Fimmtudagur 11. júlí, 2024
10.8 C
Reykjavik

„Mér hefur alltaf verið svo til slétt sama um kynlíf“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Sonja Bjarnadóttir hefur aldrei skilgreint sig út frá kynhneigð.

Sonja er eikynhneigð en segir hugtakið vefjast fyrir flestum.

Sonja Bjarnadóttir hafnar því að kynhvöt sé ákvörðun en segist hafa lært að skilgreina sig rétt. Sonja er eikynhneigð en segir hugtakið vefjast fyrir flestum. Hún stígur því fram í opinskáu viðtali og útskýrir sína hlið.

Sonja er 26 ára nemi í mannauðsstjórnun við Háskóla Íslands. Ásamt því treður hún reglulega upp með fjöllistahópnum Drag-Súgi þar sem hún fer með hlutverk hins aumkunarverða en lífsglaða Turner Strait. Sýningarnar fara bæði fram mánaðarlega sem og á Hinsegin dögum og í kringum aðra stóra viðburði. „Turner Strait fékk að malla lengi sem hugmynd í kollinum áður en hann steig á svið. Í fyrstu var karakterinn leiðindagaur en hefur með tímanum þróast yfir í að vera hálfelskulegur bjálfi. Með tímanum fór mér nefnilega að þykja vænt um hann. Hann er ekkert 100% góður og saklaus en hann vill vera elskaður og er að reyna sitt besta.“ Það eru þeir Sigurður Heimir og Hafsteinn Himinljómi, eða Gógó Starr og Ragna Rök, sem halda utan um Drag-Súg og hefur aðsóknin verið slík að hætt er að taka nýja meðlimi inn í hópinn í bili. „Ég komst inn í apríl í fyrra og fíla þetta listform í tætlur, orkan innan hópsins er mikil og stemningin góð. Það er alltaf gaman að stíga á svið en Turner Strait syngur bæði og mæmar auk þess að framkvæma allskonar bjánaskap á sviðinu.“

Tvö ár eru nú síðan Sonja steig fram og tilkynnti sínum nánustu um eikynhneigð sína. En hvað þýðir það að vera eikynhneigður? „Í stuttu máli er eikynhneigð (e. asexuality) það að finna ekki fyrir kynferðislegri aðlöðun (e. sexual attraction). Sumir sem kannski vita minna vilja meina að þetta þýði aðeins að vilja ekki eða nenna ekki að stunda kynlíf, en rótin sem slík er skortur á þessari aðlöðun eða löngun,“ útskýrir Sonja. Ástæða þess að hún komst í kynni við fræðin var netráf. „Mér finnst alltaf svo bjánalegt að segja frá því en ég sá þetta orð og þetta hugtak fyrst á síðunni tumblr. Þar hafði ég líka kynnst manneskju sem ég var með í háskólanum sem kenndi sig sem eikynhneigða og fór í kjölfarið aðeins að grennslast frekar fyrir um þetta. Bæði í gegnum þessa manneskju, frekari tumblr-skoðun og svo loks AVEN (The Asexual Visibility & Education Network) fór ég að sjá fleiri tengsl á milli þessa fyrirbæris og minnar eigin upplifunar.“

Hinsegin flóran fjölbreytt

Eikynhneigðir tóku í fyrsta sinn þátt í Gleðigöngunni fyrr í sumar. Sonja segir þátttöku þeirra hafi vakið misjöfn viðbrögð. „Það voru ekki allir á eitt sáttir um þátttöku okkar og margir af okkar elskulegu virku í athugasemdum lágu ekki á skoðunum sínum. Spurningar á borð við, „þarf að gefa öllu nafn?“ og „hvar endar þetta rugl?“ fengu að fjúka en sumir verða víst að hafa allt á hornum sér. Viðbrögðin voru þó misjöfn og margir sem tóku okkur fagnandi. Það er bara svo oft svona þegar fram koma ný orð, fólk þarf tíma til að aðlagast.“ Sonja segir að það hafi komið sér á óvart hversu margir einkynhneigðir einstaklingar séu hér á landi. „Miðað við hversu fjölbreytt hinsegin flóran getur verið ætti það kannski ekki að koma mér svo mikið á óvart en það gerði það nú samt. Við vorum að vísu frekar fámennur hópur sem tók þátt í göngunni en eflaust eiga fleiri eftir að stíga fram. Það getur nefnilega tekið tíma að átta sig á að skilgreiningin eigi við mann sjálfan og fullvíst að margir þarna úti vita hreinlega ekki um hugtakið eða hafa ekki kafað svo djúpt í sjálfsskoðuninni enn þá en eiga kannski eftir að finna sig sem eikynhneigða síðar meir.“

„Í augnablikinu er ég ekki í sambandi og ekkert sérstaklega að leitast eftir því en trúðu mér ég hef verið skotin, bæði í fólki í kringum mig sem og þekktum einstaklingum sem ég hef dáðst að úr fjarlægð.“

Aðspurð segist Sonja meira verða vör við að stelpur upplifi sig eikynhneigða en stráka og segir hún það að miklu leyti vera tengt við samfélagsgerðina. „Það eru auðvitað alveg til eikynhneigðir strákar en það er minna um að þeir opni sig með það. Samfélagið okkar er svo kyngert og gerir þær kröfur að strákar séu endalaust með kynlíf á heilanum. Umræða sem strákur myndi reyna opna sig með í þessum dúr yrði fljótlega kæfð niður. Það er sorgleg staðreynd en ég trúi því að með auknu upplýsingaflæði og opinni umræðu geti þessi viðhorf breyst.“

- Auglýsing -

Sjálf fann Sonja hvernig hugtakið átti við hana í gegnum lestur og mikla sjálfsskoðun. „Árið 2014 fór að miklu leyti í þetta hjá mér. Að finna út hvers vegna ég fann litla sem enga löngun í kynlíf og að sættast við þáverandi maka, að þetta væri ekki honum að kenna heldur mér, eins mikil klisja og það kann að hljóma. Það tók tíma að sættast við að ég væri ekki eikynhneigð vegna sambandsins heldur væri það einfaldlega vegna þess sem ég er. Fólk á svo auðvelt með að taka slíkum upplýsingum persónulega og halda að það sé við það sjálft að sakast. Þetta var skrítinn tímapunktur í mínu lífi þar sem ég hafði verið kynferðislega virk lengi vel áður en ég gerði mér grein fyrir því að ég hafði í raun litla löngun í það. Á endanum var ég alveg hætt að vilja neitt vita af kynlífi sem slíku. Það var þá sem ég fór að velta fyrir mér hvort þetta væri eitthvað sem ég þyrfti að laga hjá sjálfri mér því ég vissi að það væri ekki við þáverandi maka að sakast. Það var svo í gegnum hinn og þennan lestur um hugtakið sem ég fann samhljómun í eigin tilfinningum. Hægt og bítandi fór svo að renna upp fyrir mér að allt sem ég hafði verið að lesa mér til um ætti við um mig og ég endaði á að geta sagst vera eikynhneigð. Það skref lít ég á sem ákveðinn persónulegan sigur.“

Barneignir ekki fyrir mig

Sonju segist gruna að í sínu tilfelli hafi eikynhneigðin alltaf verið til staðar enda hafi áhugi hennar á kynlífi aldrei verið nokkur. „Þegar ég lít til baka geta ákveðin augnablik allt í einu orðið skiljanleg sem áður voru það ekki. Mér hefur alltaf verið svo til slétt sama um kynlíf og nú þegar ég veit meira um sjálfa mig og hinseginleikann minn hef ég fundið sátt. Lengi vel hélt ég nefnilega bara að ég væri skrítin, sem gæti svo sem alveg verið aukaþáttur en það er annað mál,“ segir Sonja og skellir upp úr. Í dag segist hún spá lítið í kynlífsleysið en segist þakka fyrir að „þurfa“ ekki að gera neitt lengur. „Mér finnst ég ekki vera að missa af neinu og upplifi því hvorki vonbrigði né leiða. Það er hins vegar stór plús að vera ekki lengur í neinu bólfélagaveseni með öllu því drama sem því kann að fylgja. Þetta eilífa nöldur um að hafa sofið hjá aðilla A og nú sé aðilli B brjálaður. Ég myndi segja að tilfinningin sé í dag voða hlutlaus.“

- Auglýsing -
„Mér hefur alltaf verið svo til slétt sama um kynlíf og nú þegar ég veit meira um sjálfa mig og hinseginleikann minn hef ég fundið sátt,“ segir Sonja

Hvað barneignir varðar segist Sonja hafa gert upp hug sinn fyrir löngu. Sú ákvörðun sé í raun ótengd hinseginleika hennar. „Börn eru ekki fyrir mig. Bara tilhugsunin um þungun og allt það ferli finnst mér viðurstyggileg. Ég fæ hreint út sagt ónot í líkamann að leiða hugann að því, með fullri virðingu fyrir þeim sem það kjósa. Ég á líka fullt í fangi með að hugsa um sjálfa mig þótt ég fari ekki að bera ábyrgð á öðrum einstaklingi. Þetta er mín ákvörðun og hefur ekkert að gera með eikynhneigð enda er fullt af eikynhneigðu fólki þarna úti sem þráir að eignast börn, hvort sem þeir hafa líkamlegu starfsemina til þess eða ekki. Ég finn samt vel fyrir pressu samfélagsins, sérstaklega verandi á þessum aldri en ég veit að þetta er ekki fyrir mig og sú skoðun mun ekkert breytast þótt ég eldist eins og svo margir vilja halda fram. Það er svo vont þegar fólk vill hugsa fyrir mann og reyna að breyta viðhorfi en ég segi frábært fyrir þá sem vilja eiga fjölskyldur. „You do you and I do me.“ Eins virðast margir tengja hinseginleikann við skírlífi en það er rangt, skírlífi er ákvörðun sem tekin er í tengslum við trú en ég er ekki trúuð svo ég get fullvissað þig um að þetta hefur ekkert með það að gera. Í grunninn snýst þetta um margvíslega upplifun, og skortinn þar á.“

Þar sem hugtakið er frekar nýtt á íslenskri tungu er auðvelt að gera sér ranghugmyndir um hvað það felur í sér. Sonja segir algengustu spurningarnar vera þær hvort hún hafi aldrei fengið fullnægingu og jafnvel alhæfingar um að hún eigi bara eftir að finna rétta makann. Hún vísar slíkum hugmyndum alfarið á bug en segist þó laðast rómantískt að fólki af báðum kynjum. „Eitt af því sem mér finnst svo frábært við að uppgötva hvað eikynhneigð sé er það að yfirhöfuð sé hægt að skipta aðlöðun niður í rómantíska annars vegar og kynferðislega hins vegar. Um leið og ég fattaði að ég upplifi ekki kynferðislega aðlöðun sá ég að öll þau skot sem ég hafði átt áður og mun eflaust eiga síðar eru rómantísk skot en ekki bara aðdáun á fallegri manneskju. Í augnablikinu er ég ekki í sambandi og ekkert sérstaklega að leitast eftir því en trúðu mér ég hef verið skotin, bæði í fólki í kringum mig sem og þekktum einstaklingum sem ég hef dáðst að úr fjarlægð. Það er svo sem góð leið til að segjast hafa verið skotin í frægu fólki, er það ekki annars? En fólkið sem ég laðast að eru alls konar, karlar, konur og kynsegin fólk. Það er bara svo leiðinlegt að segja alltaf „biromantic asexual“ eða „tvírómantísk“ eikynhneigð og þurfa svo að útskýra hvoru tveggja þegar ég er ekki alltaf í stuði til að vera hinsegin kennari dagsins. Ég sleppi því einfaldlega þangað til ég er spurð, eins og núna.“

„Það eru auðvitað alveg til eikynhneigðir strákar eins og í öllu öðru en það er minna um að þeir opni sig með það. Samfélagið okkar er svo kyngert og gerir þær kröfur á að strákar séu alltaf endalaust með kynlíf á heilanum.“

Margir ímynda sér að eikynhneigðir einstaklingar búi yfir vondri reynslu af kynlífi eða hafi jafnvel lent í kynferðislegu ofbeldi. Í tilfelli Sonju var það ekki raunin. „Vissulega eru til einstaklingar sem skilgreina sig sem eikynhneigða eða finna ekki fyrir kynferðislegri aðlöðun eða löngun af því eitthvað hefur komið fyrir þá áður. En það á ekki við í mínu tilfelli. Að því sögðu er það ekki mitt að ákveða eða segja hverjum og einum hvernig þeir eigi að skilgreina sig. Að mínu mati þarf ekki að uppfylla þessi og þessi áföll til þess að geta sagst vera eins og maður er. Sjálf get ég ekki sagt að neitt hafi beint valdið því að ég skilgreini mig á þennan hátt. Ég einfaldlega sá sjálfa mig í þessu hugtaki og gat loksins tjáð mig um minn hinseiginleika.“

 Örverpi á Akranesi

Sonja er alin upp á Akranesi og segir æsku sína í grunninn hafa verið góða það fylgi því þó bæði kostir og gallar að alast upp í litlu sveitarfélagi þar sem allir þekki alla. „Ég vil persónulega meina að ég hafi átt góða æsku, þó auðvitað með einhverjum erfiðleikum hér og þar. Ég er yngst þriggja systkina en ég fæddist svo löngu á eftir hinum tveimur að þau voru bæði flutt að heiman þegar ég var farin að geta munað almennilega eftir mér. Ég ólst því eiginlega upp sem einkabarn. Það gæti mögulega hafa skemmt eitthvað fyrir mér hvað framtíðina varðar en ég ætla ekki að væla yfir því alveg strax. Ég ætla allavega að reyna að vera fullorðin og sjálfbjarga í einhvern tíma í viðbót áður en ég fer að kenna uppeldinu eða æskunni um eitthvað sem ég ekki kann eða veit.“

Tvö ár eru nú síðan Sonja tilkynnti vinum og fjölskyldu um hinseiginleika sinn. Tilkynninguna birti hún á Facebook-vegg sínum á degi Reykajvík Pride árið 2015. Færslan hljómaði svona:

Sæl öll. fjölskylda, vinir, kunningjar, samstarfsfólk og meira að segja þið ykkar sem ég kann að hafa addað á feisbúkk í annarlegu ástandi og ekki haft samband við ykkur síðan. Mig langar aðeins að spjalla við ykkur um Asexuality (ísl. eikynhneigð (óopinber þýðing)), þó það væri ekki nema bara til þess að fá smá fræðslu frá algjörum amatör svona í tilefni Hinsegin Daga í Reykjavík.

Eins og flestir sem hafa lært grunnatriði í ensku ættu að vita bendir forskeytið „a-“ yfirleitt til þess að það sé skortur til staðar á hinum hluta orðsins, sbr. Amoral (siðblindur), Apathetic (áhugalaus), o.s.frv. Það sama á við hér. Asexual þýðir, mjög lauslega, skortur á nokkru hvað varðar kynhneigð. Ég hef oft borið þetta saman við andstæðuna, þ.e. þegar fólk, hinsegin sem og gagnkynhneigt, sér manneskju sem því þykir aðlaðandi vilji það prófa að sofa hjá því. Það upplifir svokallað kynferðislegt aðdráttarafl (e. Sexual Attraction), ef svo má að orði komast. Asexual fólk finnur ekki fyrir þessu aðdráttarafli frá einum né neinum. Það sér ekki annars aðlaðandi manneskjur og hugsar „vó, ég væri til í að setjast á/setja í þetta!“ (þetta var frekar nasty en þið fattið vonandi hvað ég á við).

Asexual er líka regnhlífarhugtak, eins og svo mörg hugtök innan hinsegin samfélagsins, þar sem ekki allir einstaklingar sem skilgreina sig sem slíkt eru 100% anti-sex. Þvert á móti er vel hægt að vera Asexual en samt stunda kynlíf, ýmist sér til skemmtunar, til að fá einhvers konar útrás, eða jafnvel bara með samráði maka viðkomandi. Einn undirhópur Asexual, Demisexual, er hópur sem finnur enga kynferðislega löngun, en gæti hugsað sér það ef það þekkir hinn aðilann nógu vel og gott traust sé líka með. Og jú, kynhvöt getur alveg verið til staðar hjá Asexual fólki. Líkamleg viðbrögð við örvandi utanaðkomandi afli eru jú náttúruleg, og alls ekkert að því.

Hins vegar er líka hópur Asexual fólks sem finnur hreinlega hvorki þetta aðdráttarafl né löngun í eitthvað kynferðislegt. Enginn er kynferðislega aðlaðandi fyrir þeim, tilhugsunin um það að stunda kynlíf og þá sérstaklega samfarir er ógeðfelld, og löngunin í, hvað þá hrifningin af slíku athæfi er nákvæmlega engin.

Svona eftirá að hyggja þá hefði ég kannski bara átt að mæta á Nú Skal Hinsegja viðburðinn síðastliðinn mánudag. Ekki bara vegna þess að ég er amatör um þetta málefni og gæti hugsanlega hafa prumpað út úr mér einhverjum staðreyndum sem ég þykist vita. Nema jújú, það hefði kannski verið allt í lagi hugmynd út af fyrir sig. En nei, það er ekki ástæðan.

Ástæðan er sú að ég tilheyri þessum hópi.

Og áður en spurt er, nei, þetta kom ekki upp úr þurru. Þetta er heldur ekki eitthvað sem ég bara „ákvað“ núna nýlega. En það var ekki fyrr en fyrir rúmu ári síðan sem ég gat samræmt sjálfa mig við þetta orð og í rauninni þetta konsept. Ég viðurkenni það hér og nú að ég hef alltaf getað séð fegurð og fundið hrifningu til margra kynja, jafnvel þó svo að ég átti að vera gagnkynhneigð kona. Þegar ég hugsa til baka núna get ég klipið í nokkur augnablik þar sem stelpur náðu athygli minni jafn mikið og strákar, og þá sérstaklega á kynþroskaskeiðinu. Þannig að að vissu leyti hefur mig alltaf grunað að ég væri allavega eitthvað hinsegin. „Bi-curious“ var orð sem ég átti til með að skjóta inní hér og þar, en það passaði bara ekki. Samkynhneigð/lesbía passaði mér ekki heldur. Tvíkynhneigð komst mjög nálægt, en að sama skapi fannst mér aldrei vera neitt eitthvað sérstaklega „kyn“-legt við það hvernig mér leið. Mér fannst ég samt alltaf vera að ljúga bæði að öðrum og sjálfri mér ef ég segðist vera Straight, og sömuleiðis ef ég segðist vera Lesbía/Bi.

Það var svo í gegnum elsku bjánalega, barnalega tumblr sem ég sá þetta orð fyrst: Asexual. Ég furðaði mig á þessu í fyrstu, en komst fljótt að því með smá gúggli og meira tumblr-skrolli hvað þetta þýddi. Og í gegnum vinkonu sem einkenndi sig sem slíkt lærði ég meira, og svo smátt og smátt um undirflokkana og hvað þetta allt saman gæti verið. Fljótlega small einhvern veginn allt í höfðinu á mér. Ég var ekki bara löt í kynlíf, það var ekki bara það að ég nennti því ekki; ég hafði bara enga löngun í það. Tilhugsunin var á endanum farin að gefa mér einhverja hrolltilfinningu sem ég mundi ekki eftir að hafa upplifað síðan þessi eilífa pressa um að „missa meydóminn“ byrjaði í unglingadeildinni.

En sem sagt, bara til að taka þetta nokkurn veginn saman: Ég er Asexual. Ég er ekki Hetero þegar kemur að hugsanlegum samböndum; mér finnst stelpur og NB fólk alveg jafn heillandi og strákar. Ég er bara ekki Sexual. Tilhugsunin um kynferðisleg athæfi sem hafa eitthvað að gera með sjálfa mig hrylla mig. Ég kann ekki að horfa á manneskju og hugsaa „mig langar að ríða þessu“, sama hvað kynið heitir. Það er ekkert að mér. Það kom ekkert fyrir mig til að „gera mig svona“. Svona hef ég alltaf verið. Það tók bara smá tíma og auka fræðslu fyrir mig að átta mig á því. Og núna, tæpu einu og hálfu ári eftir að ég fann að ég gat samræmt mig þessu hugtaki, fannst mér gott að koma því á framfæri.

Ég heiti Sonja, og ég er Asexual. Ég er hinsegin.

„Nánustu vinir mínir vissu hvernig ég skilgreindi mig áður en ég kom út opinberlega. Ég reikna ekki með öðru en að þeir hafi bara tekið fréttunum eins og hverju öðru. Ég hefði allt eins getað sagst hafa litað á mér hárið nýlega. Fólk er vissulega forvitið og spurningum rignir reglulega yfir mig en að öðru leyti hefur ekkert breyst. Ég hef alltaf fengið stuðning, bæði frá vinum, kunningjum og ættingjum. Ég var engu að síður mjög fegin að finna stuðning frá pabba og systur minni um leið og þau sáu færsluna frá mér. Síðar meir þegar ég sýndi mömmu og bróður mínum hana höfðu þau ekkert slæmt að segja. Mömmu fannst aðallega leitt að mér fyndist ég þurfa að koma út yfirhöfuð. Af hverju getur fólk ekki bara verið eins og það er og samfélagið sætt sig við það. Ég er í það minnsta þakklát mínu fólki og mjög heppin með það.“

Texti / Íris Hauksdóttir
Myndir / Aldís Pálsdóttir
Förðun / Helga Þorkelsdóttir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -