Föstudagur 19. apríl, 2024
0.1 C
Reykjavik

Með veiðibakteríuna í blóðinu 

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

María Anna Clausen hefur haft ástríðu fyrir veiði nánast síðan hún man eftir sér og þegar hún kynntist ástinni í lífi sínu, Ólafi Vigfússyni, smitaði hún hann svo rækilega af veiðibakteríunni að síðan má segja að allt þeirra líf hafi snúist um veiði. Auk þess að reka Veiðihornið í Síðumúla, þar sem þau selja allt sem til veiðinnar þarf, nota þau hverja frístund til að veiða og hafa undanfarin ár farið í veiðiferðir til sex heimsálfa, þar sem þau hafa meðal annars lært að verjast árásum hákarla og sjóræningja. 

María ólst upp í Kópavoginum og vandist því frá barnsaldri að fara út á land í veiðiferðir um helgar. „Foreldrar mínir voru mikið útivistarfólk og ég er alin upp við að veiða,“ útskýrir hún. „Mamma og pabbi fóru um hverja einustu helgi allt sumarið út á land og yfirleitt var tjaldað hjá einhverju vatni og veitt. Þannig að ég fékk strax brennandi ástríðu fyrir veiði, hún hefur bara ágerst með aldrinum og þetta er orðið mjög slæmt í dag,“ bætir hún við og skellihlær.

María fór í Verzlunarskólann og segir það alltaf hafa legið fyrir að hún ætlaði sér að starfa við einhvers konar viðskipti, en eftir stúdentspróf tók hún þó eilítið aðra stefnu og fór í nám í fiskeldi á Hólum í Hjaltadal, hvernig stóð á því? „Það var bara áhugi á veiði og fiskum,“ segir hún eins og það hljóti að liggja í augum uppi og spurningin sé því óþörf.

Eiginmaður Maríu, Ólafur Vigfússon, var líka í Verzlunarskólanum en þau kynntust þó ekki þar heldur á hinn klassíska íslenska máta; á balli á Broadway. Margir halda að áhuginn á veiðinni hafi leitt þau saman, en sú var þó ekki raunin. „Eftir að við hittumst á Broadway og byrjuðum að vera saman fór hann með okkur pabba og mömmu í veiðitúr og fékk bakteríuna eiginlega strax,“ útskýrir María. „Síðan höfum við farið í veiði eins oft og við getum, tókum strákana okkar þrjá með þegar þeir voru litlir en tókst ekki að gera þá að eins áköfum veiðimönnum og við erum, ég held við höfum alveg yfirkeyrt þá sem börn, þeim fannst gaman að veiða en það tóku ýmis önnur áhugamál við hjá þeim á unglingsárunum, en þeir eru farnir að koma stundum með okkur í veiði aftur og ég á nú von á því að þeir fái veiðiáhugann aftur með tímanum.“

Kúnnarnir héldu að einhver hefði gleymt barni 

Árið 1998 keyptu María og Ólafur Veiðimanninn í Hafnarstræti og síðan má eiginlega segja að allt þeirra líf, bæði í vinnunni og einkalífinu, hafi snúist um eitthvað sem tengist veiðiskapnum. Þau hafa alltaf unnið saman í búðinni og farið saman í veiðitúra, er ekkert erfitt að vera svona saman allan sólarhringinn, alla daga? „Nei, þetta er bara ógeðslega gaman og gott og notalegt,“ segir María með sannfæringarkrafti. „Yngsti sonur okkar var eins árs þegar við keyptum Veiðimanninn og við höfðum hann með okkur í vinnuna líka til að byrja með. Við létum hann sofa fyrir utan búðina í vagninum sínum og það kom oft fyrir að fólk opnaði búðardyrnar og kíkti inn, sá að þar var enginn viðskiptavinur og sagði okkur að það hlyti einhver að hafa gleymt barni fyrir utan. Ég held ég myndi nú ekki þora að láta smábarn sofa í vagni úti á götu í miðbænum í dag, en á þeim tíma var þetta bara sjálfsagt mál.“

 „Við létum hann sofa fyrir utan búðina í vagninum sínum og það kom oft fyrir að fólk opnaði búðardyrnar og kíkti inn, sá að þar var enginn viðskiptavinur og sagði okkur að það hlyti einhver að hafa gleymt barni fyrir utan.“

- Auglýsing -

Reksturinn á Veiðimanninum blómstraði og árið 2001 færðu María og Ólafur út kvíarnar og opnuðu Veiðihornið í Síðumúla. Þau ráku báðar búðirnar í sjö ár en tóku þá ákvörðun að loka í miðbænum árið 2008, rétt fyrir hrun. „Við vorum eiginlega bara að skella í lás í Hafnarstrætinu þegar kreppan skall á,“ segir María. „Hún var þó ekki ástæðan fyrir í því að við ákváðum að loka, fólk var farið að flýja úr miðbænum á þessum tíma og fyrirtækin líka. Skortur á bílastæðum var sérstaklega bagalegur fyrir svona búð eins og Veiðimanninn, þú ferð ekkert að bera fullt af veiðigræjum langar leiðir, svo við fundum mjög mikið fyrir því hvað fólk var þakklátt fyrir að geta lagt fyrir utan búðina í Síðumúlanum.“

Christmas Island í algjöru uppáhaldi 

Fyrir nokkrum árum byrjuðu María og Ólafur að fara í veiðiferðir út um allan heim, hafa þegar hér er komið sögu stundað veiði í sex heimsálfum og eru, að hennar sögn, bara rétt að byrja, hvernig stóð á því að þau fóru að leita út fyrir landsteinana eftir veiði? „Það hófst nú eiginlega fyrir hálfgerða tilviljun fyrir um það bil tíu árum síðan,“ útskýrir María og hlær. „Þá fórum við að halda nokkurs konar vorhátíð og þangað komu meðal annars fulltrúar fyrirtækja sem við kaupum vörur af. Einn af þeim var stangahönnuður frá Sage og þegar ég var að skutla honum upp á hótel einn daginn sagði hann mér að hann og konan hans væru að fara með hóp af veiðimönnum til Bahamas, það væru tvær stangir lausar og hvort við vildum ekki bara skella okkur með. Ég sagði bara strax já og bað hann að bóka okkur, var ekkert að spyrja eiginmanninn álits, en hann var alveg til í að prófa þetta þegar ég sagði honum frá því. Þannig að við fórum þangað og eftir það varð ekkert aftur snúið, þetta var svo hrikalega skemmtilegt.“

„Svo vorum við úti á ánni að veiða og það voru fílar út um allt, krókódílar í vatninu og flóðhestar og alls kyns dýr. Alveg magnað.“

- Auglýsing -

Síðan hafa þau hjónin farið í veiðiferðir tvisvar til þrisvar á ári, út um allar jarðir, en hvað stangveiðina varðar segir María að uppáhaldsstaðurinn sé sennilega Christmas Island. „Við höfum flogið þangað í gegnum Havaí og yfirleitt stoppað á Havaí í nokkra daga og verið á Waikiki-ströndinni,“ segir hún. „Þaðan er þriggja tíma flug til Christmas Island sem er eins og að koma í annan heim. Þetta er lítil eyja með um það bil þúsund íbúum og allt frekar frumstætt. Veiðin er þannig að maður fer út með bát klukkan sex á morgnana, tekur með sér samloku í nesti og er úti í sjó allan daginn. Sjórinn er ylvolgur og þarna eru hvít sandrif og maður horfir ofan í tæran sjóinn og kastar á þá fiska sem maður sér. Það er alveg himnesk upplifun.“

Hvernig funduð þið þetta draumaland? „Við fórum tvisvar með þessum vinahjónum okkar sem ég nefndi til Bahamas og elskuðum það, en svo langaði okkur að gera eitthvað meira og fórum að leita að ferðaskrifstofum sem bjóða upp á veiðiferðir,“ útskýrir María. „Svo gúglar maður og leitar að stöðum sem manni finnst spennandi áður en maður bókar. Auk þess að fara til Christmas Island höfum við meðal annars farið nokkrum sinnum til Seychelles og veitt þar á nokkrum litlum eyjum sem flogið er til frá Mahe, aðaleyjunni, í vélum sem taka um tíu farþega.“

Veitt innan um fíla, krókódíla og flóðhesta 

Þannig að þetta er hálfgerð ævintýramennska í leiðinni, ekki bara veiði? „Já, það má segja það,“ segir María. „En fyrst og fremst snýst þetta auðvitað um að vera úti í náttúrunni í öðrum löndum sem er alveg yndislegt að upplifa. Engin mannmergð þú ert bara að vaða eða ert á litlum bát í frumskógum Brasilíu og mér finnst alveg óskaplega gaman að kynnast því hvað heimurinn er margþættur. Síðasta ferðin okkar, núna í vetur var til Zambíu þar sem við sváfum í tjöldum á náttúruverndarsvæði og fengum talstöð til að kalla á starfsfólkið að sækja okkur þegar við værum tilbúin því við máttum alls ekki ganga neitt ein ef það væru einhver hættuleg dýr á leiðinni. Svo vorum við úti á ánni að veiða og það voru fílar út um allt, krókódílar í vatninu og flóðhestar og alls kyns dýr. Alveg magnað.“

Umhverfið sem þau hjónin veiða í virðist geta verið dálítið ógnvekjandi, hafa þau einhvern tímann lent í hættulegum aðstæðum í þessum ferðum? „Ég viðurkenni að mér hefur stundum ekki alveg staðið á sama,“ segir María og brosir. „Sérstaklega ef það eru hákarlar að synda nálægt manni. Maður veður mikið í sjónum og á Seychelles lenti ég í því að þurfa að elta fiskitorfu með leiðsögumanni, torfan synti alltaf lengra og lengra út og ég elti. Svo sá leiðsögumaðurinn hákarl og sagði við mig að ég verði að snúa stönginni öfugt og lemja hann í hausinn með hinum endanum. Ég hlýddi og var alveg tilbúin en það kom ekki til þess því hákarlinn synti rólega burtu. Ég varð samt svolítið smeyk. Verð að viðurkenna það.

 „Til dæmis hvernig ætti að bregðast við ef stór hákarl nálgaðist okkur þar sem við værum að vaða í sjónum. En þá átti ég sem sagt að vera pollróleg, standa kyrr og berja stangarhandfanginu í trjónu hákarlsins.“

Við vorum auðvitað búin að fá fyrirlestra um það hvernig ætti að bregðast við ef hætta steðjaði að. Þegar við veiddum við Providance-kóralrifið við Seychelles, dvöldum við um borð í Maya DuGong sem er gamalt rannsóknarskip sem hefur verið breytt í vistarverur fyrir veiðimenn á svæðinu. Þegar allir veiðimenn vikunnar voru komnir um borð var fyrirlestur í matsalnum þar sem farið var yfir ýmsar hættur sem gætu orðið á vegi okkar. Til dæmis hvernig ætti að bregðast við ef stór hákarl nálgaðist okkur þar sem við værum að vaða í sjónum. En þá átti ég sem sagt að vera pollróleg, standa kyrr og berja stangarhandfanginu í trjónu hákarlsins. Svo var bent á bjöllu sem var þarna og okkur sagt að ef hún hringdi þá væru sjóræningjar að nálgast og þá ættum við að fara niður í stefnið og bíða þar þangað til hættan væri liðin hjá. Það kemur sem betur fer sjaldan fyrir núorðið að sjóræningjar ráðist til atlögu en fyrir nokkrum árum þurfti að loka veiðisvæðinu um tíma út af sjóræningjum frá Sómalíu sem herjuðu á veiðiskipin. En maður er samt ekkert hræddur, starfsfólkið veit hvað það er að gera og fer mjög varlega og maður treystir því að það muni ekkert gerast. Og ef svo færi þá er öryggi í því að vita að það er þarna herbergi í stefninu þar sem er matur og fjarskiptabúnaður og hægt að leita skjóls.“

Skotveiði í Namibíu og á Austurlandi 

Spurð hvort einhver af þeim framandi stöðum sem þau hjónin hafa heimsótt til að veiða standi upp úr nefnir María Christmas Island aftur, en hún á líka fleiri uppáhaldsstaði. „Það er alltaf frábært að koma til Christmas Island,“ segir hún. „Það er líka svo sérstök tilfinning að vera þar því eyjan gæti sokkið nánast hvenær sem er, hlýnun jarðar er að drekkja henni og þar eru allir viðbúnir því að eyjan muni einhvern tímann sökkva. Annars finnst mér mjög erfitt að nefna einhverja uppáhaldsstaði, þeir eru svo margir góðir. Við höfum verið mikið í Taílandi, þar sem við erum með fyrirtæki sem hnýtir fyrir okkur flugur, þannig að við höfum ferðast töluvert um þar og veitt. Namibía er líka alltaf yndisleg en þar höfum við verið meira í skotveiði en stangveiði.“

 „Það er líka svo sérstök tilfinning að vera þar því eyjan gæti sokkið nánast hvenær sem er, hlýnun jarðar er að drekkja henni og þar eru allir viðbúnir því að eyjan muni einhvern tímann sökkva.“

Þannig að þið skjótið líka, veiðið ekki bara á stöng? „Já, já, við skjótum líka,“ segir María. „Fórum til dæmis saman á hreindýr fyrir austan síðasta sumar og það var alveg yndislegt. Við reiknuðum ekkert með því að veiða fyrsta daginn því það hafði verið svo mikil þoka en svo létti henni og við sáum hreindýr og komumst að þeim og gátum veitt. Það var alveg draumur.“

Það er ekki hægt að láta hjá líða að spyrja Maríu hvað það sé eiginlega sem er svona æðislegt við að veiða og það stendur ekki á svörum hjá henni. „Það er náttúran og upplifunin,“ segir hún ákveðin. „Og svo er þetta líka svo spennandi. Svo upplifir maður að fara á nýjar slóðir og kynnast nýju fólki og nýjum aðstæðum sem er algjörlega punturinn yfir i-ið.“

Fengu aldrei frið í fríum innanlands 

Hafið þið þá dregið úr því að veiða innanlands eftir að þið uppgötvuðuð þessar nýju veiðislóðir um allan heim? „Já, við ákváðum það fyrir nokkrum árum, þegar var orðið svo mikið að gera í vinnunni að við vorum alltaf kölluð úr veiðinni til að fara í vinnuna ef einhver veiktist eða eitthvað kom upp á, að þetta væri ekki alveg að gera sig. Við eigum fastan einn túr í Vatnsdal í ágúst á hverju ári og förum þangað en förum út fyrir landsteinana á veturna, þegar rólegra er í búðinni, og tökum okkur okkar veiðitíma erlendis. Þá förum við á einhverja staði þar sem er hlýtt og notalegt að vera. Við fórum til Kosta Ríka í vetur og höfum farið til Venesúela og notum bara tækifærið til að ferðast á veturna og veiða. Sinnum svo kúnnunum okkar þeim mun betur yfir sumarið.“

Það er augljóst að veiðin, ferðalögin og verslunin eiga hug Maríu allan, á hún einhver önnur áhugamál sem hún sinnir? „Lífið snýst náttúrlega dálítið um veiði,“ segir hún sposk. „Þegar við vorum að byrja gátum við auðvitað ekkert tekið okkur frí, það var bara vinna út í eitt og er það reyndar enn. En við ferðumst töluvert út af vinnunni. Höfum til dæmis farið nokkrum sinnum til Kína og tekið þá aukadaga í frí, farið á Kínamúrinn og skoðað marga markverða staði í bland við vinnuna.“

Í auglýsingum frá Veiðihorninu kemur fram að þar er opið alla daga vikunnar, eru þau hjónin að vinna á hverjum einasta degi? „Já, nema það er frí 17. júní,“ segir María og skellir upp úr. „Við höfum reyndar lokað á sunnudögum frá október fram í mars, að undanskildum desember, þannig að við fáum frí einstaka sinnum.“

Vildu bíða eftir afgreiðslu frá karlinum  

Komið hefur fram í fréttum að með það fyrir augum að ferðast innanlands í sumar kaupi landinn veiðivörur sem aldrei fyrr og María segir það engar ýkjur. „Já, það hefur verið alveg mjög mikið að gera,“ staðfestir hún. „Mér finnst sérstaklega gaman hvað það kemur margt nýtt fólk sem er að fara að veiða í fyrsta sinn, sérstaklega ung pör sem eru að kaupa sér vöðlur og stangir og Veiðikortið og ætla bara að vera að veiða í sumar. Það hefur líka aukist mjög mikið að konur fari saman í hóp að veiða, ég finn aukningu á hverju einasta ári á áhuga kvenna. Þegar við byrjuðum með búðina fengu konurnar venjulega gömlu vöðlurnar þegar karlinn keypti sér nýjar en það hefur algjörlega breyst. Ég man þegar ég var að byrja að afgreiða í búðinni með manninum mínum þá sögðu karlarnir mjög oft að þeir ætluðu að bíða eftir því að hann yrði laus til að fá afgreiðslu, það þótti ekki líklegt að kona hefði neitt vit á þessu á þeim tíma. Enda voru konur svo sem ekkert mikið í veiðinni þá, ég held við höfum verið um það bil fimm sem vorum aktífar þá. En það hefur gjörbreyst, sem betur fer.“

 „Ég man þegar ég var að byrja að afgreiða í búðinni með manninum mínum þá sögðu karlarnir mjög oft að þeir ætluðu að bíða eftir því að hann yrði laus til að fá afgreiðslu, það þótti ekki líklegt að kona hefði neitt vit á þessu á þeim tíma.“

Það er ekki hægt að skiljast við Maríu án þess að leita hjá henni ráða um stangveiði, enda er hún sennilega sú kona á landinu sem veit mest um hana, hvað myndi hún ráðleggja konum sem langar að hefja veiði að gera? „Ég held það sé sniðugast að byrja bara í vatnaveiði,“ segir hún eftir smáumhugsun. „Kaupa sér vöðlur og stöng og Veiðikortið og fara í vötnin hérna í kringum Reykjavík. Það er tiltölulega einfalt og þú getur farið út eina kvöldstund í klukkutíma, það er bara æðislegt. Það þarf nefnilega ekki að gera neitt mikið til þess að byrja og um leið og maður á sínar eigin græjur er maður orðinn miklu frjálsari. Mistökin sem margir sem eru að byrja gera er að fá útbúnaðinn lánaðan hjá vinum og kunningjum og þá er fólk orðið svo miklu heftara við að fara. Þannig að mér finnst aðalatriðið að eiga sínar eigin veiðigræjur og byrja bara að veiða. Svo er hægt að fara á kastnámskeið ef fólk langar að veiða á flugu, eða kaupa spúnastöng og byrja á því, það finnur hver sína leið, aðalmálið er bara að byrja.“

Hnýtir þú þínar eigin flugur? „Ég kann alveg að hnýta og gæti hnýtt fyrir mig sjálf, það er bara enginn tími í það,“ segir María. „eins og ég sagði áðan þá látum við hnýta fyrir okkur úti í Taílandi og fórum þangað í nóvember að heimsækja verksmiðjuna. Það var mjög góð tilfinning, við sköffum áttatíu manns vinnu þar og þau eru rosalega þakklát fyrir það.“

Nóg af spennandi stöðum eftir  

Það horfir ekki vænlega með ferðalög á framandi slóðir þetta árið en eru þau María og Ólafur búin að plana næstu ævintýraferð þegar ástandið skánar? „Þetta hefur vissulega breytt öllu,“ samþykkir María. „Við hefðum átt að vera að koma heim frá Grikklandi núna, ætluðum að fara þangað í skemmti- og skoðunarferð sem var auðvitað aflýst. Eins misstum við af einni ferð sem átti að vera í lok mars til Seychelles og datt út. En við fórum til Kosta Ríka og Sambíu í vetur þannig að við erum ekki orðin örvæntingarfull, enda eigum við bókaðar tvær ferðir næsta vetur og eina í febrúar 2022. Við gátum breytt ferðinni sem við áttum að fara til Seychelles núna í mars yfir í mars á næsta ári og svo eigum við bókaða ferð til Christmas Island í lok október. Maður lifir í voninni að veiran verði þá gengin yfir svo við komumst þangað.“

Nú þurfum við að fara að pakka viðtalinu saman en á María sér einhvern draumaáfangastað sem hún hefur ekki enn farið á til að veiða? „Það er náttúrlega hellingur eftir,“ segir hún og glottir. „Við höfum ekki enn komið til allra landa í heiminum. Og við erum alltaf að prófa einhverja nýja staði, förum yfirleitt á einn nýjan stað á ári. Á síðasta ári var það Kosta Ríka og mig langar til að fara einhvern tímann til Argentínu líka, það er bara svo líkt því sem er hérna heima en það er alveg á listanum einhvern tímann seinna, eins og margir fleiri staðir. Við höfum til dæmis ekki farið til Indlands enn þá, eigum eftir að fara upp í fjöllin þar að veiða, svo og í frumskógana í Bólivíu og Kólumbíu, þannig að það er meira en nóg eftir til að hlakka til.“

Spurð hvort þau séu ekkert farin að velta því fyrir sér að minnka við sig vinnuna og setjast í helgan stein liggur við að það hnussi í Maríu.  „Við gerum það örugglega einhvern tímann,“ segir hún. „En ef við komumst í veiðiferðir yfir veturinn erum við alveg sátt. Við höfum það til að hlakka til yfir sumarið og höldum okkur gangandi á því. Mig langar hins vegar ekkert til að hætta alfarið að vinna, mér finnst svo gaman í vinnunni. Þetta er óskaplega gefandi vinna, margir fastakúnnar sem hafa verið hjá okkur árum saman og koma stundum bara til að spjalla um veiðina og svo koma margir við til að segja okkur hvernig vörurnar sem þeir keyptu hafi reynst. Þannig að okkur finnst mjög gaman að vinna í búðinni og erum ekkert á leiðinni að hætta því. Þetta er skemmtilegasta starf í heimi.“

Myndir: Hallur Karlsson og úr einkasafni

Förðun: Emilíanna Valdimarsdóttir, förðunarfræðingur fyrir Urban Decay á Íslandi

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -