Þriðjudagur 3. desember, 2024
3.8 C
Reykjavik

Ótrúlega stoltur og ánægður með músíkina

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Kristinn Arnar Sigurðsson, eða krassasig, hefur þrátt fyrir ungan aldur, komið víða við á sínum lista- og tónlistarferli. Eftir stúdentspróf af sjónlistadeild úr Myndlistarskólanum í Reykjavík, hefur Kristinn lært að djöggla saman leikmyndahönnun, skúlptúr, fatahönnun og leikstjórn en tónlistin er aldrei langt undan. Einn dag í einu er nýtt lag frá honum sem fjallar um hvernig honum hefur liðið núna í apríl, þrátt fyrir að hann hafi samið lagið fyrr í vetur.

„Þetta er mjög einfalt og opið „konsept“. Mig langaði að ramma inn tilfinninguna að horfa fram á bjartari tíma, tilhlökkun, að sitja og dreyma og gleyma stað og stund,“ segir Kristinn aðspurður um hvað lagið fjallar.

„Ég fékk alls ekki listrænt uppeldi og kem frá heimili þar sem var töluvert meiri áhersla lögð á raungreinar og vísindi,“ segir hann. „En ég var krakkinn sem var alltaf að teikna, hætti ekki að teikna og var mikið að klippa og líma saman eitthvað, taka í sundur hluti og sauma saman eitthvað drasl og setja upp leikrit. Ég held að ég hafi bara alltaf verið mjög forvitinn og algjör fiktari, alltaf einhvern veginn fundist ég geta leikið mér að umhverfinu og snúið því við.“

Kristinn djögglar saman leikmyndahönnun, skúlptúr, fatahönnun, leikstjórn og tónlist.

Eins og fyrr segir hefur Kristinn komið víða við á sínum listaferli en er eitthvað eitt sem stendur upp úr frekar en annað? „Verkefni sem ég horfi oft til er tónlistarmyndbandið við I’d Love með Auði, þar sem ég hannaði og smíðaði leikmyndina. Það verkefni hrinti mjög miklu af stað hjá mér, og var fyrsta stóra leikmyndaverkefnið sem veitti mér reynslu og tækifæri á því sviði,“ útskýrir hann og bætir við að hann hafi einnig kynnst Auðunni í gegnum þetta ferli sem leiddi til

„Mig langaði að ramma inn tilfinninguna að horfa fram á bjartari tíma, tilhlökkun, að sitja og dreyma og gleyma stað og stund.“

mjög sterkrar vináttu þeirra og áframhaldandi samstarfs, bæði í tónlist og alls konar öðru, til dæmis myndböndum og viðburðum.

„En svo þykir manni, held ég, alltaf vænst um það sem maður er að gera þá stundina, ég er ótrúlega stoltur og ánægður með músíkina sem ég er að gera núna undir nafninu krassasig.“

- Auglýsing -

Miðað við allt það sem þú hefur gert, hvað myndirðu kalla þig?

„Ég er alltaf að skipta um hatt, það fer eiginlega eftir því við hvern ég tala hvernig ég titla mig, en þegar ég reyni að draga þetta allt saman segi ég myndlistar- og tónlistarmaður, en það nær því samt ekki alveg,“ útskýrir hann og brosir.

Hvers konar tónlist spilar þú og hvaðan sækir þú innblástur í þína listsköpun?

- Auglýsing -

„Ég spila alls konar tónlist en ég er í grunninn algjör poppari og sæki, held ég, mest innblástur í popptónlist frá ólíkum tímum. Ég hef líka mikið horft til Frakklands núna upp á síðkastið, þar er yfirleitt einhver mjög sterk víbra sem ég heillast af. En svo hlusta ég líka mjög mikið á nútímaklassík, Ólaf Arnalds, Jóhann Jóhannsson, Nils Frahm, Jon Hopkins og fleiri.“

Hvað er fram undan?

„Ég hef verið að vinna í plötu sem er ansi langt komin. Annars er sumar og bjartari tímar, eins og vonandi hjá flestum. Ég er líka með nokkur leikmynda- og leikstjórnarverkefni á teikniborðinu sem ég er ótrúlega spenntur fyrir, þannig að ég held bara áfram að djöggla, vona að ég missi ekki bolta.“

Texti / Sigrún Guðjohnsen
Myndir / Saga Sig

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -