Sækir kraftinn í hvíld.
Segja má að leið Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur í heim stjórnmálanna hafi alltaf legið fyrir en hún starfar nú sem ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar. Þrátt fyrir ungan aldur fullyrðir Þórdís að skoðanir hennar njóti sama hljómgrunns og annarra þingmanna en þó sé mikilvægt að láta neikvæðar skoðanir og niðurrif ekki hafa áhrif á sig.
„Ég er hreint út sagt of upptekin til að vera velta því fyrir mér hvort tekið sé mark á mér. Ég veit að það ætti að taka mark á mér, það er nóg.“
„Eflaust hafa einhverjir skoðun á því sem ég segi eða geri út frá aldri mínum eða kyni en ég geng einfaldlega hreint til verks, veit hver ég er og reyni að koma vel fram við fólk. Ég trúi því að það skili sér í samskiptum og hvernig fólk kemur fram við mann. Ég vil vera dæmd af verkum mínum í stjórnmálum. Ekki öðru.”
Þórdís afsalar sér alfarið ofurkonutitilinum en kraftinn sækir hún í hvíld og jarðtenginguna sem hún finnur í börnunum sínum. „Ég reyni almennt að ná góðum nætursvefni því hann er mér lífsnauðsynlegur. Í gegnum svefninn sæki ég kraftinn og þaðan get ég svo fengist við krefjandi verkefni og spennandi áskoranir sem starfið býður upp á. En það að vera foreldri er líklega það merkilegasta af öllu, ég á sterkt bakland og börnin mín eru hamingjusöm. Ég á góðar stundir með þeim og ég reyni að forgangsraða tíma mínum gæfulega. Það þýðir ekkert að láta samviskubit naga sig. Og ég hef bara upplifað það sjálf að pabbar eru nákvæmlega jafn mikilvægir og mömmur.”
Viðtalið í heild má lesa í nýjustu Vikunni.
Texti / Íris Hauksdóttir
Myndir / Hákon Davíð Björnsson
Förðun / Björg Alfreðsdóttir