Laugardagur 25. maí, 2024
8.8 C
Reykjavik

Undarlegir endurfundir

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Lífsreynslusaga úr Vikunni

Þegar ég var unglingur gætti ég um tíma barna fyrir konu sem þótti skrautleg og skar sig úr í bænum þar sem við bjuggum. Löngu síðar lágu leiðir okkar saman aftur og þá hafði margt breyst.

 

Mér fannst afar gaman að passa fyrir Rúnu. Hún var allt öðruvísi en allir aðrir sem ég hafði kynnst og fór ekki hefðbundnar leiðir. Hún átti fjögur börn með þremur mönnum og það þótti ekki par fínt. Enginn þessara manna sýndi nokkurn áhuga á börnum sínum svo hún ól þau upp ein. Mér fannst Rúna hafa ferska og skemmtilega sýn á lífið og vera bjartsýn þótt hún ætti oft erfitt með að ná endum saman. Hún var einstaklega listfeng og heimili hennar bar þess merki. Stofugluggatjöldin voru einstök og mér ógleymanleg, annar vængurinn var ljósblár, tákn fyrir himininn og þar hafði hún málað ský og fugla, á meðan hinn var dökkblár, tákn sjósins með ámáluðum fiskum og sjávargróðri.

Rúna þótti vera föst fyrir og lenti til dæmis iðulega í vandræðum með að fá iðnaðarmann ef eitthvað bilaði hjá henni, því hún var sögð „leiðinleg“ í viðskiptum, vildi fá að vita upp á hár hve mikið verkið kostaði áður en byrjað var að vinna það og ef eitthvað bættist við harðneitaði hún að borga það. Eðlilega, en hún sykurhúðaði orð sín aldrei og það sem öðrum fannst vera kurteisi kallaði hún smjaður.

Bannað að passa

Rúna gat verið hvöss í tilsvörum, kaldhæðin og lét engan eiga neitt hjá sér. Bæjarbúar töldu víst að það hefði hrakið frá henni barnsfeður hennar. Hver vildi svona kjaftfora konu? Rúna sagði mér einhverju sinni að hún væri aumingjasegull, laðaði að sér menn sem virtust fínir á yfirborðinu en væru það ekki í reynd.

- Auglýsing -

Eflaust mátti margt um Rúnu segja en hún var góð við börnin sín og uppeldisaðferðir hennar voru frjálslegri en tíðkaðist á þeim tíma.

Elsta barn Rúnu og eini sonurinn var ekki nema ári yngri en ég og þurfti því ekki pössun, dæturnar voru mun yngri og yngsta bara ársgömul. Rúna vildi ekki leggja það á unglinginn að þurfa sífellt að passa þær, sjálf þurfti hún sem elsta systkinið að passa út í eitt þegar hún var krakki. Hún gat verið ansi kaldhæðin og hvöss við soninn og hann svaraði henni fullum hálsi, eitthvað sem ég hefði aldrei þorað að gera við mömmu mína. Ég áttaði mig á því löngu síðar að þetta gaf tóninn fyrir samskipti hennar og barna hennar í framtíðinni.

Nokkrum mánuðum eftir að ég fór að passa fyrir Rúnu bannaði mamma mér að umgangast hana, henni fannst hrifning mín á henni of mikil og Rúna ekki góð fyrirmynd. Líklega notaði mamma tækifærið þegar hún sá frekar slakar miðsvetrareinkunnir mínar. Rúna varð svolítið pirruð þegar ég sagði henni þetta þegar ég kom að passa um kvöldið og ég fékk aldrei borgað fyrir þetta síðasta skipti.

- Auglýsing -

Við fjölskyldan fluttum á höfuðborgarsvæðið nokkrum árum seinna og þá var Rúna löngu flutt í Kópavog, hafði ég heyrt. Hún þótti víst ágæt spákona og las í bolla og spil.

Í fjölskyldu hennar var hver höndin upp á móti annarri og Rúna gat ekki hugsað sér að vera í samskiptum við t.d. mömmu sína og bróður. Systir hennar, búsett erlendis, var sú eina sem talandi væri við, hafði hún sagt mér.

Lítill heimur

Ekki grunaði mig að við Rúna myndum nokkurn tímann hittast aftur, hvað þá tengjast fjölskylduböndum en það gerðist fyrir nokkrum árum. Eldri dóttir mín fór að vera með barnabarni Rúnu, eða sonarsyni hennar. Lítill heimur, hugsaði ég, en þegar ég spurði fékk ég lítið upp úr væntanlegum tengdasyni, svo virtist sem lítið sem ekkert samband væri á milli fjölskyldu hans og Rúnu. Hann sagðist þó alltaf fara með jólapakka til hennar á aðfangadag en væri sjaldnast boðið inn. Hún gæfi aldrei jólagjafir, væri fátækur öryrki í lélegri íbúð og fjölskyldan hefði fullan skilning á því.

Ég fylltist samúð með Rúnu og hét því með sjálfri mér að fara til hennar við tækifæri. Tengdasonur minn réð mér frá því að heimsækja hana, sagði ömmu sína vera erfiða konu sem hataðist út í allt og alla, hann væri sjálfur hálfhræddur við hana.

Ég dreif mig samt til hennar einn daginn en hafði vit á því að hringja fyrst og boða komu mína. Rúna virtist hissa en ég hitti greinilega vel á hana því hún sagði að ég væri velkomin daginn eftir og bætti við að ef ég væri viðkvæm fyrir drasli skyldi ég ekki hafa fyrir því að koma.

Ótrúleg listaverk

Ég keypti lítinn blómvönd og köku til að færa henni og drap á dyr. Rúna opnaði og bauð mér inn. Hún hafði merkilega lítið breyst í útliti þessi ár sem höfðu liðið. Ég elti hana eftir þröngum gangi og inn í lítið eldhús þar sem sást ekki í borð og bekki fyrir dóti. Samt fannst mér ekki vera óhreint hjá henni, bara allt of mikið af öllu. Inn af eldhúsinu var lítil borðstofa og hún bauð mér sæti þar. Hún var snögg að setja blómin í vasa, skella kökunni á disk og búa til kaffi. Henni fannst sniðugt að við tengdumst þessum böndum en sagði að frumburðurinn, pabbi tengdasonar míns, væri ómögulegur og hún vildi sem minnst við hann tala. Ekki útskýrði hún það frekar og ég spurði ekki.

Íbúðin var dimm og drungaleg og greinilegt að hún hafði ekki verið máluð lengi, það var ekki vond lykt inni en loftið var þungt, líklega vegna þess að íbúðin var full af dóti.

Þaðan sem ég sat sá ég inn í stofu og svefnherbergi og þar virtist vera heilu haugarnir af alls kyns dóti í snyrtilegum stöflum. Hún sýndi mér þetta eftir kaffi, eða hluta þess, og þetta var að megninu til handavinnan hennar, eflaust til margra ára. Meðal annars hekluð samkvæmisveski, sjöl, afar fínir sparitreflar og -eyrnabönd og útprjónaðir sokkar og vettlingar með mynstrum eftir hana, og margt fleira sem mér fannst einstaklega fallegt. Hún hafði reynt að koma þessu í sölu í búðum bæði í Kópavogi og Reykjavík en öllum fannst hún verðleggja hlutina of hátt. Ég starði á þessi flottu listaverk hennar en samt gaf hún ekki börnum sínum eða barnabörnum jólagjafir! Hver einasti hlutur þarna hefði verið stórkostleg gjöf, smekkleg og listræn.

Rúna sagðist ekki vera til í að gefa vinnu sína, það vildi þó enginn borga sanngjörn laun fyrir svo börnin hennar yrðu bara að fleygja þessu að henni dauðri, eins og hún orðaði það sjálf.

Þarna voru líka tímarit í bunkum, heilu árgangarnir, sýndist mér, snyrtilega raðaðir upp á svefnherbergisgólfinu. Kassar í stöflum og plastpokar, mögulega handavinna, sem ég veit ekki hvað var í.

Þegar „fávitunum“ fjölgar

Rúna var kurteis við mig, líklega vegna blómanna og kökunnar, en ég var þeirri stund fegnust þegar ég slapp út. Vissulega gat hún verið fyndin en samt svo kvikindisleg þegar hún talaði um fólk að mér leið illa. Lífið hafði ekki leikið við hana en ekki allir sem eiga erfitt fyllast beiskju og fæla aðra frá sér með eitruðum athugasemdum. Í samtali okkar skildist mér að dætur hennar væru einnig í litlu sambandi við hana.

Rúna hvatti mig ekki til að koma aftur í heimsókn þegar ég kvaddi, svo líklega vorum við báðar jafnfegnar þegar ég fór.

Ég sagði tengdasyni mínum frá heimsókninni, að ég hefði drukkið með henni kaffi og skoðað handavinnuna hennar sem væri ótrúlega falleg. Hann virtist hissa, eins og hann hefði ekki vitað af hannyrðunum, og sagði mér samt að pabbi hans hefði farið þangað fyrir einhverjum árum til að hjálpa henni með bilað sjónvarp en í leiðinni boðist til að fara með í Sorpu eitthvað af þessu „drasli“ sem troðfyllti íbúðina. Hún tók því svo illa að hún hefur sem minnst viljað við hann tala síðan. Vissulega ónærgætni að tala um listaverkin hennar sem drasl en líklega hefur hann bara séð hauga af einhverju liggja um allt og viljað hjálpa henni að minnka umfangið. Eflaust hefur hann verið hranalegur, eins og hann á kyn til og ólst upp við. Blessunarlega er sonur hans, sem nú er giftur dóttur minni, einstaklega ljúfur drengur sem sýnir öllum kurteisi og virðingu.

Ég hef heilmikla samúð með Rúnu en hún er sjálfri sér verst. Þegar „fávitarnir“ í kringum mann eru svona margir væri kannski ráð að líta í eigin barm.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -