Þriðjudagur 16. júlí, 2024
9.8 C
Reykjavik

Úr hugbreytandi efnum í tebolla

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ekki hringja í nótt, er nýjasta lagið hans Joseph Muscat eða Seint en hann hefur verið lengi í tónlistinni, meðal annars í nokkrum harðkjarnahljómsveitum. Þegar Joseph fjárfesti í sinni fyrstu fartölvu árið 2009 kviknaði áhuginn hjá honum að búa til raftónlist. Albumm hitti á kappann og fékk að forvitnast um hvernig allt þetta byrjaði.

„Ég hef verið í metal og harðkjarnanum síðan árið 2003. Þá byrjaði ég að spila á bassa í metal-hetjuhljómsveitinni Brothers Majere sem tók þátt í Músíktilraunum árið 2004. Það var árið sem Mammút sigraði.“

Hljómsveitin lagði í laupana rétt fyrir 2005 og spilaði lokatónleikana í TÞM, Tónlistarþróunarmiðstöðinni, þar sem hún fékk að hita upp fyrir eina af uppáhaldshljómsveitum Josephs í harðkjarnanum, Modern life is war. „Það var heiðarlegur dauðdagi fyrir sveitina. Hún virðist á seinni árum hafa fengið smávegis „cult status“ í metal-senunni hérna heima. Þar sem við vorum einungis 15 ára þegar við gáfum út okkar fyrstu official-útgáfu. En það var 15 mínútna metal-ópera sem kallast Read an ephipany. Hægt er að hlusta á hana á Youtube, þrátt fyrir að ég hafi ekki hugmynd um hvernig hún rataði þangað þar sem engin okkar setti hana upp. En gaman af þessu.“

Úr ösku þeirrar hljómsveitar stofnaði hann Celestine árið 2006. „Hún hefur starfað síðan en með miklum meðlimaskiptum í gegnum árin. Þetta er bara svo inngróinn partur af mér að berja á gítarinn að ég held ég muni aldrei sleppa takinu af honum,“ segir Joseph en hljómsveitin er að vinna að sinni fjórðu plötu og planið er að halda tónleika á næstu mánuðum.

Joseph var svo í goðsagnakenndu harðkjarnahljómsveitinni I adapt árið 2008 og segir hann að sú hljómsveit sé ein ástæða þess að hann ákvað að feta braut tónlistarinnar. „Það var hinn æðsti heiður að hafa fengið að koma fram með henni seinasta hálfa árið sem hljómsveitin var starfandi,“ segir hann. „Hljómsveitin tók ævintýralegan túr um Bandaríkin og endaði á 500 manna troðfullum lokatónleikum í TÞM. Nítján ára ég fékk þennan draum uppfylltan og verð ég ávallt þakklátur fyrir það.“

„Það var hinn æðsti heiður að hafa fengið að koma fram með henni seinasta hálfa árið sem hljómsveitin var starfandi.“

Var ungur og forvitinn
Hvað var það sem fékk þig til að breyta um tónlistarstefnu? „Minn áhugi á að búa til raftónlist kviknaði árið 2009 þegar ég fékk fyrstu fartölvuna mína. En ég hafði hlustað mikið á hljómsveitir á borð við Nine Inch Nails og Massive Attack og síðan á hipp hopp í bland við það. Plús hugbreytandi efni á þeim tíma sem höfðu auðvitað áhrif á hversu glaður ég var að prófa nýja hluti. Enda var ég ungur og forvitinn. Í dag er góður tebolli nóg fyrir mig til að koma mér í sköpunargír,“ segir hann og hlær. „En ég rokkaði alltaf líka og hef sinnt öllum mínum verkefnum í tónlist af jafnmiklum áhuga. Seint kom mun seinna inn í myndina eftir að ég hafði prófað mig áfram í allskonar stefnum,“ útskýrir hann og bætir við að fyrsta platan sem hann gaf út undir því nafni hafi verið á árinu 2015.
Segja má að hljóðheimurinn sem Joseph er búin að skapa sér sé algjörlega sér á báti. Hann segist hafa verið fljótur að finna sig í rokkinu enda aðeins 18 ára þegar Celestine sendi frá sér sína fyrstu plötu sem fékk glimrandi viðtökur um allan heiminn í jaðarsenunni. „Ég var semjandi slík lög á háum skala mjög snemma. Örugglega í svipuðum gír og krakkarnir í hipp hopp og poppinu í dag. Hins vegar tók mig mun lengri tíma að fikra mig áfram í raftónlistinni þar sem ég var í raun aldrei viss hvað það var nákvæmlega sem ég vildi koma áleiðis.“

Texti/Sigrún Guðjohnsen

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -