hvenær og hvar. En það er mikið tilhlökkunarefni og við vitum líka að við eigum eftir að starfa mikið saman áfram. Við erum þegar farnar að hugsa um framhald á þessu öllu saman en hvað það verður skýrist betur síðar.“

Gerður er tónlistarkennari við Tónskóla Eddu Borg og auk þess tónlistarstjóri fyrir leikskólann Vinaborg, hvernig kom það til?

„Ég er líka lærður leikskólakennari og vann mikið við það að kenna tónlist inni á leikskólum fyrst eftir að ég kom heim frá Bandaríkjunum,“ útskýrir Gerður.

„Ég ákvað að fara aðeins í það aftur vegna þess að mér finnst svo gefandi að kenna ungum börnum og það veitir mér mikinn innblástur. Það heldur mér ansi ungri og ferskri.“

Aldrei að segja aldrei

Eins og fram hefur komið hefur Gerður lagt áherslu á ljóðasöng undanfarin ár, var ljóðasöngur það sem hún stefndi að í sínu námi?

„Nei,“ segir hún hlæjandi. „Ég var í námi hjá rosalegum dívum sem vildu auðvitað að ég yrði óperusöngkona, sem ég varð, en ég fann það þegar ég var að verða búin með námið að ljóðasöngurinn kallaði alltaf á mig. Ég hef svo mikla ást á ljóðum og finnst þau svo yndisleg og oft fannst mér óperutextinn ekki merkilegur. Hann er ansi oft ekki merkilegar bókmenntir. Ég fann það samt þegar ég fór að syngja á sviðinu í Hörpu fyrir ári síðan að ég hef mjög gaman af því að leika, en það er líka hægt að túlka ljóðin með leikrænum hætti.“

Þú ert samt ekki farin að semja óperu eftir þessa reynslu?

„Ég er ekki farin að semja óperu, nei, en maður á aldrei að segja aldrei,“ segir Gerður og glottir.

Myndir / Unnur Magna

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -