Mánudagur 22. júlí, 2024
9.8 C
Reykjavik

Örlagaríkt símtal

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Lífsreynslusaga úr Vikunni

Fyrir tæpum tuttugu árum komst ég að því að maðurinn minn héldi fram hjá mér en það voru þó ekki einu svikin sem ég uppgötvaði í kjölfar símtals þar sem viðmælandinn breytti rödd sinni og sagði ekki til nafns.

Ég var rétt rúmlega tvítug þegar ég kynntist Jónsa sem heillaði mig upp úr skónum við fyrstu sýn. Þótt ég sé borgarbarn fannst mér ekki erfitt að flytja með honum út á land, í bæinn þar sem hann var borinn og barnfæddur. Við giftum okkur í kirkjunni þar sem hann hafði verið skírður og fermdur og seinna meir börnin okkar en við eignuðumst tvö börn með skömmu millibili.

Jónsi var iðnmenntaður og starfskraftar hans mjög eftirsóttir svo ekki liðu mörg ár þar til við festum kaup á fallegu einbýlishúsi. Þegar börnin voru orðin nokkurra ára gömul fór ég að vinna, fyrst á leikskólanum á staðnum og síðan í verslun. Ég var hamingjusöm þarna, eignaðist yndislega vini og þá sérstaklega Freyju sem var mín besta vinkona. Börnin okkar voru á svipuðum aldri og léku sér saman þegar hún kom með þau í heimsókn sem var oft. Hún bjó reyndar rétt fyrir utan bæinn, en hún og maðurinn hennar höfðu byggt hús á jörð foreldra hans sem voru með örlítinn búskap.

Ingi, maðurinn hennar, var smiður og vann bæði í bænum okkar og víða í sýslunni. Hann var mikið að heiman og því hitti ég Freyju líklega oftar en ella. Mér leist vel á Inga í fyrstu en eftir því sem ég kynntist Freyju betur fékk ég á tilfinninguna að hann væri ekki sérlega góður maður og þótt hún segði það aldrei held ég að hann hafi lagt á hana hendur. Freyja varð til dæmis ekkert sérstaklega upprifin þegar ég stakk upp á því að þau hjónin kæmu í matarboð til okkar Jónsa, sagði hann lítið vera fyrir slíkt og vildi bara vera heima þegar hann væri ekki í vinnu. Draumur minn um að við yrðum náin vinahjón féll um sjálft sig.

Grunsemdir kvikna

Um tuttugu árum eftir að ég flutti í litla bæinn fór ég að finna fyrir breytingum á Jónsa. Ég veit að það þarf að rækta hjónabönd en hversdagslífið hafði tekið yfir og við gerðum aldrei neitt skemmtilegt eða rómantískt saman. Það má segja að ég hafi vaknað við vondan draum. Við vorum vissulega góð hvort við annað og spjölluðum mikið saman en Jónsi var orðinn fjarlægur og fór til að mynda í háttinn annaðhvort á undan mér eða á eftir og þá eins og hann biði eftir að ég sofnaði. Ég saknaði innilegu stundanna okkar og reyndi að endurheimta þær með ýmsum ráðum en án árangurs. Ég stakk upp á því að við færum í helgarferð til útlanda, bara við tvö, eða á hótel í Reykjavík en hann langaði ekki, sagðist hafa svo mikið að gera.

- Auglýsing -

Fyrst í stað kenndi ég sjálfri mér um, að ég hefði hugsað meira um börnin og heimilið en að rækta ástina og hjónabandið en smám saman læddist að mér sá grunur að Jónsi væri farinn að hitta aðra konu. Hann hugsaði betur um útlitið en áður, sem mér skilst að geti verið merki um framhjáhald, og vann líka meira en áður og annað slagið langt fram eftir kvöldi.

Fyrst í stað kenndi ég sjálfri mér um, að ég hefði hugsað meira um börnin og heimilið en að rækta ástina og hjónabandið en smám saman læddist að mér sá grunur að Jónsi væri farinn að hitta aðra konu.

Einn daginn þegar mér leið mjög illa viðraði ég þessar áhyggjur mínar við Freyju. Henni tókst að róa mig og sagði að mikið væri spjallað í bænum en hún hefði ekki heyrt að Jónsi héldi fram hjá mér. Það átti þó eftir að breytast fljótlega og allt fór að loga í kjaftasögum, komst ég að síðar. Eitthvað var giskað en flestir héldu að ákveðin einhleyp kona væri viðhaldið en sú virtist upp með sér af sögunum, frekar en hitt, og sór ekki fyrir neitt. Seinna frétti ég að hún hefði vitað hið sanna og viljað með þessari framkomu vernda viðkomandi konu sem var skyld henni.

Auðvitað hafði ég gengið á manninn minn en hann harðneitaði öllu. Ástandið var frekar þungt á heimilinu, ég vildi trúa honum en átti erfitt með það.

- Auglýsing -

Freyja var dugleg að heimsækja okkur og stundum var hún fram á kvöld og borðaði með okkur. Mér fannst gott að fá Freyju og frekar hvatti hana en latti til að vera lengur. Hún var eina manneskjan sem ég gat talað við um líðan mína.

„Eltu rútuna“

Eina helgina þurfti Jónsi að vinna verkefni í Reykjavík. Við áttum bara einn bíl en Jónsi heimtaði að ég hefði hann, það væri ekkert mál fyrir hann að taka rútuna í bæinn, hann yrði sóttur á BSÍ. Ég skutlaði honum í sjoppuna þar sem rútan stoppaði og fór svo heim. Ég hafði ekki verið lengi heima þegar síminn hringdi. Um leið og ég svaraði sagði rödd sem greinilega var reynt að breyta: „Eltu rútuna, þá sérðu hvað maðurinn þinn er að gera.“ Ekki heyrði ég hvort þetta var karl eða kona og þegar ég spurði hver þetta væri var skellt á.

Ég ákvað að hlýða þessu, rauk út í bíl og ók sem leið lá í sömu átt og rútan hafði farið nokkrum mínútum áður. Rútan stoppaði stutt í bænum okkar en í tíu mínútur eða korter í næsta bæ. Mér byrjaði að líða eins og kjána meðan ég elti rútuna og ákvað að snúa við þegar ég væri komin þangað. Þetta hlyti að vera gabb.

Ég hafði ekki verið lengi heima þegar síminn hringdi. Um leið og ég svaraði sagði rödd sem greinilega var reynt að breyta: „Eltu rútuna, þá sérðu hvað maðurinn þinn er að gera.“ Ekki heyrði ég hvort þetta var karl eða kona og þegar ég spurði hver þetta væri var skellt á.

Rútan ók inn í bæinn og stoppaði við söluskála, ég lagði í nokkurri fjarlægð og fylgdist með farþegunum stíga út, maðurinn minn var einn þeirra. Mér til undrunar gekk hann með föggur sínar beint að bíl sem stóð við skálann og settist inn í hann. Þetta var bíllinn hennar Freyju vinkonu, hún sat undir stýri og ók af stað fljótlega og stefndi til Reykjavíkur. Ég sat eins og lömuð á meðan sannleikurinn rann upp fyrir mér. Ég veit ekki hvernig ég komst heim því ég var í svo miklu uppnámi.

Jú, maðurinn minn og besta vinkona höfðu skipulagt rómantíska helgi í Reykjavík. Þau byrjuðu að vera saman löngu áður en mig grunaði nokkuð.

Sturluð úr ást

Uppgjörið í helgarlok var erfitt. Jónsi reyndi ekki að neita neinu en sagði að væntumþykja hans til mín og barnanna hefði komið í veg fyrir að hann bæði um skilnað, en nú væri það víst óumflýjanlegt.

Sama kvöldið sagði Freyja manninum sínum frá sambandinu, ég held að Jónsi hafi hringt í hana og sagt henni að allt hefði komist upp. Maðurinn henti Freyju öfugri út, sagði að hann vildi aldrei sjá hana aftur og væri viss um að sama gegndi um börnin þeirra. Það var nokkuð til í því, börnin hennar töluðu ekki við hana í nokkur ár en svo jöfnuðu þau sig. Ættingjar Freyju refsuðu henni á sinn hátt líka, buðu Inga í öll fjölskylduboð næstu árin sem hann þáði þannig að Freyju var ekki vært þar. Auðvitað höfðu allir samúð með Inga og vildu sýna honum að hegðun Freyju væri ekki samþykkt af þeim.

Börnin mín urðu líka mjög reið út í pabba sinn en ekki jafnlengi og börn Freyju.

Freyja og Jónsi fóru að búa saman strax í kjölfarið og þótt bæjarbúar stæðu með okkur mökum þeirra, treysti ég mér ekki til að búa þarna lengur. Börnin mín vildu endilega flytja líka. Fína húsið okkar seldist hratt og Jónsi, eflaust fullur af samviskubiti, gaf mér sinn helming af andvirðinu og leyfði mér að velja það sem ég vildi úr innbúinu. Hann vissi svo sem að hann ætti mun betur með að hefja nýtt líf, með margfalt hærri tekjur og endalausa atvinnumöguleika. Ég er honum þakklát fyrir þetta þótt þakklæti hafi þó ekki verið mér efst í huga fyrst eftir skilnaðinn.

Við börnin fluttum á höfuðborgarsvæðið og þar tókst mér að búa okkur gott líf. Ég fékk strax fína vinnu, ekki vel borgaða þar sem ég er ekki með góða menntun en mér leið vel þar. Ári seinna var ég orðin verslunarstjóri í búð skammt frá heimili mínu og við það hækkuðu laun mín nokkuð.

…sagði hún að hún hefði verið sturluð af ást og gert allt til að vera nálægt Jónsa, þótt það þýddi svik við bestu vinkonuna, mig.

En áður en ég flutti hringdi ég í Freyju, hún hafði forðast að verða á vegi mínum en mig langaði að tala við hana. Þetta var erfitt símtal. Þegar ég spurði hana hvernig hún hefði getað hugsað sér að vera trúnaðarvinkona mín, koma svona oft í heimsókn og borða stundum með okkur, sagði hún að hún hefði verið sturluð af ást og gert allt til að vera nálægt Jónsa, þótt það þýddi svik við bestu vinkonuna, mig. Ef hún gæti farið aftur í tímann hefði hún kosið að þau Jónsi hefðu komið hreint fram frá upphafi, það hefði kannski verið auðveldara fyrir alla aðila, að minnsta kosti stytt þetta erfiða tímabil.

Hún og Jónsi giftu sig og miðað við það sem ég hef heyrt eru þau hamingjusöm.

Ég hef aldrei komist að því hver það var sem hringdi í mig þennan örlagaríka dag en er viðkomandi þakklát. Að vísu flýtti þetta símtal aðeins fyrir því óhjákvæmilega og gerði hlutina líklega dramatískari en ég hefði ekki viljað vita þetta mikið seinna.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -