Þriðjudagur 3. desember, 2024
0.8 C
Reykjavik

Ítalskar matarhefðir – Ekki háma í þig matinn, engin salatsósa og farðu rólega í parmesanostinn

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ítalir eru hrifnir af hefðum og matarmenningin er þar engin undantekning. Hér eru nokkrar góðar matarreglur til að hafa í huga ef heimsækja á Ítalíu.

  • Morgunverður á Ítalíu samanstendur oftast af sætum bita svo sem cornetto sem er eins konar ítölsk tegund af hinu franska crossaint, og cappuccino eða sterkum espressó.
  • Ef morgunmatur er ekki borðaður heima er algengt að koma við á espressóbar á leið til vinnu og drekka þar kaffibolla. Það þykir ekki fínt að panta kaffibollann í ferðamáli heldur er hans notið á staðnum.
  • Cappuccino er ekki pantaður eftir klukkan 11. Kaffi með mjólk er ekki viðeigandi nema á
    morgnana þar sem það er annars talið trufla meltinguna.
  • Ekki nota hníf til að borða pasta, meira að segja lasagne. Þá ertu að gefa í skyn að pastað sé ekki nægilega soðið.
  • Spagettí er einungis borðað með gaffli, skeiðar eru fyrir börn.
  • Með mat er drukkið vatn eða vín. Ítalir vilja njóta bragðsins af matnum og ekki skemma
    það með drykkjum sem passa ekki við matinn. Eina undantekningin er pítsa en með henni er viðurkennt að panta kók eða bjór en ekki meira en eitt glas, ekki biðja um áfyllingu!
  • Ekki reyna að biðja um salatsósu á salatið þitt. Ítalir setja ólífuolíu og balsamedik á salatið sitt enda er ólífuolía algengasta meðlætið með mat á Ítalíu.
  • Ekki háma í þig matinn. Það er algengt að eldamennskan taki langan tíma og borðhaldið
    getur staðið yfir í margar klukkustundir. Þegar borðað er á veitingastað má gera ráð fyrir því að þjónustan sé hæg, réttirnir margir og mjög ólíklegt að þjónninn vilji fá borðið fyrir aðra gesti eftir ákveðinn tíma.
  • Brauð sem kemur á borðið á veitingastöðum er ekki hugsað til að borða fyrir matinn heldur frekar sem verkfæri til að taka upp sósuna sem verður eftir á disknum eftir að maturinn hefur verið kláraður. Ítalir eiga orð yfir þetta „Fare la scarpetta“. Það þykir þó ekki fínt að gera það í formlegum boðum eða á fínni veitingastöðum, þar er betra að nota gaffalinn til að skafa upp restina af sósunni á disknum.
  • Löngunin til að setja parmesanost á allt getur verið sterk en þar gilda ákveðnar reglur og
    hefðir eins og með svo margt á Ítalíu. Ekki setja parmesanost yfir aðalréttinn þinn eða secondi og þá sérstaklega ekki ef hann inniheldur sjávarfang. Parmesanostur er settur yfir pasta eða risotto, þó með undantekningu ef það inniheldur sjávarfang.
  • Þó að ítalskur skyndibiti þekkist alveg þá er hann borðaður standandi eða sitjandi en það þykir ekki fínt að ganga á meðan maturinn er borðaður. Með einni undantekningu sem er gelato og er hann oft borðaður í kvöldgöngunni.

Þó að ítalskt borðhald geti staðið yfir í margar klukkustundir borða flestir Ítalir frekar einfalt á virkum dögum. Þegar haldið er matarboð eða borðað er á veitingarstöðum má búast við þessari röð rétta:

Aperitivi

Þessi drykkur er drukkinn áður en borðhaldið hefst. Hann þarf ekki að vera áfengur en ætti að vera ferskur og örlítið beiskur eins og Campari eða freyðandi eins og prosecco til að ýta undir matarlystina.

Antipasti

Eins konar forréttir eða smáréttir sem samanstanda af blönduðum heitum eða köldum litlum réttum sem breytast eftir árstíðum og er oft lögð áhersla á það sem er búið til í nágrenninu. Oft er boðið upp á antipasti með aperitivi.

Primi

Heitur milliréttur sem samanstendur til dæmis af súpu, risotto, pasta eða gnocchi.

Secondi

Þetta er aðalrétturinn og er algengt að hann sé fiskur, kjöt eða villibráð. Það fylgir oft ekki mikið meðlæti með secondi, því er ráðlagt að panta með honum contorni.

Contorni

Hér er verið að tala um meðlæti með aðalréttinum þar sem grunnurinn er alltaf grænmeti.
Algengt contorni er til dæmis verdure alla griglia/grillað grænmeti, patate fritte/steiktar kartöflur, melanzane parmigiana/ bakað eggaldin með tómötum og parmesan-osti, fagioli/baunir og insalata/salat.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Eina fagtímaritið um mat og vín á Íslandi

Gestgjafinn

Tryggðu þér áskrift á 1.790 kr. á mánuði eða kauptu stakt blað á 1.890 kr.

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -