Blóðug hópslagsmál brutust út á Pride-hátíðinni sem fór fram í New York-borg seinustu helgi og handtók lögreglan 22 einstaklinga vegna slagsmálanna og var 16 sleppt eftir yfirheyrslur. Líklegt þykir að sex manns verði ákærðir fyrir sinn þátt í slagsmálunum. Ekki liggur fyrir af hverju slagsmálin brutust út. „Þetta er alveg galið, Pride-hátíðin á ekki að vera svona,“ sagði einn hátíðargestur við ABC7 fréttastofuna. „Við eigum að koma saman að njóta okkur og elska hvort annað. Ég vona að það verði ekki meira ofbeldi.“ Þá þurfti að flytja 20 ára gamlan karlmann á sjúkrahús eftir að hann var ítrekað skotinn en byssumaðurinn gengur ennþá laus. „Ég hélt að þetta væru flugeldar af því að þetta er Pride-hátíðin,“ sagði maður sem var á svæðinu en ekki liggur fyrir hvort skotárásin og hópslagsmálin tengjast.