• Orðrómur

Björn lögregluvarðstjóri jarðsunginn: „Stóri-Björn var höfðingi í lund og hvers manns hugljúfi“

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Björn Sigurðsson fyrrverandi varðstjóri, fæddur á Möðru­völl­um í Hörgár­dal 9. maí 1934 og  lést þann 5. júlí síðast liðinn í Kópavogi.  Foreldrar hans voru þau séra Sigurður Stefánsson, prófastur og vígslu­bisk­up á Möðru­völl­um í Hörgár­dal og frú María Ágústsdóttir, cand.phil. Eig­in­kona Björns var Krist­ín Bögeskov, djákni og var hún með BS í ís­lensku og dönsku, f. í Reykja­vík, 17. ágúst 1935 og dáin 15. ágúst 2003. Hann lætur eftir sig fimm uppkomin börn.

Björn var formaður Lög­reglu­fé­lags Reykja­vík­ur og formaður Hesta­manna­fé­lags­ins Gusts. Hann gegndi ýms­um trúnaðar­störf­um, fé­lags­störf­um og skrifaði hann nokkr­ar grein­ar í Morg­un­blaðið og smá­sög­ur.

 

- Auglýsing -

„Þegar hinir merku skák­menn, Fischer og Spassky, voru að kljást við flotta borðið í Laug­ar­dals­höll­inni 1972 tók pabbi vakt­ir þar, flest­ir lög­reglu­menn með mik­inn áhuga á skák og pabbi auðvitað hinn ánægðasti að fá vakt­ir þarna. Hon­um datt þá í hug að leyfa mér að koma við á milli skáka, gekk með mér upp að borðinu, bauð mér sæti og við tók­um nokkra leiki. Þarna er hann klár­lega að gæta að því að dreng­ur­inn fengi snert af sög­unni í raun­tíma og þessa aðferð notaði ég sjálf­ur á mín börn ef færi gafst við upp­eldi þeirra. Ekki ætla ég að fara yfir fleiri atriði en vona að þess­ar stuttu lýs­ing­ar nái að sýna hvaða hug ég bar til pabba, en svona vil ég minn­ast hans og þegar ég sat við bana­beð hans fyrr í mánuðinum voru það akkúrat slík­ir smá­punkt­ar úr æsku sem höfðu mest áhrif á mig og kölluðu fram söknuð“.

Björn Ágúst Björns­son.

 

- Auglýsing -

„Óvænt rekst ég á að hann Stóri-Björn sé all­ur. Björn var stór í sniðum hvar sem á hann var litið. Höfðingi í lund og hvers manns hug­ljúfi að mér fannst alla tíð. Við urðum sam­skipa til Nor­egs í skóg­rækt­ar­ferð 1952. Hann vakti at­hygli mína fyr­ir það að vera sjó­veik­ari en aðrir menn báðar leiðir yfir hafið en þá voru ekki flug­ferðir al­geng­ar hjá alþýðu. Við fór­um utan með missjóneraskipinu Brandi V sem var þurrt skip og Guðræki­legt og lítið fjör um borð. En heim fór­um við Heklunni þar sem allt flaut í lystisemd­um þessa heims og ný­mæla fyr­ir ung­ling­inn. Okk­ar kynni hóf­ust hins veg­ar ekki fyrr en ég fór að brjót­ast í að byggja yfir bólgn­andi fjöl­skyld­una. Eft­ir ár­ang­urs­laus­ar lóðarumsóknir í fæðing­ar­bæ mín­um Reykja­vík endaði ég með að hitta mann í Kópa­vogi sem vantaði að selja hús­helm­ing sem hann ætlaði að byggja á lóð með minka­búi á við Hlíðar­veg. Þar var kom­inn sá sjó­veiki aft­ur. Gamli Sveinn út­vegaði mér steypu­út­tekt og með því gerðust kaup­in. Björn fór að slá upp. En hann vann eins og marg­ir lög­regluþjón­ar við mótarifr­ildi á frívökt­um og var því aldrei langt und­an landi í bygg­inga­brans­an­um alla tíð. Bæði byggði sjálf­ur og vann með öðrum. Húsið reis og inn komst ég á þrítugsaf­mæl­inu fyr­ir krafta­verk og hjálp tengda­fólks og vina. Þar bjugg­um við fjöl­skyld­an þar til að húsið sprakk utan af okk­ur. Í all­an þenn­an tíma bjugg­um við á neðri hæð hjá Stóra-Birni og Krist­ínu Bögeskov konu hans og fjór­um börn­um. Aldrei bar skugg­ann á í þessu sam­býli og var þó tals­verður sam­gang­ur milli hæðanna. Björn var formaður í Gusti og kom okk­ur til að byggja hest­hús með fé­lög­um sem við átt­um lengi. Björn hafði mik­inn húm­or og stund­um laumu­leg­an en kerskni­laus­an. Tók vel í nefið og kunni að njóta lífs­ins þegar svo bar und­ir. Stund­um kom bróðir hans sr. Ágúst í heim­sókn og fögnuðu þeir hóg­lega góðum kynn­um. Elsti son­ur­inn Sig­urður lærði söðlasmíði og voru þeir feðgar með söðlasmíði Þor­vald­ar lengi vel í bíl­skúr­un­um á Hlíðar­veg­in­um þar sem ég fékk húsa­leig­una skil­vís­lega goldna í tveim­ur hnökk­um ár­lega. En börn­in okk­ar voru sum jafn­aldra og oft líf í tusk­un­um. En við hjón­in átt­um neðri hæðina í góðu sam­komu­lagi við hjón­in á efri hæðinni lengi eft­ir þetta. Björn þekkti ara­grúa fólks og kunni manna best að um­gang­ast erfiðleika. Hann sagði mér sig yf­ir­leitt vilja fara einn til að fást við æst­an múg þar sem hon­um gengi þá bet­ur að tala fólk til en með óvan­inga sér við hlið. Bauð bjálf­un­um kannski í nefið til að byrja með. En ekki var víst heigl­um hent að tak­ast á við hann Stóra-Björn ef menn létu ekki segj­ast með góðu. En hann var friðar­ins maður fyrst og fremst þar til annað þraut. Erfiðast væri að skera niður börn.

Mér fannst ávallt birta þegar ég hitti Björn, hann var svo skemmti­leg­ur í viðræðu og létt­ur í fasi. Seinni árin strjáluðust kynn­in. Hann lenti í sorg með missi sinn­ar elsku­legu konu af slys­för­um og ég hef heyrt að heilsu hans hafi hrakað eft­ir það.

Minn­ing­in um þenn­an hug­ljúfa mann end­ist okk­ur sem þekktu hann. Traust­ur og hlýr með samúðar­stórt hjarta“.

- Auglýsing -

Hall­dór Jóns­son.

 

 

Mannlíf vottar aðstandendum innilega samúð. Blessuð sé minning Björns.

 

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 
- Auglýsing -

Orðrómur

Helgarviðtalið

Lestu meira

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

- Auglýsing -