Miðvikudagur 17. apríl, 2024
3.1 C
Reykjavik

Sambland af japanskri götutísku og samstæðum göllum

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Breska listakonan Kitty Von-Sometime hefur verið búsett hér á landi síðastliðin þrettán ár en hún er þekktust fyrir The Weird Girls Project, röð verka eða myndbandsþátta með konum í forgrunni. Kitty er með einstakan fatastíl og þess vegna er tilvalið að skyggnast inn í fataskápinn hennar.

Kitty lýsir fatastíl sínum sem kæruleysislegum og segist yfirleitt henda saman fötum án þess að hugsa mikið um það. „Mér er alveg sama hvaða tíska er í gangi en ég tjái mig mikið í gegnum flíkurnar sem ég klæðist, þær verða þó líka alltaf að vera þægilegar. Dagsdaglega klæðist ég mikið samstæðum göllum en við sérstök tilefni skelli ég mér í eighties-samfesting í anda Dynasty-þáttaraðarinnar.“

Ég tjái mig mikið í gegnum flíkurnar sem ég klæðist.

Flestar flíkur finnur Kitty í herradeildum en hún verslar jafnframt mikið á Netinu sem og á flóamörkuðum. Innblástur sækir hún til kvikmynda frá níunda áratugnum, hipphopp tónlistar tíunda áratugarins sem og japanskrar götutísku.

„Ég fell alltaf fyrir samstæðum buxum og bolum, grófu prenti og ljótum flíkum frá níunda og tíunda áratugunum. Allt sem Ardala, prinsessan í Buck Rogers, myndi klæðast en sömuleiðis glæpagengið í Superman 2. Nánast allt af því sem ratar í minn fataskáp eru flíkur sem flest fólk myndi álíta skrítið svo spurningin hvað það furðulegasta sem ég hef keypt á varla við í mínu tilfelli. Ætli það væri samt ekki túrkislitaði brúðarkjóllinn sem ég keypti líklega fjórum númerum of stóran.“

Aðspurð hvað sé efst á óskalistanum nefnir Kitty fyrst náttföt frá fatahönnuðinum Munda.

„Ég á rosalega stórt safn af náttfötum en er engu að síður alltaf á höttunum eftir fleirum. Annars vantar mig líka alltaf ullarföt fyrir vinnuna. Að starfa við kvikmyndagerð á Íslandi krefst þess að eiga ótæpilegt magn af hlýjum fötum. Uppáhaldsflíkin mín er einmitt ullarsamfestingur í yfirstærð eftir Munda. Við vorum mikið saman á árunum áður en hann flutti til Þýskalands en ég hafði augastað á þessum samfestingi í þó nokkurn tíma áður en hann varð minn. Ég var eins og Wayne með gítarinn í Waynes world-myndinni „it will be mine“ og á endanum gerðist það. Ég elska hann enda er hann ekki bara hlýr og þægilegur heldur sjúklega flottur.“

Þrátt fyrir að sambandið okkar hafi ekki gengið er þetta það rómantískasta sem ég hef upplifað og mér þykir alltaf vænt um þessa húfu.

- Auglýsing -

„Þessi derhúfa er mér mjög kær, margir halda kannski að ég hafi látið búa hana til fyrir mig en nei. Ég kynntist fyrrverandi konunni minni í Bandaríkjunum en þegar hún kom í fyrsta skipti að heimsækja mig til Íslands var hún með þessa húfu á höfðinu. Þrátt fyrir að sambandið okkar hafi ekki gengið er þetta það rómantískasta sem ég hef upplifað og mér þykir alltaf vænt um þessa húfu. Hún átti sem sé húfuna en ég þreyttist ekki á að stela húfunni af henni svo á endanum varð hún mín.“

„Uppáhaldsfylgihluturinn minn eru þessir sérhönnuðu Converse-leðurskór. Ég hannaði þá frá grunni og lét lógóið vera matt en útkoman er nákvæmlega eins og mig dreymdi.“
„Síðasta flíkin sem ég keypti voru tveir samstæðir gallar sem ég lét búa til í Póllandi, annar með dalmatíuhunda-mynstri og hinn köflóttur í yfirstærð.“

Myndir / Hákon Davíð Björnsson

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -