Þriðjudagur 25. júní, 2024
7.1 C
Reykjavik

Sumarbaksturinn – góð ráð

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Nokkur bakstursráð sem ættu að koma að góðum notum.

Það er gott að vita að deig flokkast í megindráttum í þrjá flokka.
Hrært deig þar sem byrjað er á því að hræra mjúkt smjör og sykur saman.
Þeytt deig en þá eru egg og sykur þeytt þar til það verður ljóst og létt.
Hnoðað deig þar sem hveiti og smjör er mulið saman og vökvi hnoðaður saman við það.

Þegar þið lagið þeytt deig, þ.e. deig þar sem byrjað er á því að þeyta egg og sykur vel saman, er gott að nota egg sem eru við stofuhita. Froðan verður miklu loftmeiri og kakan léttari. Ef þið eruð í tímahraki er ráð að leggja þau í heitt vatn úr krananum í skál í 5 mínútur.
—-

Gaman er að nota lifandi blóm til skreytinga. Mynd/Hákon Davíð Björnsson, Stílisti / Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir

Góðir bakarar nota gjarnan fleiri en eitt ráð þegar kemur að því að athuga hvort kakan er bökuð eða ekki. – Hvernig kakan lítur út, hvernig hún lyktar og hvernig hún er viðkomu.
Ofnar eru til dæmis misjafnir. Byrjið á að athuga hvernig baksturinn á kökunni gengur 7-8 mínútum áður en baksturstímanum ætti að vera lokið. Kakan ætti að vera tilbúin þegar deig festist ekki á prjóni sem stungið er í miðjuna á kökunni. Annað gott ráð er að „hlusta“ á kökuna. Þegar kemur að lokum bökunartíma hættir hviss-hljóðið að heyrast í kökunni. Flestar kökur losna líka aðeins frá börmunum þegar þær eru tilbúnar.
—-
Stundum á maður ekki stærðina á forminu sem gefin er upp í uppskriftinni. Þá þarf að hafa í huga að ef stærðinni er breytt, breytist bökunartíminn á kökunni. Stærra form getur þýtt skemmri bökunartími og minna form lengri tíma.
—-
Passið vel að skálin sem á að þeyta eggjahvíturnar í sé alveg tandurhrein. Smáarða af fitu í skálinni getur orðið til þess að hvíturnar stífna ekki. Eggjahvítur verða að vera alveg aðskildar frá rauðunum, smávegis af rauðu getur eyðilagt allt. Best er að aðskilja egg sem eru köld úr ísskáp, þá er rauðan afmarkaðri frá hvítunni og betra að aðskilja þau.
—-
Uppskriftin kallar á mjúkt smjör og smjörið er glerhart í ísskápnum. Gott ráð er að raspa það á rifjárni eða sneiða með ostaskera það magn af smjöri sem þarf í uppskriftina.
—-
Það er mikilvægt að lesa alla uppskriftina yfir áður en byrjað er að baka. Síðan skuluð þið taka allt til sem á að fara í uppskriftina. Sumum finnst gott að raða hráefninu upp í þeirri röð sem á að nota það. Farið síðan yfir tímann sem gefinn er í baksturinn. Það er ekki gaman að lenda í tímaþröng og kakan ekki tilbúin í ofninum.
—-

Það er mjög gott að ná kökum úr smelluformum, sérstaklega ef þið setjið bökunarpappír á botninn. Hér er sýnt hvernig sniðugast er að setja pappírinn í slíkt form. Mynd/Myriam Marti

—-
Fyrir þá sem vilja ná sem bestum árangri í bakstrinum er ekki alveg sama hvernig hveiti er notað í kökur. Það er um að gera að kynna sér hinar mismunandi tegundir. Létt hveiti sem inniheldur lyftiefni er til dæmis það sem er best að nota í bakstur á fínni kökum.
—-
Margir eru óöruggir með hvaða rim kakan á að vera í ofninum (þ.e.a.s. þegar ekki er notast við blástursofn). Reglan er sú að allar kökur t.d. formkökur sem bakast við vægan hita 175°C eða minna, bakast á neðstu rim. Bökur eru líka bakaðar á neðstu rim svo botninn bakist vel og allar kökur sem eru með sykraðan yfirflöt. Brauð sem eru lengi í ofninum eru oftast bökuð neðarlega í ofninum en brauðbollur á miðrim. Aðrar kökur sem eru bakaðar við hærri hita og eru 30 mínútur eða skemur í ofni er best að baka í miðjum ofni. Ef þið eruð óörugg er ráð að fylgjast vel með kökunni og breiða álpappír yfir hana, ef hún er að dökkna of mikið.

Betri er krókur en kelda
Oft er þægilegt að stytta sér leið í eldamennsku eða við bakstur en stundum borgar það sig þó alls ekki. Eitt af því sem fólk ætti alls ekki að sleppa er að fóðra form með bökunarpappír. Best er að smyrja formið vel t.d. með smjöri eða bragðlítilli olíu og setja síðan bökunarpappírinn ofan á. Þetta er ekki eins flókið og það hljómar. Hér eru tvær skotheldar leiðir til að klæða bæði aflöng form og smelluform.

Aflöng form: Klippið 2 lengjur af pappír og leggið aðra langsum og hina þversum yfir formið eins og á mynd. Mynd/Myriam Marti
Smelluform: Takið bút af smjörpappír, leggið ofan á lausan botninn og festið smelluhringinn ofan á. Klippið aukapappír frá. Mynd/Myriam Marti

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -