Fimmtudagur 10. október, 2024
1.6 C
Reykjavik

Endurheimti sköpunarþörfina á Íslandi

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Tónlistarmaðurinn Gísli Kristjánsson hefur sent frá sér nýja plötu, Skeleton Crew, en 15 ár eru liðin frá því að síðasta sólóplata hans, How About That, kom út. Albumm hitti Gísla og byrjaði að spyrja hvers vegna svona langur tími hafi liðið á milli platna.

 

„Ég hef oft reynt að hætta í tónlist en maður læknast aldrei af þessari þörf fyrir að skapa, semja og skrifa, þótt auðvitað geti alls konar hlutir sett strik í reikninginn, athyglisbrestur, verkkvíði og svona sem allir listamenn þjást af,“ útskýrir Gísli, en tekur fram að hann hafi gefið út lög í millitíðinni, svo sem Going On og Paper Bag sem fengu góða spilun í útvarpi. „Svo var ég allt í einu kominn með nokkur góð lög góð sem pössuðu vel saman og áttu erindi við umheiminn. Þannig að ég gaf út þessa plötu, bara af því að mig langaði það. Það er ekkert flóknara en það.“

„Ég hef oft reynt að hætta í tónlist en maður læknast aldrei af þessari þörf fyrir að skapa, semja og skrifa.“

Gísli segir að á meðan fyrsta platan hafi einkennst af lo-fi- og hip-hop-skírskotunum snúist sú nýja meira um lagasmíðar og texta með vel innpökkuðum einkahúmor. „Annars er þetta bara sama vitleysan og alltaf, ég spila á öll hljóðfærin, tek upp og mixa; konan mín Elíza (Newman, úr hljómsveitinni Kolrössu krókríðandi) spilar á fiðlur og syngur bakraddir í nokkrum lögum, dóttir okkar spilar á fullt af slagverksdóti og Birkir Rafn Gíslason spilar eitt geggjað gítarsóló.“

Á samningi hjá EMI

Gísli hefur starfað mikið erlendis og var um tíma á samningi hjá EMI UK. Spurður hvernig það hafi komið til segist hann hafa samið lag, How About That, sem umboðsfyrirtæki sveitar sem hann var í, hafi litist vel á. Hann fékk í kjölfarið tilboð frá fimm stærstu plötufyrirtækjum Bretlands og var fljótlega kominn á samning hjá EMI. „Ég fékk að gera margt og lærði svo mikið og er þakklátur fyrir það. En tónlistarbransinn getur verið eins og frændi sem var skemmtilegastur þegar þú varst lítill, svo þegar þú ert orðinn fullorðinn fattarðu að þetta heitir að vera alkóhólisti,“ segir hann.

Fann ástina í London

- Auglýsing -

Titillag plötunnar How about that naut vinsælda í Evrópu og Bandaríkjunum og eftir þriggja ára tónleikaferðalag var stefnan tekin á Los Angeles þar sem Gísli hljóðritaði aðra plötu sína með upptökustjóranum Mickey Petralia sem þá hafði gert plötur með Eels, Peches, Dandy Warhols, Beck og fleiri stórstjörnum. Eftir L.A. sneri hann sér að upptökustjórnun og lagasmíðum fyrir aðra í London og vann meðal annars með Duffy, Mick Jones (The Clash) og verðlaunaða lagahöfundinum Cathy Dennis. Þar kynntust þau Elíza og bjuggu saman úti þangað hún varð barnshafandi. Þá sneru þau aftur til Íslands en Gísli hafði þá búið erlendis í 20 ár. „Eftir heimkomu byrjaði ég að hlusta á tónlist aftur mér til skemmtunar og hætti að hugsa um hana sem vinnu og það varð til þess að ég endurheimti þörfina fyrir að semja lög,“ segir hann.

15 ár eru liðin frá því að síðasta sólóplata Gísla, How About That, kom út.

Í dag búa hjónin á Höfnum á Reykjanesi þar sem þau reka eigið stúdíó. Gísli segir að það sé algjör draumur að búa í sveit, sérstaklega þegar mann langi að koma einhverju í verk, eins og til dæmis að semja lög. En vinna þau mikið saman? „Já. Ég tek upp lögin hennar og spila á alls konar fyrir hana og Elíza spilar í mínum lögum sem virkar vel. Það er gott að hafa hana því hún er með meiri reynslu eftir allar sínar  plötur. Við höfum líka gengið í gegnum mikið af sömu hlutunum á þessu brölti okkar þannig að við skiljum hvort annað vel.“

Spurður hvort hann ætli að fylgja plötunni eftir með tónleikahaldi segir hann það ekki á döfinni. „Kannski breytist það ef ég er duglegur og held áfram að gefa út efni sem fólki finnst skemmtilegt.“

- Auglýsing -

Texti / Sigrún Guðjohnsen
Mynd / Elíza Newman

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -