Miðvikudagur 24. apríl, 2024
7.1 C
Reykjavik

„Glæpur sem kemst næst manndrápi“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Lausnin á ráðgátunni um afdrif Geirfinns Einarssonar felast í hinum röngu sakargiftum svo og framburði Guðjóns Skarphéðinssonar, slíkt hlýtur að vera öllum hugsandi mönnum ljóst sem kynna sér dóm Hæstaréttar Íslands frá 22. febrúar 1980. Það svarar um leið spurningunni hvað eigi að verða um frumvarp það sem birt er á þingskj. nr. 184.“

 

Þannig lýkur umsögn Magnúsar Leopoldssonar, Einars Gunnars Bollasonar og Valdimars Olsen um tillögu um heimild stjórnvalda til að greiða bætur til þeirra sem hlutu dóm í Guðmundar- og Geirfinnsmálum. Í umsögninni fara undirritaðir hörðum orðum um þátt Erlu Bolladóttur, en framburður hennar varð til þess að þeir voru hnepptir í gæsluvarðhald í 105 daga vegna meints morðs á Geirfinni Einarssyni 19. nóvember 1974.

Í umsögninni er rakið hvernig Magnús, Einar og Valdimar voru handteknir 26. janúar 1976, á grundvelli framburðar Erlu, Sævars Marínó Ciesielski og Kristjáns Viðars Viðarssonar.

„Lögreglan tjáði okkur að best væri að meðganga strax þar sem framburðir þeirra Erlu, Sævars og Kristjáns um þátt okkar þriggja væru afdráttarlausir. Þær yfirheyrslur tóku mjög á okkur og fjölskyldur okkar og þarf engan að undra þar sem sannleikurinn var sá að enginn okkar hafði farið til Keflavíkur á þessum tíma, enginn okkar hafði hitt eða þekkt Geirfinn Einarsson og innbyrðis tengsl á milli okkar voru engin.“

Magnús, Einar og Valdimar segja hinar röngu sakargiftir ekki hafa verið bornar fram í eitt skipti heldur ítrekað. „Erla bar undirritaðan Magnús sökum í sjö skipti, undirritaðan Einar, bróður sinn, bar hún röngum sökum í sjö skipti, Sigurbjörn [Eiríksson] bar hún röngum sökum í þrjú skipti og undirritaðan Valdimar bar hún sökum í tvö skipti. Svipað var með þá Sævar og Kristján sem báru okkur röngum sökum ítrekað,“ segir í umsögninni.

„Eftir að við vorum látnir lausir hinn 9. maí 1976 vorum við allir í farbanni mánuðum saman og máttum sæta mikilli félagslegri útskúfun og alvarlegum fordómum um allt íslenskt þjóðfélag. Það var fyrst við uppkvaðningu dóms sakadóms Reykjavíkur 19. desember 1977 að það varð loks opinberlega staðfest að við fjórmenningarnir höfðum allir verið hnepptir saklausir í gæsluvarðhald á grundvelli rangra sakargifta dómfelldu í málinu,“ segir enn fremur.

Segja Erlu hafa „blygðunarlaust“ blekkt dómara, lögmenn og lögreglumenn

- Auglýsing -

Í umsögninni kemur fram að vistin í Síðumúlafangelsi hafi verið Magnúsi, Einari, Valdimari og Sigurbirni ákaflega erfið. Að sitja saklaus inni, svo og að koma aftur út í þjóðfélagið hafi reynst þrautin þyngri.

„Að vera borinn þeim sökum að hafa ráðið manni bana – án nokkurs tilefnis – er glæpur sem kemst næst manndrápi.“

Þremenningarnir segjast allir hafa mátt þolað miklar hörmungar sem Erla var upphafsmaðurinn að. „Líf okkar snérist árum saman um að minna á að við stóðum ekki að vígi Geirfinns Einarssonar, þótt í áranna rás hafi margir samborgarar okkar ekki gert mikinn mun á þeim sem voru dæmd fyrir þau manndráp ásamt öðrum afbrotum og okkur sem saklausir voru færðir inn í atburðarásina af dómfelldu í málinu.“

Erla Bolladóttir. Mynd / Hallur Karlsson

Í umsögninni er því lýst hvernig Erla hafi „blygðunarlaust“ blekkt dómara, lögmenn og lögreglumenn margsinnis. Því hafi þeir sjálfir orðið vitni að þegar þeir voru samprófaðir með Erlu. „Í samprófunum var hún staðföst án þess að nokkur lögreglumannanna hefði afskipti af.“

- Auglýsing -

Það mikilvægasta hafi þó verið þegar Guðjón Skarphéðinsson var handtekinn og gaf skýrslu þar sem hann upplýsti að enginn fjórmenninganna hefði átt þátt í hvarfi Geirfinns. Guðjón hefði lýst því að hann hefði tekið nærri sér að vita af hinum röngu sakargiftum en ekki haft kjart til að stíga fram og segja frá því fyrr.

„Augljóst er af framburði Guðjóns við þessar aðstæður að hann var við málið riðinn úr því að hann vissi um sakleysi okkar.“

Magnús, Einar og Valdimar segja „mannorðsmorðið“ hafa verið þeim dýrkeypt; heilsufarslega, fjárhagslega, samfélagslega og sálarlega. „Sigurbjörn Eiríksson lagðist fljótlega í rúmið vegna afleiðinga af innilokuninni, hann náði aldrei að jafna sig. Hver okkar hinna hafa átt í mismiklum erfiðleikum sem allt má rekja til framburðar Erlu, Sævars og Kristjáns Viðars. Margra ára fordómar kynslóða í garð okkar og endalaus grunur um að við höfum átt þátt í að bana manni hefur skaðað okkur og fjölskyldur okkar meira en nokkur orð fá lýst,“ segir í umsögninni.

Fara þremenningarnir hörðum orðum um þátt Erlu og segja fjarstæðukennt að ætla að greiða henni bætur. Þá fái þeir ekki séð að unnt sé að fallast á bætur til handa öðrum dæmdum þar sem þeir hafi verið fundnir sekir um fjölda annarra brota.

„Sá sem ber einhvern röngum sökum gerir það vegna þess að hann hefur eitthvað að fela,“ segja þeir undir lok umsagnarinnar.

Umsögn Magnúsar, Einars og Valdimars.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -