Mánudagur 22. júlí, 2024
9.8 C
Reykjavik

Byrjaði að taka upp á fermingargræjur bróður síns

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Hljómsveitin Warmland var að senda frá sér sína fyrstu plötu, Unison Love, en sveitina skipa Arnar Guðjónsson og Hrafn Thoroddsen sem hafa komið víða við. Margir þekkja Arnar úr hljómsveitinni Leaves og Hrafn úr hljómsveitunum Ensíma og Jet Black Joe. Albumm hitti á Arnar á dögunum.

 

„Ég og Hrafn kynntumst fyrir um það bil 10 árum þegar við túruðum með Barða Jóhannssyni og hljómsveitinni Bang Gang. Það var mjög skemmtilegur tími og við fórum nokkrum sinnum til Kína og Frakklands,“ segir Arnar. „Fljótlega eftir að við kynntumst deildum við saman hljóðveri, ég var með stúdíóið á daginn og Hrafn á kvöldin. Fyrir rúmum tveimur árum fannst okkur vera kominn tími til að prófa vinna saman þannig að við héldum fund. Þegar við bárum saman bækur okkar komumst við að því að við vorum alveg á sömu línu og áttum slatta af lögum sem pössuðu vel saman.“

„Það sem stendur helst upp úr hjá mér er að hafa gert þetta allt með æskuvinum mínum.“

Kapparnir hafa fengið góðar viðtökur bæði hér heima og erlendis. Spurður hvort stefnan sé sett á útlönd og tónleikahald svarar hann að svo sé, þeir séu að vinna í þeim málum og spenntir yfir að spila meira á tónleikum. Arnar ætti að vera vel vanur að pakka ofan í töskur og túra um heiminn en eins og fyrr segir var hann í hljómsveitinni Leaves sem hefur gert mjög góða hluti hér heima og erlendis. Hljómsveitin túraði út um allan heim með mörgum af þeirra uppáhalds hljómsveitum á borð við Supergrass og fleirum. Einnig var spilað á mörgum stærstu tónlistarhátíðum heims eins og Glastonbury.

„Það voru ótrúleg forréttindi að fá að ferðast um allan heim með Leaves. Það hlýtur að vera draumur alls tónlistarfólks að fá svona tækifæri,“ segir hann. „Það sem stendur helst upp úr hjá mér er að hafa gert þetta allt með æskuvinum mínum.“

Hljóðritaði fyrstu plötu Kaleo

Arnar á og rekur Aeronaut Studios sem er lítið hljóðver úti á Granda og hefur komið að fjölda tónlistarverkefna í gegnum tíðina. Hann hefur verið að taka upp frá því að hann byrjaði að spila á gítar tíu ára gamall.

- Auglýsing -

„Ég byrjaði að taka upp á Goldstar-fermingargræjurnar hans Sigga bróður til þess að heyra gítarleikinn minn og svo hef ég oft tekið upp það sem ég hef verið að gera. Fyrsta heila platan sem ég tók upp fyrir einhverja aðra en sjálfan mig var með hljómsveitinni Tenderfoot (Without grafity) árið 2004. Síðan þá hef ég tekið upp fjöldann allan af tónlistarfólki,“ segir Arnar.

Hann vann til dæmis fyrstu plötu Kaleo og einnig helminginn af A/B-plötunni þeirra. „Það hefur verið ótrúlegt að fylgjast með Kaleo-strákunum. Hlutirnir gerðust á svo miklum hraða og algjörlega verðskuldað að mínu mati. Ég get samt ekki sagt að ég hafi búist við því sem kom í kjölfarið af fyrstu plötunni því það þarf alltaf mikla heppni til þess að allt gangi upp. Þeir eru ótrúlega vinnusamir og alltaf trúir sjálfum sér þannig að það er algjörlega frábært að þetta hafi farið á flug.“

Hvað er svo fram undan hjá þér og Warmland? „Fram undan hjá mér eru mörg spennandi verkefni í stúdíóinu. Ég er að fara gera tónlist við heimildarmynd eftir franska leikstjórann Thierry Robert en ég hef unnið mikið með honum undanfarin ár. Þetta er fjórða myndin sem ég geri með honum en tónlistin mín við myndina La Forêt kom út í júní. Svo eru spennandi tímar fram undan með Warmland. Fleiri tónleikar og svo ætlum við að fara vinna nýja tónlist fljótlega.“

- Auglýsing -

Texti / Sigrún Guðjohnsen

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -