Laugardagur 15. júní, 2024
5.8 C
Reykjavik

Dagskránni í Metropolitan-óperunni aflýst – „Þetta er mikið högg fyrir fólk“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Í gær var greint frá því að dagskránni í Metropolitan-óperunni í New York hefur verið aflýst út árið. Óperan hefur verið lokuð frá 12. mars vegna kórónuveirufaraldursins. Stefnt er að því að opna óperuna aftur um áramótin en mikil óvissa er ennþá uppi.

Söngkonan Dísella Lárusdóttir segir kollega sína sem voru búnir að ráða sig í sýningar í Metropolitan-óperunni í haust vera ráðvillta. „Auðvitað skilja þetta allir en fólk er engu að síður ráðvillt og hrætt. Þetta er mikið högg fyrir fólk,“ segir Dísella í samtali við Mannlíf.

„Ástandið er auðvitað svakalega erfitt í Bandaríkjunum og óvissan hefur verið mikil. Svo bárust þessar fréttir í gær.“

Í grein New York Times um stöðuna sem er komin upp í Metropolitan-óperunni segir að það hafi verið skoðað að halda dagskránni gangandi með breyttu sniði og þá hleypa færri gestum inn í húsnæðið hverju sinni til að tryggja að gestir gætu haldið fjarlægð við hvorn annan. Í ljós kom að það verkefni hefði reynst flókið í framkvæmd og óvíst hvort reksturinn myndi standa undir kostnaði með því sniði.

„Það hefði orðið mjög tómlegt í þessu stóra húsi ef það ætti að dreifa gestum til að tryggja að hægt væri að halda tveggja metra fjarlægð. Þannig að þetta var ákvörðunin sem var tekin,“ segir Dísella.

„Núna er ljóst að margt fólk fær ekki vinnuna í haust sem það hafði búist við að fá. Svo er reiknað með að hægt verði að opna aftur um áramótin en maður veit ekki hvernig veirufaraldurinn þróast, kannski blossar þetta aftur upp.“

- Auglýsing -

Spurð út í hver staða kollega hennar sem höfðu skrifað undir samning við óperuna vegna sýninga seinna á árinu sé segir Dísella: „Það er ekkert hægt að gera. Þetta er gríðarlegt tap fyrir óperuna sjálfa en líka fyrir einstaklingana sem þar vinna. Núna er verið að benda fólki í neyð á að það er hægt að sækja um styrk í stéttarfélagssjóð, en maður veit ekki hvað það dugar,“ útskýrir Dísella.

„Núna er ég bara að bíða og sjá hvað verður. Maður vonar það besta.“

Dísella hefur tekið þátt í ýmsum verkefnum í Metropolitan-óperunni síðan árið 2007. Sjálf átti Dísella ekki að taka þátt í neinum verkefnum í Metropolitan-óperunni í haust heldur er hún bókuð í verkefni í Frakklandi seinna á árinu „Núna er ég bara að bíða og sjá hvað verður. Maður vonar það besta.“

Hún tekur fram að þrátt fyrir að hún hafi ekki verið bókuð í nein verkefni vestanhafs í haust þá hefur ástandið sem ríkir núna þau áhrif að öll dagskráin í Metropolitan-óperunni riðlast og samningurinn hennar við óperuna eftir áramót er því í lausu lofti.

- Auglýsing -

Hún kveðst vera fegin að vera heima á Íslandi á meðan ástandið er eins og raun ber vitni. „Ég var heppin að því leyti til að ég var mikið að vinna úti í fyrra og var búin að ákveða að vera meira heima í vor til að verja tíma með fjölskyldunni. En það yrði svakalegt högg að missa vinnuna í haust. Ég hefði verið í vondum málum ef faraldurinn hefði skollið á í fyrra vegna þess að verkefnastaðan var þannig hjá mér.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -