Þriðjudagur 10. desember, 2024
2.8 C
Reykjavik

Rangt val

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Lífsreynslusaga úr Vikunni

Gömul skólasystir mín var gift manni sem sýndi henni mikla lítilsvirðingu. Loks skildu hjónin eftir að hafa verið gift í rúmlega tvo áratugi. Mér leist ekki á blikuna þegar maðurinn fór að gera hosur sínar grænar fyrir frænku minni.

Rúna var ágæt vinkona mín þegar við vorum börn en á unglingsárunum minnkuðu samskiptin smám saman, án þess þó að nokkuð kæmi upp á. Við þroskuðumst hvor í sína áttina, eins og sagt er, áttum okkar vini sem við héngum með en hittumst í partíum og það fór alltaf vel á með okkur.

Rúna var og er mjög falleg en hún hafði ekki mikið sjálfstraust og var týpan sem alltaf var sammála síðasta ræðumanni. Hún var ljúf og gerði allt til að halda friðinn. Mögulega tengdist framkoma hennar því að hún ólst upp á drykkjuheimili og kannski fannst henni hún þurfa að vera svona til að koma engu eða engum í uppnám.

Ósætti í grillpartíi

Með okkur í skóla var Ingi, sem endaði sem maðurinn hennar Rúnu. Ég kynntist honum aldrei vel. Þau fóru að vera saman um tvítugt. Hún ætlaði í háskólanám en ákvað að fresta því þegar hún varð ófrísk. Börnin urðu þrjú á örfáum árum og eftir að þau fóru að stálpast hafði hún misst áhugann á því að mennta sig meira. Aftur á móti fór Ingi í framhaldsnám og vann með skólanum. Ég man hvað mér fannst þau dugleg. Þau komu sér upp íbúð og voru komin í einbýlishús í kringum 35 ára aldurinn. Nám Inga var hagnýtt og hann hafði fínar tekjur.

- Auglýsing -

Svo fór ég að heyra sitt af hverju um hjónabandið. Það var ekki hamingjuríkt, sagði sagan. Ég varð sjálf einu sinni vitni að því hvernig Ingi kom fram við Rúnu og framkoma hans lýsti ekki mikilli virðingu fyrir henni. Það var í grillpartíi heima hjá sameiginlegri vinkonu okkar Rúnu. Flestir voru komnir vel í glas og Rúna var ein af þeim. Ég heyrði ekki hvað hún sagði við manninn sinn en hann sagði  höstuglega við hana: „Hættu þessu röfli, ofboðslega ertu leiðinleg manneskja,“ eða eitthvað í þeim dúr. Hún hljóp grátandi í burtu frá honum og hann gerði enga tilraun til að elta hana og hugga. Gestgjafinn sá um það.

„Ekki heyrðist mér á neinum að hann legði á hana hendur, hann var bara leiðinlegur við hana og að sjálfsögðu átti hún ekki að sætta sig við það.“

Rúna virtist mjög óhamingjusöm á þessum tíma og það kom mér ekki á óvart þegar ég frétti skömmu seinna að þau væru að skilja. Ég samgladdist Rúnu í huganum með að losna við þennan mann sem var svo vondur við hana. Ekki heyrðist mér á neinum að hann legði á hana hendur, hann var bara leiðinlegur við hana og að sjálfsögðu átti hún ekki að sætta sig við það.

Skilnaður og nýir makar

- Auglýsing -

Ég frétti af og til af Rúnu í gegnum sameiginlega vinkonu og mér fannst leiðinlegt að heyra að hún blómstraði ekki eftir skilnaðinn, eins og ég og eflaust flestir bjuggust við. Hún náði sér þó á strik eftir nokkur ár en reyndar ekki fyrr en hún hafði kynnst öðrum manni. Henni leið aldrei vel einni, sagði vinkona mín. Nýi maðurinn hennar var fínasti náungi en steig kannski ekki í vitið. Hann dýrkaði Rúnu og dáði og það virtist vera það sem hún hafði þörf fyrir.

Ingi, fyrri maður hennar, var rólegur í tíðinni eftir skilnaðinn, eins og Rúna, en átti í nokkrum samböndum áður en hann kynntist Gunnu frænku minni. Ég var ekki sérlega hrifin þegar ég komst að því en þar sem mér finnst ekki rétt að skipta mér af einkamálum annarra datt mér ekki í hug að fara til hennar og vara hana við. Jú, ég hafði vissulega séð Inga sýna fyrrverandi konu sinni óvirðingu og heyrt að hann væri leiðinlegur við hana en það var ekki nóg til að ég gerði eitthvað. Ef hún spyrði mig um hann, myndi ég þó ekki þegja.

Ég hef alltaf verið í nokkru sambandi við Gunnu frænku mína, mest þó á Facebook seinni árin, en stundum hringjum við hvor í aðra og getum þá talað saman löngum stundum til að vinna upp glataðan tíma … Hún er hátt í tíu árum yngri en ég og ég passaði hana stundum þegar hún var lítil.

Einn daginn hringdi Gunna í mig og bauð mér og manninum mínum í fertugsafmælið sitt. Þá hafði hún verið með Inga í tæpt ár. Einhverra hluta vegna hafði ég ekkert hitt hana allan þann tíma og ekkert heyrt í henni. Sá bara á Facebook að hún virtist í sjöunda himni með nýja manninn sinn. Gunna hafði fyrir löngu skilið við þann gamla en í mestu vináttu en saman áttu þau strák sem var fimmtán ára þegar Gunna fór að vera með Inga. Mér sýndist líka að samband stjúpfeðganna væri mjög gott. Gunna staðfesti það í þessu símtali og sagði mér líka að börn Inga hefðu tekið henni vel. Hún þurfti að hringja í fleiri svo að við gátum ekki spjallað lengi.

Ást og virðing

Afmælisveislan var afar skemmtileg og ég ætlaði ekki að þekkja gamla skólabróður minn og fyrrum eiginmann Rúnu. Ingi hreinlega ljómaði og virtist ógurlega skotinn í frænku minni. Hann virtist miklu yngri en þegar ég hitti hann í grillpartíinu nokkrum árum áður og ekkert minnti á pirraða fýlukarlinn sem hann var þá. Ég fylgdist í laumi með honum og hvernig hann kæmi fram við Gunnu og sá ekkert nema ást og virðingu. Þetta var allt annar maður.

Seinna um kvöldið spjallaði ég í smástund við Gunnu og minntist á hversu ástfangin þau virtust vera. Hún staðfesti það og sagði að Ingi væri besti og ljúfasti maður sem hún hefði kynnst. Það gladdi mig að heyra en ég sagði líklega meira en ég ætlaði, enda búin að drekka svolítið. Ég sagði henni að síðast þegar ég sá Inga hefði það verið í grillboði fyrir mörgum árum og hann hefði sannarlega ekki virkað hamingjusamur á þeim tíma, hvað þá konan hans fyrrverandi. Gunna hló og sagðist vita af þessu. Ingi var mjög óhamingjusamur, sagði hún. Hann og Rúna pössuðu illa saman þótt hjónabandið hefði enst í rúma tvo áratugi. Þau kölluðu fram það versta hvort í öðru. Hann var orðinn endalaust pirraður út í hana og fannst hún svo leiðinleg, skoðanalaus og alltaf sammála síðasta ræðumanni. Hún vildi alltaf að Ingi réði öllu og tæki ákvarðanir með stórt sem smátt. Ingi var farinn að hreyta í hana ónotum sem jók á óöryggi og vanlíðan Rúnu svo þetta var orðinn vítahringur. Ingi hafði lengi talað um skilnað en Rúna mátti ekki heyra minnst á það lengst af.

Ég var hissa, Rúna hafði látið alla halda að hún hefði haft frumkvæðið að því að skilja við þennan ómögulega mann og jú, vissulega var hann leiðinlegur við hana og sýndi henni óvirðingu.

Álit mitt á Inga gjörbreyttist eftir þetta kvöld. Bæði sá ég hann og upplifði breytinguna á honum og svo trúði ég orðum Gunnu. Þau eru himinsæl saman.

„Ég er innilega þakklát sjálfri mér fyrir að hafa ekki heimsótt Gunnu frænku til að vara hana við þessum „hræðilega“ manni.“

Þetta var lærdómsríkt og kenndi mér að kveða ekki upp dóma um fólk án þess að vita málavöxtu. Bæði Ingi og Rúna voru sek um að gera hvort annars líf erfitt en ég vorkenndi bara Rúnu af því að ég hafði ekki heyrt hlið Inga.

Ég er innilega þakklát sjálfri mér fyrir að hafa ekki heimsótt Gunnu frænku til að vara hana við þessum „hræðilega“ manni. Ég veit ekki hvort vinátta okkar hefði þolað að ég sýndi slíka afskiptasemi, hvað þá án þess að vita í raun allan sannleikann.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -