Fimm menn sem voru í lyftu sem hrapaði í Svíþjóð í gær eru allir látnir. Sagt er frá atvikinu í sænsku miðlum en rannsókn á málinu er hafin. Skoðað verður hvort vinnulöggjöf hafi verið brotin og slysið hafi borið að með saknæmum hætti. Lyftan er sögð hafa fallið 20 metra en hún var á byggingarsvæði í Sundbyberg í Svíþjóð. „Þetta er alvarlegt atvik sem við höfum til rannsóknar, fimm manns hafa verið úrskurðaðir látnir,“ sagði Gunnar Jonasson, saksóknari við Umhverfis- og vinnuumhverfisstofnun Svíþjóðar í fréttatilkynningu um málið. Unnið er að því að bera kennsl á mennina og hafa samband við aðstandendur. Búið er að tilkynna slysið til sænska vinnueftirlitsins og hefur öllum framkvæmdum á svæðinu verið hætt meðan rannsókn stendur yfir.