Miðvikudagur 19. júní, 2024
8.8 C
Reykjavik

Áhugaverðir jólamarkaðir í nágrenni Frankfurt

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Þjóðverjar og fjöldinn allur af ferðamönnum gera sér árlega glaðan dag á jólamörkuðum í Þýskalandi. Slíkir markaðir er sagðir hafa verið hluti af aðventunni þar í landi í meira en 500 ár.

Jólamarkaðurinn í Dresden er sagður vera einna elstur eða frá árinu 1434. Flestir markaðirnir ganga út á það sama en það er að bjóða upp á margskonar hefðbundinn þýskan mat og fallegan og vandaðan söluvarning. Byggð eru upp heilu þorpin af sölubásum og kofum sem mikið er lagt í að reisa og skreyta. Afar hátíðlegt er að ganga um ljósum prýdda miðbæina og torgin á aðventunni. Þjóðverjarnir sjálfir sækja markaðina til að fá sér heitt jólaglögg (Glühwein) borða Reibekuchen sem eru djúpsteiktir kartöfluklattar, Flammkuchen sem eru einskonar þunnar pizzur með svínakjötsáleggi og svo að sjálfsögðu Bratwurst-pylsur sem vinsælar eru í Þýskalandi. Ferðamennirnir smakka að sjálfsögðu líka matinn en eru meira að kaupa jólaskrautið og fínu hlutina sem eru til sölu. Sterk angan af ristuðum heitum kastaníuhnetum og ristuðum sætum og krydduðum möndlum er einkennandi fyrir markaðina og afar jólalegt að upplifa. Einnig er rík hefð fyrir vönduðu handgerðu viðarjólaskrauti eins og fjárhúsinu í Betlehem með Jesúbarninu og ýmsum öðrum vönduðum jólavörum.

Jólamarkaðir

Frankfurt jólamarkaðurinn á sér langa sögu eða allt frá 14. öld sem gerir hann einn af eldri jólamörkuðum Þýskalands. Markaðurinn nær yfir stórt svæði í miðbænum eða frá Friedrich-stoltze-platz úr norðri og Paulsplatz og Römerberg úr suðri. Markaðurinn er einn af þeim stærstu og vinsælustu í Þýskalandi og fólk frá öllum heimshornum heimsækir hann enda mörg flugfélög sem fljúga þangað og því hægt um vik. Básarnir þykja frumlegir og glæsilegir. Risastórt jólatré er sett upp við markaðinn ár hvert sem einkennir hann. Mikið líf er í Frankfurt á þessum tíma og tilvalið að slá tvær flugur í einu höggi, versla, heimsækja góða veitingastaði og þennan stóra mikla jólamarkað í miðbænum.

Heidelberg er ein þeirra borga í Þýskalandi sem þykir hvað fallegust. Að standa á jólamarkaðnum með útsýni yfir gamla bæinn og kastalann sem stendur hátt og gnæfir yfir bæinn þykir mörgum með því fallegasta í Þýskalandi. Kastalinn hefur mikið aðdráttarafl ferðamanna enda afar fallegur. Á Karlsplatz er skautasvell og þaðan er frábært útsýni yfir Heidelberg-kastala. Markaðurinn er opinn frá 26. nóvember til 22. desember og er staðsettur í gamla bænum. Í bakgrunni blasir kastalinn við. Það tekur um klukkutíma að keyra frá Frankfurt til Heidelberg og svipað langan tíma að fara með lest.

Köln Það eru yfirleitt sjö jólamarkaðir í þessari milljón manna borg. Það er erfitt að ímynda sér að borgin hafi nánast verið jöfnuð við jörðu í seinni heimsstyrjöldinni og aðeins lítill hluti gamla borgarhlutans stóð eftir. Ein af þeim byggingum sem skemmdist ekki er þekktasta og næsthæsta dómkirkja Þýskalands, en hún er mest sótti ferðamannastaður Þýskalands og alveg þess virði að skoða hana og kynna sér sögu hennar. Jólamarkaðirnir eru staðsettir allt í kringum kirkjuna og í næsta nágrenni. Vinsælasti jólamarkaðurinn er við Rudolfplatz. Einungis klukkustund tekur að fara með lest til Kölnar frá Frankfurt.

Wurzburg á Marienkapelle-torginu, ríkir mikil jólastemning á hverju ári og þykir markaðurinn þar með þeim fallegri í Þýskalandi. Þangað koma margir ferðamenn á aðventunni og bærinn fyllist af lífi. Jólamarkaðurinn er haldinn á markaðstorginu þar sem sögulegar byggingar mynda fallegan bakgrunn við jólaskreytingar sölubásana. Würzburg liggur við bakka árinnar Main og er þekkt fyrir fallega miðbæinn sinn sem í eru hvorki meira né minna en 40 kirkjur og margar sögulegar byggingar. Fjöldi bygginga hefur verið endurbyggður frá því í stríðinu. Ekki nema um 130.000 íbúar eru í borginni og umhverfis hana eru vínhéruð og mikið er um vínkjallara. Markaðurinn er opinn frá 30. nóv. til 23 des. Það tekur um klst. með lest að fara frá Frankfurt til borgarinnar.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -