Föstudagur 12. júlí, 2024
12.8 C
Reykjavik

Þykir vænt um gallana sem enginn sér nema ég

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Anna Jia á framtíðina fyrir sér þegar kemur að listilegum kökum og öðrum kræsingum en hún nemur rekstrarverkfræði við Háskólann í Reykjavík. Hún segir námið hafa ýtt sér út í bakstur en draumurinn sé diplómagráða í kökugerðarlist.

„Fyrir mér eru kökur eitthvað sem gleðja bæði augað, hjartað og bragðlaukana. Þær eru eitthvað fallegt og gómsætt sem kætir fólkið í kringum mig, og gerir lífið aðeins sætara. Það að skapa og búa til kökur veitir mér líka hugarró. Fyrir suma er það jóga, langar gönguferðir eða hugleiðsla en í mínu tilfelli er það að verja tímunum saman, án þess að finna fyrir tímanum líða. Að móta lítil raunveruleg blóm úr smjörkremi, para saman hina og þessa liti og búa til alla litlu hlutina sem eiga eftir að smella saman og búa til fallega heild. Ég tekst á við allar litlu áskoranirnar sem geta poppað upp þegar eitthvað fer úrskeiðis og þá reynir á að vera úrræðagóð. Á sama tíma þykir mér alltaf sérstaklega vænt um litlu gallana sem enginn sér nema ég.”

Samhliða námi hefur Anna Jia starfað sem fyrirsæta en hún segir ferilinn hafa hafist fyrir tilviljun þegar hún var stödd á kaffihúsi fjórtán ára. „Þar gekk að mér kona, Marie að nafni, og spurði hvort ég hefði áhuga á fyrirsætustörfum. Eftir það fór ég í mína fyrstu myndatöku og í beinu framhaldi á skrá hjá casting-fyrirtæki fyrir auglýsingar. Stuttu síðar tók ég þátt í ELITE-keppninni og stóð uppi sem sigurvegari. Í kjölfarið fór ég út í aðalkeppnina sem haldin var í Shanghai. Það var mjög skemmtileg reynsla þar sem ég kynnist stelpum alls staðar að úr heiminum.“

„Ég fann samt strax að þetta var ekki heimur sem hentaði mér því það er mikil harka og strangar reglur um ákveðin mál sem stelpur þurfa að passa í. Ég vildi frekar taka að mér einstaka verkefni hér heima og passa upp á andlega og líkamlega heilsu. Það getur nefnilega enginn bannað mér að borða kökur þegar ég vil.“

„Annars finnst mér þessi reynsla hafa kennt mér mikið hvað varðar framkomu og samvinnu með fjölbreytilegu fólki frá allskonar löndum. Hvort sem það er verið að skjóta indverska sápuauglýsingu á sundbol uppi á Langjökli eða í notalegheitum fyrir Bláa lónið.“

Þegar talið berst að jólahátíðinni segist hún halda fast í hefðir þó að tilraunastarfsemin sé heldur aldrei langt undan. „Eitt af því sem er alveg ómissandi um jólin er ananasfrómasinn hennar ömmu Rannveigar. Þetta er sítrónufrómas með ananasbitum ofan á og rjóma. Mjög gamaldags og klassískur. Það ríkir enn í dag jafnmikil samkeppni milli okkar systkinanna um hver fái möndluna. Ég verð líka alltaf að baka sörur fyrir jólin en undanfarin ár hef ég verið í tilraunastarfsemi með þær. Fyrir utan þessar klassísku hef ég prófað að gera kökurnar úr hvítsúkkulaði, sítrónu og kókos sem heppnuðust alveg æðislega vel. Fyrir þessi jól langar mig að prófa að gera lakkrís- og hindberjasörur svo það eru spennandi tímar fram undan.“

Viðtalið í heild má lesa í nýjasta tölublaði Vikunnar.

Myndir / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir.
Förðun / Björg Alfreðs.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -