Fimmtudagur 18. apríl, 2024
4.1 C
Reykjavik

„Æxlið sprakk inni í mér“ – Vignir berst bjartsýnn og óhræddur við fjórða stigs krabbamein

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Vignir Daðason, sem gengur undir nafninu Vigga Daða, ólst upp í Keflavík. Hann varð fyrir áfalli 10 ára gamall sem markaði líf hans í áratugi og sauð reiðin í honum í 35 ár. Hann kynntist sem unglingur vímuefnum, var á yngri árum í ýmsum hljómsveitum og hann fór í meðferð 2001 eftir að hafa átt langt „þurrktímabil“. Árið 2008 þegar efnahagshrunið varð lét hinn ómeðhöndlaði alkóhólismi á sér kræla og hrundi hann á huga, líkama og sál og upplifði kulnun. Vignir lærði síðan dáleiðslufræði í Bandaríkjunum og síðan hefur hann aðstoðað marga sem dáleiðari. Í dag glímir Vignir við 4. stigs krabbamein og elskar lífið.

 

 

Hann kom í heiminn í Keflavík árið 1962 þegar Ray Charles söng I can’t stop loving you, þegar Bobby Vinton söng Roses are red og þegar Elvis Presley söng Can’t help falling in Love. Og svo sungu meðlimirnir í The Duprees You belong to me.

Lífið gekk sinn vanagang á Reykjanesinu þar sem eldar úr iðrum jarðar loga í dag og drengurinn sparkaði bolta og stundaði skólann. Námið gekk vel framan af en svo breyttist allt.

„Ég var beittur misrétti þegar ég var 10 ára gamall. Það gerði mig svo reiðan að ég var reiður í 35 ár. Ég eyddi 35 árum af ævi minni í að vera reiður út í einn einstakling. Ég hataði hann svo mikið að mig langaði til þess að drepa hann en það eina sem það gerði var að það drap mig meira og meira með hverjum deginum sem leið. Og allt í kringum mig sem ég snerti visnaði upp; það bara fjarlægðist. Ég held að ég hafi ekkert verið sérstaklega leiðinlegur einstaklingur en reiðin var mér fjötur um fót. Ég reyndi alltaf að halda andliti og þykjast vera einhver annar en ég var. Fólk var meðvitað um það.“

- Auglýsing -

 

Ég var beittur misrétti þegar ég var 10 ára gamall. Það gerði mig svo reiðan að ég var reiður í 35 ár.

Vignir fór í sumarbúðir sumarið sem hann var 10 ára og segir hann að starfsmaður þar hafi lamið sig, dregið sig upp við gaddavírsgirðingu, og sé hann með ör á höfðinu til minningar um það, og síðan hafi starfsmaðurinn dregið sig niður í matsalinn og spurt hina krakkana hvort það ætti ekki að hafa hann í bandi fyrir utan eins og hina hundana.

Vignir segir að þetta hafi breytt sér. Þessi reynsla hafði áhrif á skólagönguna og hætti hann að nenna að læra. Svo fór hann að drekka 13 ára. Og skapið fór að versna. Allt fór að versna. Svo fór hann að reykja hass 15 ára en honum fannst hann ekki eiga við vandamál að stríða þar sem hann reykti bara á kvöldin og um helgar. Tíminn leið, hassið hætti að virka og þá tóku sterkari efni við. Hann er lærður húsasmiður og vann í gegnum árin meðal annars við húsasmíðar og húsamálun og svo kom hann reglulega fram sem söngvari með píanóundirleik á börum. Hann átti erfitt með að tolla í vinnu og skipti reglulega um vinnuveitanda. Hann fann fyrir kvíða og þunglyndi eftir atvikið í sumarbúðunum og það hafði áhrif á allt. Honum fannst hann almennt vera fórnarlamb og allt vera öðrum að kenna. Vandmálin voru af ýmsum toga og nefnir hann að hann hafi meira að segja verið svo erfiður í umgengni þegar hann var í hinum ýmsu hljómsveitum að stundum var hann bara einn eftir. Allir aðrir voru hættir. „Það glumdi í höfðinu á mér lagið með Ríó tríóinu „Allir eru að gera það gott nema ég“.“

- Auglýsing -

Jú, árin liðu. Og neyslan jókst.

„Ég gat ekki drukkið áfengi. Ég varð svo fárveikur af því.“ Hann reykti hass þegar hann var yngri eins og þegar hefur komið fram, svo tók amfetamín við og loks kókaín.

Svo gerðist eitthvað. Hann vildi hætta í dópinu. Það var árið 1984. Hann segist hafa dreymt mörgum árum áður að hann myndi hætta í ákveðnum félagsskap það ár. Og svo varð.

„Ég lifði í einhverju sem heitir „ómeðhöndlaður alkóhólismi“ en ég fór ekki í neina meðferð. Ég bara hætti. Ég hélt ég ætti ekki við vandamál að stríða; maður var bara að djamma. Svo hélt reiðin áfram eftir að ég hætti allri neyslu og svo kom neyslan af meiri krafti af því að ég hafði ekkert til þess að deyfa mig með lengur og einn góðan veðurdag 12 árum síðar þótti mér það vera góð hugmynd að fá mér; það er svo lýsandi fyrir hugarfarið sem alkóhólisminn tileinkar sér að það sé í lagi að fá sér núna af því ég var svo lengi búinn að vera þurr. Og þá fór ég í ennþá harðari neyslu og þannig var það í fjögur ár. Svo fæddist mér dóttir árið 2000 og þá breyttist líf mitt. Þá langaði mig til að breytast og vera sá sem ég átti alltaf að vera; þá fann ég þessa knýjandi löngun að vera þessi einstaklingur sem var fæddur á jörðina til þess að hjálpa öðrum til að finna ljósið sitt.“

Og hann fór í meðferð árið 2001.

Hann stóð á krossgötum í hruninu árið 2008. „Þá hrundi ég andlega, líkamlega og veraldlega. Ég var ekki í neyslu þá en með ómeðhöndlaðan alkóhólisma. Ég hafði lent í mörgum minniháttar slysum en lenti í mótorhjólaslysi árið 2003 sem var farið að banka verulega á dyrnar hjá mér og skertist starfsorka mín í kjölfarið. Ég tapaði öllu sem ég átti og ég hef aldrei náð mér eftir það,“ segir Vignir sem hætti að borga reikninga í hruninu. „Ég var ekki í neinu standi til eins eða neins. Ég vissi ekki hvað væri að mér en það kallast „kulnun“ í dag. Og ég vissi alveg á þessum tíma hvað kvíði var. Og ég vissi alveg hvað ótti var. Ég var svo hræddur að ég þorði ekki að fara í göngutúra heiman frá mér öðruvísi en að taka símann með mér ef ske kynni að ég dytti niður dauður en þá gæti ég kannski hringt í einhvern,“ segir hann og hlær. „Auðvitað var það svo heimskulegt að það náði engri átt.“

 

Ég var ekki í neinu standi til eins eða neins. Ég vissi ekki hvað væri að mér en það kallast „kulnun“ í dag.

 

 

Dáleiðari

Oft er sagt að það sem fari upp fari svo aftur niður. Vignir fór niður, alla leið á botninn, en hann náði að krafla sig upp úr djúpum og myrkum brunninum; hann segir að hann hafi þurft að byrja upp á nýtt. Frá núlli. Hann fór í 12 spora samtök sem hann telur að hafi bjargað lífi sínu. Hann hafði áður verið með annan fótinn í 12 spora samtökunum en áttaði sig á að ekkert hálfkák dugði. Hann þurfti í ofanálag að breyta mataræðinu og huga mikið að andlegri heilsu sinni sem og líkamlegri heilsu. Sú vinna stendur enn yfir.

Áður en hann náði almennilega að krafla sig upp úr brunninum djúpa og myrka hélt hann vestur um haf til að læra dáleiðslutækni sem hann lærði einnig hérlendis. Hann kom síðan heim og opnaði uppi á Ásbrú stofu þar sem hann bauð upp á ókeypis tíma. „Ekki vegna þess að ég væri svona frábær heldur langaði mig til að verða betri í því sem ég var að gera. Og þar af leiðandi gat ég hjálpað fólki og í senn sjálfum mér. Ég tók líka að mér á þessum tíma að kenna öldruðum leikfimi og það gerði ég í tvö ár og fannst mér það vera æðislegt.“

Vignir segist hafa aðstoðað marga og þeir eru margir sem segja að Vignir hafi aðstoðað sig.

Svo kynntist hann ástinni aftur og á hann og sú barnsmóðir hans þriggja ára gamla dóttur. Lífið virtist brosa við þeim. Svo kom skellurinn árið 2019. Þá blasti við annar djúpur og myrkur brunnur.

 

Æxlið sprakk

„Ég ákvað árið 2016 að fara í allsherjartékk og láta kanna blóðið í mér og fleira. Þá kom í ljós að ég var með skerta nýrnastarfsemi í öðru nýranu. Það sem mér þótti undarlegt var að læknirinn skyldi ekki skoða þetta nánar eða senda mig til sérfræðings.“ Svo leið tíminn og Vignir var farinn að fá bakverki. „Mér var farið að svíða svo mikið í blöðrunni einn daginn og ég var farinn að vera í vandræðum með eðlileg þvaglát. Ég var sífellt að fara til læknis og vildi láta athuga hvort ég væri með þvagfærasýkingu eða hvort eitthvað annað væri að. Mér var alltaf meinað um það; mér var neitað um þá þjónustu sem ég vildi fá. Læknirinn lét mig í eitt skiptið bara frá sýklalyf. Ég kom hálfum mánuði síðar og sagði að þessi sýklalyf væru ekkert að gera sig og að ég ætti enn við sama vandamál að stríða. Þá sagði hann að ég skyldi bera sveppakrem á skaufann á mér. Ég sagðist ekki vera með sveppasýkingu. Það endaði með því að ég spurði hann hvort honum fyndist hann vera góður læknir og hann spurði á móti hvernig spurning þetta væri. Ég svaraði að það væri eðlilegt að ég spyrði því hann virtist ekki hafa hugmynd um hvað hann væri að gera.

Ég fór síðan til annars læknis sem veitti mér að lokum þjónustu sem ég hafði beðið um; þvagfærasýkingarmeðferð en vildi í leiðinni láta athuga hvort ég væri með klamidíu eða lekanda. Hann sagði að þetta væri staðaltékk. Ég fór undrandi í þetta test og síðan var hringt í mig og mér sagt að ég væri hvorki með klamidíu né lekanda. Ég sagði að það væri gott að vita það og spurði hvað hefði komið í ljós varðandi þvagfærasýkingu. Mér var sagt að ég væri trúlega ekki með slíka sýkingu.

Heimilislæknirinn minn kom loksins úr veikindaleyfi og ég sagði honum þá raunasögu mína af þessum viðskiptum við þessa lækna sem mér fannst vera algjörlega út úr kú. Ég var að glíma við brjósklos í hálsinum á mér í kjölfar mótorhjólaslyssins og eftir samræður okkar ákvað hann að ég færi á sterkan, bólgueyðandi lyfjakúr sökum hálsmeiðsla og er ég sannfærður um að það hafi bjargað lífi mínu því að að fjórum dögum liðnum hafði greinilega komið gat á æxlið í öðru nýranu þannig að ég pissaði svörtu. Það tengist trúlega lyfinu.“

Vignir segist strax hafa farið á læknavaktina og hitt þar lækni sem vildi setja hann á sýklalyf eftir að hann léti athuga hvort hann væri með þvagfærasýkingu.

„Barnsmóðir mín var ekki sátt við þetta og hún fór að leita að einhverjum lækni og fyrir einhverja guðsmildi fann hún lækni á einkarekinni stofu og þangað hringdi hún morguninn eftir. Henni var sagt að það væri ekki laus tími fyrr en um einum og hálfum mánuði síðar. Barnsmóðir mín sagði að ég væri farinn að pissa blóði og að ástandið væri alvarlegt. Konan í móttökunni spurði um kennitöluna mína og þegar hún sá nafnið mitt sagði hún: „Er þetta Viggi Daða?“ Þá var þetta góð kunningjakona mín úr Keflavík og ég á henni í rauninni lífið að þakka. Yndisleg manneskja. Hún hleypti mér örugglega fram fyrir einhvern annan eða að tími hafi losnað vegna þess að ég komst að samdægurs og tveimur dögum síðar var ég kominn í bráðaaðgerð á nýranu. Í staðinn fyrir aðgerð sem átti að taka tvo og hálfan tíma þá var þetta átta stunda aðgerð af því að æxlið sprakk inni í mér. Það þurfti að kalla út aukalið og ég held að það hafi færri komist að en vildu. Það var heljarinnar kaos og mér var ekki hugað líf. Það kom svo í ljós að ég hafði verið kominn með meinvarp í lifrina út frá nýranu þannig að ég var kominn með nýrnakrabbamein í lifrina. Ég fór því í aðra aðgerð tveimur mánuðum síðar og fór þá í raun einnig í bráðaaðgerð á lifrinni. Hún átti að taka fjóra klukkutíma en endaði líka í átta klukkutímum út af því að þeir þurftu að taka átta sentímetra af lifrinni og skáru í leiðinni á slagæð og missti ég 1,8 lítra af blóði. Mér var heldur ekki hugað líf í þessari aðgerð.

Mikið hrikalega var ég svo þakklátur mínum æðri mætti og því sem ég trúi að hafi komið mér í gegnum þetta og öllum þeim frábæru læknum sem við eigum sem eru virkilegir snillingar í því sem þeir eru að gera. Ég er þó ennþá að takast á við eftirlegukind af þessu öllu saman því ég er ennþá með tvö meinvörp í lifrinni sem komu í ljós í vor en mér hafði verið tjáð eftir seinni aðgerðina í hittifyrra að þetta væri allt búið. Ég væri bara hreinn.“

Vignir hefur frá því í vor farið í nokkrar lyfjameðferðir og hafa sumar tekið mikið á.

Ýmislegt hefur komið upp á og stuttu áður en viðtalið var tekið kom í ljós að nýrað í Vigni er undir miklu álagi og að innkirtlakerfið hafi ruglast. „Það er óþægilegt að fá að vita að það sé meira álag á þessu eina nýra sem ég er með heldur en eðlilegt er en þegar maður horfir á það þá er það ósköp eðlilegt miðað við það sem á undan er gengið. Það má kannski segja að þetta séu óþægilegar fréttir og auðvitað vill maður helst ekki vera undir neinu álagi né að hafa óvissu í lífi sínu.“

 

Í staðinn fyrir aðgerð sem átti að taka tvo og hálfan tíma þá var þetta átta stunda aðgerð af því að æxlið sprakk inni í mér.

 

 

Aukaverkanir

Meinvörpin eru að sögn Vignis ekki skurðtæk. „Þau eru á þannig svæði í lifrinni; þetta er á bláæðasvæðinu og það væri hreinlega ekki hægt að skera þau í burtu nema að það hefði jafnvel slæm áhrif á lifrarstarfsemina.“

 

Hann segist ætla að komast í gegnum þetta. „Ég veit að ég hefði ekki farið í gegnum allt hitt til þess að þetta yrði endastöðin mín.“

Hann segist halda að horfurnar séu ágætar. Aukaverkanir hafa haft áhrif. „Það þarf að koma líkamanum á réttan stað til að komast í gegnum síðustu lyfjameðferðina; að keyra líkamsstarfsemina á þann stað sem hún þarf að vera á því nú er ég á sterum sem keyra upp kortisolið á eðlilegan máta,“ segir Vignir en nýlega var kortisolið í honum komið niður í tvo en á að hans sögn að vera 500; þetta gerði það að verkum að hann svaf mest allan sólarhringinn á tímabili. „Það væri hægt að fixa kortisolið á „no time“ með því að sprauta því í mig en ég myndi þá eðlilega hrynja fljótt niður í því aftur þannig að ég er líka á sterum til að draga úr bólgum ef einhverjar bólgur hafa myndast í líkamanum eða jafnvel við heiladingulinn eða í skjaldkirtlinum.“

Hann fer fljótlega í myndatöku og þá kemur í ljós hver staðan er. „Ég finn að það er mikil vinnsla í líkamanum. Ég finn að það eru mikil átök í lifrinni.“

Vignir fær líftæknilyf og segir hann að þau eigi að endurræsa allar frumur í líkamanum. „Allar frumur sem hafa hingað til verið að ráðast á krabbameinsfrumurnar eru orðnar samdauna þeim; þær taka krabbameinsfrumunum sem eðlilegum hlut í líkamanum þegar maður er búinn að vera með svona stórt æxli sem var búið að breiða úr sér yfir í lifrina. Það kallast 4. stigs krabbamein. Það er fullt af fólki sem hefur læknast af 4. stigs krabbameini, sérstaklega í dag af því að lyfin eru orðin svo fullkomin svo sem þessi líftæknilyf sem endurræsa frumurnar til þess að ráðast á krabbameinsfrumurnar. Vandamálið sem fylgir þessu er að það eru oft og tíðum svo miklar aukaverkanir og þar með talið þessar aukaverkanir sem ég er að takast á við svo sem lækkun kortisols og röskun innkirtla. Það hefur því þurft að gera smáhlé á meðferðinni en lyfið er þó í þrjár vikur að vinna þannig að ég hef þrjár vikur til að koma mér á þannig stað að ég geti farið í fjórðu lyfjameðferðina; eftir það fer ég í tvær minni meðferðir. Þetta er það sem læknarnir lögðu upp með í byrjun.“

 

 Það er fullt af fólki sem hefur læknast af 4. stigs krabbameini.

 

 

Þegar sálin bognar

Líkamleg veikindi eru eitt. Andlegt álag sem fylgir krabbameinsgreiningu, meðferð og veikindum er annað. Vignir ber sig vel en segir að vissulega komi þeir dagar þegar hann finnur fyrir ótta og vanlíðan.

„Ég nýti mér bara þau tæki sem ég hef og ég fer þangað sem ég þarf að fara til að tala um þetta. Ég geymi þetta ekkert inni í mér. Ég ræði þessi mál og ef ég verð eitthvað órólegur þá hugsa ég um eitthvað annað heldur en sjálfan mig.“

Hann segir að þegar hann greindist í fyrra skiptið hafi hann litið svo á að þetta væri eitt verkefnið í viðbót sem hann þyrfti að takast á við. „Ég hef alltaf haft þá djúpu tilfinningu inni í mér að alveg sama hvað gerist þá veit ég að þetta verður í lagi. Ég er búinn að fara í gegnum svo margt að ég veit að þetta er ein hindrunin á veginum sem ég er að fara yfir. Á meðan ég fæ að hjálpa öðrum og hugsa um aðra þá veit ég að það er séð um mig.“

Dauðinn. Vignir segir að hann hafi auðvitað hugsað um dauðann þegar hann greindist í hittifyrra. Að hann gæti dáið úr krabbameini. „Ég er mannlegur.“

Hvað er dauðinn í huga hans? „Hann er bara færsla á tilvist.“

Hann segist ekki óttast dauðann. Manninn með ljáinn. „Það sem ég glími við eru mínar egósentrísku hugsanir. Þegar kemur að þeim tíma sem það gerist, þegar ég er að fara að deyja, þá byrjar egóið mitt að segja við mig að ég eigi að vera hræddur. Þá er það kannski það að ég vil ekki sleppa því sem ég á hér og ég held að það sé stærsti faktorinn af því að ég á svo fallegt líf sem ég er nýbúinn að fá upp í hendurnar.“

Þögn.

„Þætti mér það ekki vera súrt ef ég þyrfti að skilja við það þegar ég er loksins að þroskast?“

Tár á hvarmi.

Barnsmóðir sem á hjarta hans sem og þriggja ára dóttir og önnur dóttir, 21 árs, sem hann á með annarri konu. Og svo er það sjö ára stjúpsonur.

Hann segist vita að það taki eitthvað við að lokinni þessari jarðvist. Segir að það sé erfitt að útskýra hvernig hann viti það. Segist vera næmur maður á sinn hátt.

„Ef fólk er í ljósinu og þessum fagurleika og lifir ekki í því að hugsa bara um rassgatið á sjálfu sér þá verður það meðvitað um að það er svo miklu meira til heldur en nokkurn tímann þetta. Það er jafnþunnt á milli og filman sem við setjum yfir matinn áður en við setjum hann inn í ísskáp.“

Hann segist hafa lært að tala ekki um fólk heldur tala við fólk. „Ég hef líka lært að bregðast ekki við vegna þess að þegar ég bregst við sjúkleika annarra þá verð ég sjúkur af þeim sjúkleika og þá ber ég þann sjúkleika inn í mínar aðstæður og annarra. Ég er ekkert nema viðbrögð mín.“

Vignir segist hafa mikla vernd. „Það er ég að leiðbeina mér úr annarri tilvist en svo eru leiðbeinendur sem koma líka og hjálpa til ef meira þarf til.“

Hann dreymir um að ná heilsu. Lifa lífinu. Og hann dreymir um að halda áfram því sem hann er að gera og geta hjálpað heiminum til að sigrast á ótta; komast úr egóinu sínu og inn í ljósið.

Hvað er ljósið í huga Vignis?

„Það er þetta guðlega sem býr inni í okkur hvernig svo sem fólk upplifir það; hvernig svo sem það finnur þetta guðlega inni í sér hvernig svo sem það birtist. Allt það fallega í kringum mann; börnin þegar þau brosa til manns og þegar maður sér ljós kvikna í úrvinda sálum og sér fólk skyndilega lifna við. Þetta er guð eins og ég skil hann. Lífið er yndislegt.“

 

Söfnun stendur yfir fyrir Vigni og fjölskyldu og segist hann vilja þakka þeim sem hugsa til sín, hafa styrkt hann á allan hátt og sent honum hlýjar kveðjur. 0544-26-062024 kt 2808902439

 

Ég er búinn að fara í gegnum svo margt að ég veit að þetta er ein hindrunin á veginum sem ég er að fara yfir.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -