Fimmtudagur 18. apríl, 2024
1.1 C
Reykjavik

Baunir en ekki saltkjöt – daðrað við hefðina og hollustuna

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Á sprengideginum er hefð fyrir saltkjöti og baunum og mörgum finnst gaman að gæða sér á þessum þjóðarrétti Íslendinga. Fyrir þá sem ekki borða kjöt eða vilja breyta til er hægt að nýta daginn í að gera gómsæta öðruvísi máltíð úr baunum enda eru þær mjög hollar, trefjaríkar og góðar.

 

Grænar linsubaunir með ristuðu grænmeti og geitaosti

fyrir 3-4
Þetta salat er gott eitt og sér eða sem meðlæti með öðrum mat. Það geymist vel í kæli í
allt að þrjá daga.

½ butternut-grasker, skorið í teninga
2 stórar gulrætur, skornar í sneiðar
1 rauðrófa, skorin í teninga
2 msk. ólífuolía
1 tsk. salt
100 g geitaostur eða fetaostur, skorinn í bita
250 g puy-linsubaunir eða grænar linsubaunir
1 lárviðarlauf
steinselja til skrauts

Hitið ofninn í 200°C. Setjið grasker, gulrætur og rauðrófu á stóra ofnskúffu og veltið upp úr ólífuolíu og sáldrið salti, hyljið með álpappír. Bakið í ofninum í 20 mínútur. Takið þá úr ofninum og fjarlægið álpappírinn og bakið áfram þar til grænmetið hefur eldast í gegn og er orðið fallega gyllt eða í u.þ.b. 30 mín.

Setjið til hliðar og látið kólna. Sjóðið linsubaunirnar ásamt lárviðarlaufi í potti ásamt 2 lítrum af vatni. Lækkið hitann þegar suðan kemur upp og látið malla í 20-30 mín. eða þar til baunirnar hafa eldast í gegn en hafa samt enn þá smábit. Sigtið vatnið frá og hendið lárviðarlaufinu. Setjið baunirnar í skál.

Vinaigrette
½ dl rauðvínsedik
2 tsk. dijon-sinnep
½ tsk. salt
1 dl ólífuolía

- Auglýsing -

Hrærið saman edik, sinnep og salt. Pískið síðan ólífuolíuna saman við þar til allt hefur samlagast. Veltið linsubaununum upp úr helmingnum af vinaigretteblöndunni. Blandið ristaða grænmetinu og ostinum varlega saman við. Smakkið og bragðbætið með vinaigrette og salti. Setjið salatið á stóran disk og stráið steinselju yfir.

Taílensk linsubaunasúpa og Grænar linsubaunir með ristuðu grænmeti og geitaosti. Mynd/Hákon Davíð Björnsson

Taílensk linsubaunasúpa

fyrir 3-4

1 msk. ólífuolía
1 laukur, saxaður
2 msk. rautt karrímauk
2 stilkar sítrónugras, marðir
rifinn börkur og safi af 1 límónu
250 g rauðar linsubaunir
1 dós (400 ml) kókosmjólk
1 tsk. salt
ferskur kóríander eftir smekk
10 snjóbaunir, skornar á ská í sneiðar (má sleppa)
1 rautt chili-aldin, skorið í sneiðar (má sleppa)

- Auglýsing -

Hitið ólífuolíu í potti yfir meðalháum hita og steikið laukinn þar til hann er farinn að gyllast. Hrærið karrímaukið vel saman við. Bætið sítrónugrasi, límónuberki, linsubaunum, salti og kókosmjólk saman við. Hellið 500 ml af vatni yfir og náið upp suðu, lækkið síðan hitann og látið hægsjóða í 20-30 mínútur eða þar til linsubaunirnar eru orðnar mjúkar.

Hendið sítrónugrasinu og maukið súpuna þar til hún er orðin alveg kekkjalaus. Skreytið með kóríander, snjóbaunum og chili-aldini.

Umsjón / Nanna Teitsdóttir
Stílisti / Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir
Myndir/Hákon Davíð Björnsson

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -